L esendum er óhætt að hrista höfuðið og blóta okkur í sand og ösku en ritstjórn Fararheill hikar ekki sekúndubrot með að stimpla hið magnaða hof Pantheon í Róm sem undur veraldar.

Það er svo að enginn gerir sér fulla grein fyrir því hversu stórkostlegt mannvirki Pentheon er fyrr en maður stendur eigin fótum þar inni. Mynd Michele ONeill

Það er svo að enginn gerir sér fulla grein fyrir því hversu stórkostlegt mannvirki Pentheon er fyrr en maður stendur eigin fótum þar inni. Mynd Michele ONeill

Íslenska heiti þessa mikla og merkilega mannvirkis er víst Algyðishofið sem hljómar illa, segir ekki neitt og er óþjálla í munni en fiskhnakki með beinum.

Pantheon ættu velflestir að þekkja sem stigið hafa út úr húsi um ævina eða hangið inni en litið í bók eða blöð stöku sinnum. Þetta er af mörgum fræðimönnum talin merkasta bygging sem Rómverjar byggðu og þá er hið ekki síður magnaði hringleikvöllur Colosseum meðtalinn. Víst er að Pantheon er ein allra best varðveitta rómverska bygging veraldar og aðeins yfirborðskenndir plebbar sem hér koma inn og verða ekki fyrir áhrifum.

Upphaflega var þetta hof, síðar kirkja, til heiðurs hinum grísku guðum sem þá réðu lögum og lofum meðal manna. Þetta má ráða af nafninu einu saman: Pan (allir) Theos (guðir).

Gat er á efsta hluta hvolfþaksins sem veitir inn birtu sem allt sveipar dularfullum sveip. Mynd O.Correo

Gat er á efsta hluta hvolfþaksins sem veitir inn birtu sem allt sveipar dularfullum sveip. Mynd O.Correo

Talið er víst að bygging þess hafi hafist um 25 fyrir Krist en það annaðhvort byggt að nýju eða endurreist 150 árum síðar og þá í þeirri mynd sem við blasir í dag. Hofinu var formlega breytt í kristna kirkju árið 608.

Arkitektúr kirkjunnar hefur vakið aðdáun alla tíð og enn klóra fræðingar sér í hausnum yfir miklu hvolfþakinu sem er enn í dag það stærsta sem byggt hefur verið úr óstyrkri steypu. Enginn veit leyndarmálið bak við það því með nútímasteypu væri þakið löngu fallið niður. Efst á hvelfingunni er að finna opið gat sem veitir skemmtilegri birtu inn í bygginguna og á að tákna dyrnar að hinu himneska.

Ekki síður forvitnilegt að þær sextán súlur sem styðja við þakið koma alla leið frá Egyptalandi þaðan sem þær voru fluttar með herkjum á sleðum, fluttar yfir hafið og svo dregnar á sleðum á nýjan leik inn í Rómarborg. Hver súla vegur um 60 tonn.

Amalegt telst þessi bygging ekki og torgið og gosbrunnurinn fyrir framan ekki síður fyrir augað.

Amalegt telst þessi bygging ekki og torgið og gosbrunnurinn fyrir framan ekki síður fyrir augað.

Hati fólk arkitektúr en elski list að öðru leyti er óhætt að dást að þeim styttum og freskum sem skreyta þetta merkilega mannvirki. Þar meðal annars freska af Maríu Mey og barni hennar sem kirkjunni var færð að gjöf við vígslu hússins sem kirkju árið 608.

Ekki síður merkilegt fyrir fróðleiksþyrsta sú staðreynd að hér undir þykkum marmaranum liggja tveir konungar Ítalíu og hinn víðfrægi ítalski málari og listamaður Raphael eða Raffaello á frummálinu. Sá síðastnefndi sótti það fast að vera grafinn hér á sínum tíma.

Hvolfþakið sjálft var lengi vel skreytt með bronsplötum að stórum hluta og sumir segja gulli líka. Það kann að vera forvitnilegt að vita að sumir sögufræðingar telja að einn frægur hönnuður þess tíma, Bernini, hafi tekið bronsplötur Pantheon og brúkað í altaristöflu Péturskirkjunnar. Um það er þó deilt í fræðigrúppum.

Þá kann að koma á óvart að Pantheon er enn í dag notuð sem hefðbundin kirkja. Þar fara fram messur á sunnudögum og stöku sinnum eru hér gefin saman brúðhjón. Hér er opið alla daga ársins og aðgangur er ókeypis. Gerðu samt ráð fyrir tonni af túristum allan ársins hring.