Ýmislegt skrýtið í kýrhausnum og jafnvel kýrauganu líka hjá íslenskum stjórnvöldum sem segjast hörð á að minnka kolefnislosun landsins eins hratt og auðið er. Það telst þó afar jákvætt að gefa Icelandair og Play góðan afslátt af slíkum kröfum.
Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, hefur eytt drykklöngum tíma í Brussel síðustu dægrin til að reyna að sannfæra Evrópusambandsfólk um kosti þess að gefa Íslandi mun rýmri mengunarheimildir í flugrekstri. Sambandið hefur ákveðið að minnka skuli mengun frá flugi evrópskra aðila um 55 prósent eftir sjö ár 2030 og þar miðað við mengun flugfara árið 1990.
Eðli máls samkvæmt eru öll flugfélög Evrópu, þrátt fyrir fagrar yfirlýsingar í auglýsingum, mótfallin slíku því meiri mengunarkostnaður mun þýða hærri flugfargjöld sem aftur þýðir að evrópsk flugfélög tapa samkeppnishæfni gagnvart annarra þjóða rellum þar sem engar slíkar reglur eru til staðar. Evrópa er leiðandi allra álfa þessa heims að draga úr mengun og það kostar vitaskuld fórnir.
Rök Lilju og stjórnvalda er að flug sé miklu mikilvægara Íslandi en öðrum þjóðum álfunnar en að meðtaldri ferðaþjónustunni er hlutfall flugs af þjóðarframleiðslunni í heild um 14 prósent. Íslensk flugfélög ættu því að vera undanþegin íþyngjandi mengunarkröfum svo allt þrífist vel hér áfram.
Íþyngjandi mengunarkröfum. Hmmm!
Eftir því sem Fararheill kemst næst er það fyrst og fremst fyrir þrýsting frá forsvarsmönnum Icelandair á Bjarna Ben, sem aftur lýsti áhyggjum við ferðamálaráðherra, sem Lilja dreif sig í betri fötin og reyndi að töfra fram jákvæð viðbrögð kollega á meginlandinu. Icelandair eini innlendi flugaðilinn sem enn rekur rellur sem framleiddar voru á síðustu öld þegar mengun var nánast í tísku. Hinn stóri flugaðilinn, Play, rekur tiltölulega nýjan flota sparneytna millilandaþotna og þarf engin ósköp að hafa áhyggjur.
Við hér sannarlega drullað yfir Icelandair oftar en einu sinni og oftar en tíu sinnum. Fyrir því fleiri ástæður en stjörnur á himni en tökum örfá dæmi:
- Icelandair hefur ÍTREKAÐ frá aldamótum þurft drjúga ríkisaðstoð til að halda sér á lofti. Íslenskir skattborgarar hafa gefið fyrirtækinu hátt í milljarð króna í púst þegar illa hefur árað plús mikla lánafyrirgreiðslu af hálfu ríkisins. Þetta þrátt fyrir að flugfélagið sé í eigu einkaaðila sem skammta sér tug- eða hundruð milljóna í arðgreiðslur þegar ekki er tap á rekstrinum. Með öðrum orðum; eigendurnir brosa í bankanum þá sárasjaldan eitthvað er eftir á bankabókinni í árslok og þeir brosa breiðar þegar allt fer í bál og brand því plebbarnir í landinu senda þeim milljarðastuðning til bjargar þökk sé fjármálaráðherra síðustu ára.
- Icelandair (Flugfélag Íslands / Air Iceland Connect) hefur rekið nánast allt innanlandsflug á Íslandi frá því Guðrún Á. Símonar hóf upp raust sína. Það gengið herfilega þrátt fyrir mikla ríkisstyrki um áratugaskeið og enn þann dag í dag er Icelandair að þiggja milljarð króna í eftirgjöf frá okkur skítaplebbunum til að halda því flugi úti.
- Icelandair hefur troðið á áunnum réttindum starfsfólks sína álíka oft og Dorma auglýsir útsölu. Gamla pakkinu, sem unnið hefur hjá fyrirtækinu alla sína tíð, hent sísona á haugana fyrir ungt og ódýrt fólk sem er reiðubúið að vinna þegar hvenær sem fyrirtækinu hentar.
- Fyrir flugfélag sem flýgur í nafni landsins okkar er staðan ekki betri (og því neikvæð landkynning.) Fyrir aðeins fimmtán árum var Icelandair með þeim allra bestu á heimsvísu hvað þjónustu og liðlegheit varðaði. Í dag slefar það varla í miðlungs lággjaldaflugfélög samkvæmt Skytrax sem hefur haldið utan um slíkt í rúman áratug.
- Og svo framvegis og svo framvegis…
Ítök Icelandair í stjórnmálum hafa aldrei farið milli mála en nú er það ekki einu sinni sjálfstæðismaður sem gengur erinda þeirra eins og ekkert sé sjálfsagðara. Það er einn forsprakka Framsóknarflokksins.
