Skip to main content

F lugþreyta er það kallað þegar óþægileg deyfð og doði kemur yfir fólk sem ferðast langar vegalengdir milli margra tímabelta í flugi á skömmum tíma.

Flugþreyta er lítið spennandi fyrirbæri og öll ráð góð til að takmarka áhrif af slíku.

Flugþreyta er lítið spennandi fyrirbæri og öll ráð góð til að takmarka áhrif af slíku.

Hérlendis hefur vandamálið verið lítið enda flest flug til og frá landinu í skemmri kantinum en þó eru alltaf einhverjir sem fá flugþreytu reglulega við tíð ferðalög enda sýna rannsóknir að það tekur heilan sólarhring fyrir líkamann að ná sér að fullu við hvert einasta tímabelti sem flogið er yfir.

Mjög gróflega er þetta ástand tilkomið þegar líkamsklukka okkar fer úr sínu venjulega jafnvægi við tíðar flugferðir milli tímabelta. Hjá mörgum veldur þetta bæði líkamlegri og andlegri þreytu sem aftur veldur einbeitingarskorti, minnisleysi og almennt slæmri líðan. Verstu tilfelli flugþreytu kalla fram slæmar meltingar- og þvagfæratruflanir, vöðvakrampa og matarlyst verður lítil sem engin.

Það er því eftir ýmsu að slægjast að losna við þennan fjanda ef framundan eru tíð ferðalög til framandi staða. Fararheill hefur tekið saman nokkra punkta sem gætu hjálpað.

♥  Ekki fylgja alveg niðurnegldum matar- eða svefnvenjum fyrir brottför. Því sveigjanlegra sem fólk er að borða ekki né sofa ekki ávallt á sama tíma hjálpar líkamanum að eiga við skyndilegar breytingar.

♥  Ef mögulegt er reyndu að færa svefntíma fyrir brottför eins nálægt svefntíma á þeim stað sem þú hyggst halda til.

♥  Reyndu alltaf að lenda á áfangastað í dagsbirtu.

♥  Gott ráð fyrir mjög langar flugferðir er að taka þær í tvennu lagi. Sé verið að fljúga í fimmtán klukkustundir til Malasíu er sniðugt, ef hægt er, að millilenda og dvelja stuttan tíma á Indlandi, Dúbaí eða Doha.

♥  Slepptu allri áfengisdrykkju um borð. Alkohól þurrkar upp líkamann sem gerir illt verra.

♥  Slepptu öllu kaffi- eða gosdrykkjaþambi um borð líka. Koffín hefur örvandi áhrif á líkamann sem getur haft enn neikvæðari áhrif á svefn en ella. Eini drykkurinn sem ávallt er góður án aukaverka er vatn.

♥  Breyttu klukkunni þinni strax miðað við tímann á áfangastaðnum á leiðinni. Það hjálpar andlega.

♥  Byrjaðu strax á áfangastað að borða vel og á réttum tíma miðað við staðinn en ekki bíða eftir að verða hungruð eða bíða eftir matmálstíma í heimalandinu.

♥  Vertu eins mikið úti í dagsljósi og hægt er á áfangastaðnum. Birta hefur ótrúlega jákvæð áhrif á mannslíkamann.

♥  Reyndu að sofa ekki meira en venjulega þó þreyta sæki að. Frekar þá að leggja sig stundarkorn aftur fremur en að sofa út.