Það var og! Flugfélagið Play að flytja „nokkrar“ véla sinna til Möltu á næstunni og hefja þar starfsemi að hluta.
Allir stærstu fjölmiðlar landsins, lesist tveir, skýra gagnrýnislaust frá því að flugfélagið Play ætli að færa hluta starfsemi sinnar til eyjunnar Möltu í Miðjarðarhafi á næstu mánuðum. Forstjórinn, og stór eigandi, segir ástæðuna daprari niðurstöðu með Ameríkuflug flugfélagsins og því sé ráð að opna vængina víðar eftirleiðis. Eða eins og stendur í yfirlýsingu forstjórans:
„Frá stofnun Play hafa markaðsaðstæður breyst og tengiflugskerfi yfir Atlantshafið virðist félaginu ekki eins arðbært og áður. Þess vegna hefur sú leið verið farin að gera breytingar á viðskiptalíkani okkar sem taka gildi frá og með miðju næsta ári.“
Hmmmm!
Enginn spurði sjéffann hvaða markaðsaðstæður hefðu breyst frá stofnun félagsins. Þeir hafa jú tapað vel rúmum fjórtán milljörðum íslenskra króna aðeins á síðustu þremur árum svo vandséð er hvaða markaðsaðstæður hafa breyst svo mjög akkurat nú.
Ekki svo að skilja að við hér á þessum örvef höfum nokkuð beitt horn í síðu Play. Flugfélagið að mörgu leyti staðið sig vel og gerir enn. Virkilega flott starfsfólk heilt yfir, allbærileg þægindi í rellum félagsins miðað við lággjaldaflugfélög almennt og það sem aldrei má gleymast er að þetta eina flugfélagið sem veitir hinu viðbjóðslega Icelandair einhverja samkeppni á heimamarkaði.
En ættum við ekki alltaf að kalla spaða spaða? Er það ekki betra en monta sig af íslenskum bændum sem eigendum SS og skjóta svo erlendu kjöti inn í allar neysluvörur?
Forstjórinn segir að eftir að allt er gengið í gegn verði allt að fjórar rellur gerðar út frá Möltu en sex til sjö frá Íslandi. Svo kemur þessi setning í framsetningu RÚV:
Stefnt er á að fyrsta vél Play á nýju flugrekstrarleyfi verði staðsett á Tenerife og fljúgi þaðan til Keflavíkur og Akureyrar.
Ókei! Ein arðbærasta flugleið Play, ef ekki beinlínis sú arðbærasta, gerð út frá Möltu þó flugið komi hvergi þar nærri. #landsbankalykt2007
Hvað merkir það? Jú, tekjur af arðbærustu flugleið Play, ef ekki mörgum flugleiðum, skila sér í bankabók á Möltu. Það gott og blessað því þannig virka hlutirnir almennt. Það hins vegar óvíða annars staðar í heiminum sem fyrirtæki greiða lægri skatta af tekjum sínum, milli fimm til sex prósent, og alls enginn skattur er lagður á gróða fyrirtækja í landinu.
Stjórinn, Einar Arnar Ólafsson, ítrekar að þó íslensku starfsfólki muni vissulega fækka verði ekki mikið um uppsagnir vegna þessa enda „dragist umfang félagsins alltaf saman á veturnar og fyrirtækið muni bara ekki vaxa inn í næsta sumar eins og verið hefur.“
Ritstjórn Fararheill spáir því að á sama tíma að ári, ef fyrirtækið fer ekki yfir um, verði öll starfsemi Play komin á maltneska kennitölu og þar um slóðir er starfsfólk vant mun lægri launum en gengur á ylhýra Fróni. Fátt meira spennandi fyrir vellauðuga stjórnendur um heim allan en ódýrt starfsfólk og skattar í mýflugumynd.