R úmlega tuttugu ár síðan öllum flota hinnar stórmerkilegu Concorde var lagt í heilu lagi eftir hræðilegt slys einnar þeirra við París. Slys sem mátti reyndar rekja til gáleysis annars flugfélags en breytti ekki því að engar Concorde hafa flogið síðan.

Enn þann dag í dag er Concorde þokkalega framtíðarleg að sjá. Mynd Daniel Mennerich

Enn þann dag í dag er Concorde þokkalega framtíðarleg að sjá. Mynd Daniel Mennerich

Alls voru um 20 slíkar vélar framleiddar og eftir að þeim var lagt hefur mörgum þeirra verið komið fyrir á söfnum víðs vegar í veröldinni.

Slíka vél má til dæmis sjá á Flugsafni Seattle, Museum of Flight, þrjár til viðbótar er hægt að skoða á þremur mismunandi söfnum í Bretlandi. Aðrar þrjár í Frakklandi og þar af ein á Charles de Gaulle flugvellinum.

En okkur vitandi er aðeins einn staður þar sem færi gefst á að ganga um borð í Concorde í stað þess að láta nægja að sjá vélina utanfrá.

Það er hægt í stærsta safni heims í einkaeigu sem finnst í smábænum Sinsheim mitt á milli borganna Stuttgart og Frankfurt í Þýskalandi en til beggja staða er flogið beint héðan þokkalega reglulega svona þegar ekkert er Kófið. Safnið, Auto Technikmuseum Sinsheim, er eitt merkilegasta safn véla og tækja í veröldinni með yfir þrjú þúsund gripi til sýnis innandyra og utan.

Concorde vél þeirra er eitt helsta aðdráttaraflið en þar má líka finna aðra hljóðfráa þotu og þetta er reyndar eini staðurinn í heiminum þar sem finna má báðar þær hljóðfráu flugvélar sem framleiddar hafa verið. Hin vélin er auðvitað hin rússneska Tupolev Tu-144. Hér eru fleiri eldri farþegaþotur einnig til sýnis eins og hin klassíska DC-10. Þær allar líka hægt að skoða að innan sem utan.

Ef einhver villist hingað og hefur engan áhuga á flugi þarf sá hinn sami ekkert að ganga fyrir björg. Sá eða sú getur til dæmis skoðað stærsta safn Formúlu 1 kappakstursbíla sem finnst. Nú eða einhverju elstu Mercedes Benz bifreiðar sem framleiddar voru eða eitt stærsta safn gamalla mótorhjóla.

Safnið er með öðrum orðum ómissandi bíla-, flugvéla og tækniáhugamönnum og þeir hinir sömu ættu ekki að stoppa hér skemur en heilan dag hið minnsta.