Þ au eru ekki mörg söfnin í heiminum sem eru á jafn kaldhæðislegum stað og Glæpasafnið, Mob Museum, í Las Vegas í Bandaríkjunum. Það er staðsett í fyrrum aðalstöðvum bandarísku Alríkislögreglunnar í borginni.
Mob Museum er eitt nýjasta safnið í syndaborginni Las Vegas sem er ein fárra sem efnahagshrun víða um veröld hefur lítil sem engin áhrif haft á. Þar mæta menn og veðja með peninga sína hvort sem veðrið í fjármálaheimum er gott eða vont.
En fáir nenna að sitja við póker 24 stundir og sé þörf á annarri afþreyingu inn á milli þykir Mob Museum afskaplega vel heppnað. Borgin er jú í dag nánast frá grunni hugmynd mafíósa á borð við Lucky Luciano og Bugsy Siegel sem breyttu eyðimerkubæ í glimrandi stórborg þar sem spilavíti og afþreying tengd þeim færa borgaryfirvöldum 65 prósent allra árlegra tekna.
Á safninu má sjá persónulega muni glæpamanna á borð við Al Capone. Tól sem notuð voru til misgjörða á borð við hamra, hafnaboltakylfur og ekki síst kúluskreyttan múrvegg þann sem frægur varð eftir fjöldamorðin á Valentínusardaginn 1929 þegar Capone náði völdum í Chicago.
Þá er hér líka sögð saga þeirra lögreglumanna sem harðast beittu sér gegn þeim sömu glæpamönnum og settu mark sitt á bandaríska sögu á fyrri hluta síðustu aldar.
Safnið stendur við Stewart breiðgötu og er opið daglega 10 til 19 og 10 til 20 um helgar. Miðaverð 3.500 krónur. Heimasíðan hér.