Víst verður allt flug til og frá landinu dýrara ef ESB fellst ekki á undanþágubeiðni íslenskra stjórnvalda. Hversu mikið liggur ekki alveg fyrir en það bætast einhverjir þúsund kallar við túrinn til Tene og hoppið til Keflavíkur og hér fjórar ástæður fyrir að það sé virkilega jákvæð þróun:
A) Tiltölulega fávís seðlabankastjóri landsins, Ásgeir Jónsson, sagði fyrr í vetur að feit verðbólga á klakanum væri að hluta til Tenerife-elskandi Íslendingum um að kenna. Sem er að örlitlu leyti rétt því allir peningar Íslendinga sem ekki er eytt hérlendis kynda undir verðbólgu hjá agnarlítilli krónu. Formlega heiti þessa er viðskiptajöfnuður sem í grunninn þýðir að ef við kaupum meira erlent dót en við sendum úr landi af innlendu dóti þá fer verðbólgudraugurinn að brosa út í bæði. Aðeins dýrari flugfargjöld til Tene og annað draga hugsanlega úr þessum fjórum til fimm utanlandsferðum landans árlega og halda þannig niðri verðbólgu sem kostar plebbana tugþúsunda króna aukagjöld fyrir nauðsynjar eins og þak yfir haus. Að því sögðu þá er hlutur útfaranna afar lítill í stóru breytunni.
B) Forsprakkar íslenskrar ferðaþjónustu hafa kvartað sáran aftur og ítrekað síðustu ár og misseri að hingað sé að flykkast bakpokalið sem á ekki bót fyrir boru og nýtur dásemda þessa lands án þess að skilja eftir neitt í hagkerfinu nema skitið þýskt skinkubréf í ruslinu. Dýrari flugfargjöld dempa slíkt fólk á augabragði og líklegra en ekki að ferðalangar sem hingað koma eigi einhverja seðla á bók í banka og vilja til að eyða og gera vel við sig. Í því samhengi er dýrara flug jákvætt og stemmir 100 prósent við óskir ferðaþjónustunnar. Aðeins leiðinlegra fyrir meðalplebbana en hvenær hafa þeir skipt einhverju máli?
C) Það ekkert nýmæli að rellur Icelandair hafa alltaf verið barn síns tíma. Með öðrum orðum, þess tíma þegar sjálfsagt þótti að flengja börn ef þau hlýddu ekki, setja þau í skammarkrók í skólanum og öskubakkar voru við hvert sæti. Alþjóðaflugfloti Icelandair er nú tæplega 16 ára gamall þrátt fyrir mikla endurnýjun með vafasömum Boeing-Max vélum en inn í þá tölu vantar innanlandsvélarnar sem eru af Bombardier tegund og eru um 25 ára gamlar. Það væri því ekki fráleitt að sýna tilteknu flugfélagi einhvern lit ef það hefði reynt sitt besta alla tíð að halda úti rellum sem menga minna en það gildir alls ekki um Icelandair. Þvert á móti hafa stjórnendur skammtað sér feitan arð aftur og aftur þrátt fyrir dapran rekstur og engum dottið í hug að endurnýja vélar fyrr en varahlutir verða beinlínis ófáanlegir beint frá Zambíu.
D) Það kann að virðast brútalt að hækka flugfargjöld um þúsundir króna til að uppfylla einhver loftslagsmarkmið sem einhverjir delar í Brussel setja fyrir lýðinn og skipta engu meira máli en flokka pappír í eina tunnu og lífrænt klabb í hina. Þetta fer jú sennilega allt í sömu landfyllinguna ellegar sent í afdalaskemmu í Svíþjóð þar sem það rotnar í rólegheitum. En þó sannarlega leiki mikill vafi leiki á heilastarfssemi margra í Brussel eru þessar reglur ESB ALGJÖRT LÁGMARK ef minnsti möguleiki á að vera á að draga úr hlýnun jarðar áður en allt er um seinan og við bráðnum öll um leið og við opnum útidyrnar. Þetta viðmið sem stenst yfirlýsingar þjóða á loftslagsráðstefnum fyrir utan að einhver verður að taka forystu í erfiðum málum. Brussel er alla jafna sauðabúskapur og þar innandyra fólk sem getur ekki lagt saman tvo og einn án þess að kalla til aðstoðarfólk en hér liggur bara meira undir en nokkru sinni áður: plánetan öll!
Ergo: aldeilis fáránlegt að íslensk stjórnvöld sem monta sig af því að náttúran njóti vafans sendi erindreka til meginlandsins til að þurfa ekki að standa við stóru orðin.
Alls óhrædd að nota nífaldan heimsmeistara í hótelbókunum samkvæmt World Travel Awards hér að neðan. Það er okkar eina tekjulind 🙂