Skip to main content

Heimur batnandi fer. Í það minnsta fyrir alla þá sem þrá að komast til Alicante á Spáni næsta sumarið ef marka má nýja úttekt Fararheill.

Bæði Primera og Wow lenda rellum sínum í Alicante í allt sumar eins og í fyrra.

Verðkönnun okkar leiðir í ljós að þangað er komist sumarið 2015 og heim aftur á allt að 10 til 30 prósent lægra verði en fyrir ári síðan hvað viðkemur Wow Air. Lægstu fargjöld Primera Air sömu leið standa i stað eða hækka lítillega.

Sjá má á meðfylgjandi töflu lægsta verð fram og aftur næsta sumar með báðum flugfélögum samkvæmt úttekt sem Fararheill gerði þann 17. desember 2014. Hún sýnir að flugmiðar Wow Air fást á lægra verði allt sumarið þó litlu muni reyndar þegar á sumarið líður. Munar töluverðu hér og frá því í október 2013 þegar við gerðum einnig slíka könnun. Þá reyndust flugfargjöld Wow Air þessa leiðina mun dýrari eins og sjá má hér.

Fargjöld lettneska flugfélagsins Primera Air hafa þó ólíkt fargjöldum Wow hækkað nokkuð. Lægst verð á flugsæti með þeim í nóvember 2013 aðra leiðina fékkst á tæpar 26 þúsund krónur eða kringum 50 þúsund á mann báðar leiðir. Nú er lægsta verð á sama flugi tæpar 60 þúsund krónur. Þó finnur Fararheill flug með þeim gegnum dótturfyrirtækið Heimsferðir á lægra verði en á vef flugfélagsins sjálfs. Það gæti því borgað sig fyrir áhugasama að skoða einnig „aðeins flug“ flipann á vef Heimsferða áður en bókað er.

*Tekið skal fram að hér er um að ræða eina tösku með í för hvers ferðalangs hjá báðum flugfélögum. Primera Air leyfir þó jafnframt meiri handfarangur en Wow Air.