Stutt til nýrra kosninga og flokkarnir sem ráðið hafa ríkjum undanfarin sjö ár sjá allir fram á mikið fylgishrun ef marka má kannanir.
Allt gott og blessað með það enda kallast það lýðræði. Engum vitibornum eða fréttaþyrstum Íslending dettur í hug að kjósa aftur sama gengið og hefur gengið á rétt allra oft og ítrekað og logið töluvert í þokkabót.
Engir flokkanna þriggja hafa gert staf til að gera líf meðalplebbans betra á þessum tíma. Þvert á móti. Flestir meðalplebbar í stökustu vandræðum með að eiga til hnífs, skeiðar og þaks yfir höfuð svo ekkert sé talað um þá sem höllustum fæti standa.
Halda mætti þúsund langar ræður um hörmungar frammistöðu Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar í nánast öllum málum undir sólinni síðustu árin. Við hér hins vegar erum sérstaklega farin að blása í blöðrur yfir að Sigurður Ingi Jóhannsson, löngum innviðaráðherra og nú einnig tímabundið fjármálaráðherra, skuli hugsanlega vera að detta af þingi og kannski allur hans flokkur með. Það kallar næstum á að díla við einhvern björgunarsveitarvin að selja okkur þúsundir flugelda svona aðeins framhjá kerfinu.
Það má því ljóst vera hverjir eru að skjóta þúsund flugeldum utan annatíma ef og þegar dýralæknirinn og skattaskjólselskandinn þarf að drattast aftur í sveit sína gleymdur öllum.
Ekki aðeins hefur gaurinn lofað aftur og ítrekað og aftur og ítrekað án þess að standa við neitt, oft kallað lygi meðal plebbanna, heldur hefur líka gert sitt allra besta til að vernda flugfélögin á kostnað neytenda. Sömu flugfélög og sluppu nýverið við milljarða skatt vegna loftmengunar vegna þrýstings hinnar íðilgrænu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Annað þessara flugfélaga var að tilkynna um tæplega tíu milljarða króna hagnað á árinu.
En Sigurður Ingi – einhvers staðar verður að geyma peningana – er sérstakt keis.
Í byrjun ársins lagði hann fram drög að nýrri reglugerð um réttindi flugfarþega sem ekki einn fjölmiðill fjallaði um. Góðu heilli, sökum óróa í stjórnarsamstarfinu, virðist enn ekki hafa tekist að klára málið að fullu og verður vonandi aldrei.
Góðu heilli sökum þess að þar er skertur til hellings allur réttur íslenskra flugfarþega að leita réttar síns ef flugfélögin eru með læti eða stæla. Hingað til hefur það verið hægt með fulltingi ríkisvaldsins, aka Samgöngustofu, fyrir alla þá sem ekki eiga seðlabúnt undir koddanum. Stofnunin tekið við öllum kvörtunum, farið og málin og jafnan gengið frá með sátt neytendum að kostnaðarlausu (fyrir utan skatta auðvitað.)
Ekki lengur ef Sigurður Ingi fær einhverju ráðið.
Verði reglugerð Framsóknarformannsins staðfest þýðir það að:
„Með þessari reglugerð er lagt til að fella úr gildi reglugerð nr. 1048/2012 um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum í flugi sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst, seinkað eða flýtt eða vegna tapaðs farangurs eða tjóns á honum.“
Áfram gera allir auðvitað leitað réttar síns ef flugfélögin svíkja eða standa sig ekki í stykkinu. En þá þarf að borga fyrir.
Týnd taska og flugfélagið þykist ekkert vita? Sorrí beibí, Samgöngustofa er hætt að taka við slíkum kvörtunum.
Ljósmyndataskan og innihaldið ónýtt eftir flug heim á klakann? Sorrí beibí, Samgöngustofa hætt að taka mót slíku væli. Hringdu frekar á vælubílinn (þó reyndar þar sé undirmannað líka og hann því nokkra daga á leiðinni.)
Flugfélagið hafnar bótakröfum vegna hundrað klukkustunda heimferðarinnar frá Tene? Sorrí beibí, Samgöngustofa tekur slíkt einungis fyrir ef þú pungar út fimm þúsund krónum í málskotsgjald. Það reyndar endurgreitt ef málið vinnst en annars ekki.
Jebbs. Skattaskjólselskandinn má okkar vegna fjúka á haug óeftirminnilegra alþingismanna ekki síðar en í gær.
– KG