E itt hið allra versta við ferðalög erlendis er þegar farangurinn skilar sér ekki á ákvörðunarstað samhliða eigandanum. Þó margir komist fljótlega að því að það er ekki heimsendir þó gömlu nærurnar og tannburstinn týnist tímabundið þá hefur það neikvæð sálræn áhrif og það á fyrsta degi ferðar. En það er til eitt sem er miklu verra en það.
Það er þokkalega algengt vandamál að munum sé stolið úr töskum farþega annaðhvort fyrir, á meðan eða eftir flug.
Skemmst er að minnast handtöku yfir 40 starfsmanna Alitalia fyrir nokkrum árum en í ljós kom að sá hópur hafði stolið verðmætum úr töskum farþega þess flugfélags og annarra um árabil.
Þó það hafi verið undantekning þá var það kannski undantekningin sem sannar regluna að alls ókunnir menn og konur, sem oft njóta lágra launa, hafa aðgang að farangri flugfarþega löngum stundum á hinum ýmsu flugvöllum og ekki hvað síst þegar farangur skilar sér ekki á áfangastað. Þá geta óprúttnir dundað sér í ró og næði því auðvelt er að sjá á miða töskunnar hvert hún átti að fara og hvenær.
Greinar í erlendum blöðum staðfesta að þjófnaður úr farangri er vaxandi vandamál. Ekki er langt síðan bæði Wall Street Journal vestanhafs og Le Figaro austanhafs fjölluðu um vandann.
Ritstjórn þekkir til nokkurra Íslendinga sem hafa orðið fyrir stuldi úr töskum sínum erlendis. Fyrir utan að slíkt setur strik í sálartetrið og um leið ferðalagið þá er ekki síður vont mál að eiga við flugfélögin, tryggingafélögin eða lögreglu í kjölfarið. Það er nefninlega svo að það er farþegans að sýna og sanna að tilteknir hlutir sem stolið var hafi í raun verið í tösku viðkomandi. Geti hann það ekki fást engar bætur fyrir eitt né neitt enda þarf alþjóðalögum samkvæmt að sýna og sanna að krafa sé réttmæt og raunveruleg. Skammt er síðan Íslendingur sem tapaði ljósmyndagræjum að upphæð 600 þúsund krónum varð að sætta sig við tapið. Engin hjálp frá neinum.
Sú krafa er skiljanleg enda auðvelt að ljúga til um glötuð verðmæti en hún skapar stórt vandamál. Hvernig eiga farþegar að fara að því að sanna svo yfir vafa sé hafið hvað nákvæmlega hafi verið í tösku sem stolið var eða stolið var úr? Hér áður fyrr var það alfarið vonlaust mál en í dag er til eitt einfalt ráð sem reyndar er ekki óbrigult en gæti hjálpað mikið upp á sakir.
Velflestir eru með snjallsíma, spjaldtölvur eða önnur tæki sem taka upp myndir. Með þeim tækjum er hægt, sé nenna til og nauðsynlegt er að pakka niður dýrum hlutum, að taka myndir af öllu ferlinu. Mynda allt sem ofan í töskuna fer og jafnvel mynda aftur við innritunarborð í flugstöðinni í viðurvist starfsmanns.
Jú, þetta hljómar kannski kjánalega enda segir sig sjálft að ef margir stunduðu slíkt væru raðir á flugvöllum töluvert verri en nú og er þó nóg fyrir. En þar sem ábyrgð á farangri færist sjálfkrafa yfir á flugfélagið um leið og tekið er við töskunni á flugvellinum er óvitlaust að láta sig hafa vesenið. Sérstaklega ef verið er að bóka farangur lengra en á einn stað eða ef um er að ræða risaflugvöll.
Þetta hefur tvennt í för með sér. Ef stolið er úr farangrinum er til heil heimildarmynd um hvað í töskunni sé og hægt að leggja fram sem sönnun gagnvart flugfélagi eða tryggingafélagi. Í annan stað hefði þetta kannski líka það hræðileg áhrif á flugvelli heimsins að við svo yrði ekki búið og reglum breytt neytendum í hag. Ímyndið ykkur raðirnar á JFK í New York eða Heathrow í London ef hver og einn farþegi opnaði tösku sína í viðurvist starfsmanns til að allt væri nú skráð í þaula fyrir innritun.
Allra best er auðvitað að pakka engum stórum verðmætum ofan í töskur í flugi heldur annaðhvort geyma slíkt heima eða í handfarangri. En sé þörfin brýn gæti myndataka verið þín eina leið til að sanna og sýna fram á að krafan um bætur er rétt og sönn.