Skip to main content
F áir einstaklingar hafa sett jafn mikið mark á eina borg og arkitektinn og þúsundþjalasmiðurinn Antoni Gaudí hefur sett á Barcelona á Spáni. Óhætt er að fullyrða að borgin sú væri allmikið fátækari menningarlega ef sá frjói maður hefði ekki haft sínu fram og notið stuðnings á tímabili.
Stórmerkilegur maður og ekki allra á sínum tíma heldur.

Stórmerkilegur maður og ekki allra á sínum tíma heldur.

Verk hans tala sínu máli og milljónir heillast árlega af áræðni og stórhug manns sem ákvað að leggja í byggingu á borð við La Sagrada Familia kirkjuna og tók starfið svo alvarlega að hann svaf á byggingarstaðnum mánuðum saman. Engin furða að kirkjan stórkostlega er meðal merkustu bygginga mannkyns og lætur engan ósnortinn sem hana ber augum.

Gaudí hóf nám við arkitektúr í Barcelona 1868 og ekki leið á löngu áður en hann fékk sín fyrstu verkefni frá trúfélögum og aðlinum í borginni sem tóku honum og hans hugmyndum vel. Á meðal þeirra voru félagasamtök helguð Heilögum Jósep og það var fyrir þeirra tilstilli sem La Sagrada Familia kirkjan komst á laggirnar. Hönnun þeirrar kirkju var þá þegar tilbúin og átti að vera í anda annarra gotneskra kirkna þessa tíma. Gaudí tók það ekki í mál heldur endurhannaði allt frá grunni og lagði mikla vinnu í verkefnið allt til dauðadags árið 1926.

Ekki síður mikilvægt var dálæti iðnjöfursins Eusebi Güell á verkum Gaudí og fékk hann arkitektinn meðal annars til að hanna fyrir sig slot, kirkju, vínkjallara að ógleymdum Parc Güell garðinum sem er annar af vinsælustu ferðamannastöðunum í Barcelona.

Parc Güell

Parc Güell

Gaudí var minnst sérstaklega árið 2002 þegar 150 ár voru frá fæðingu hans. Fóru þó fram ýmsir viðburðir í Sagrada Familia kirkjunni og víðar til að halda nafni hans á lofti.

Casa Batlló

Casa Batlló

Hann lét sér þó ekki nægja að hanna og byggja í Barcelona heldur eru verk eftir hann að finna víðar á Spáni. Hann setti mark sitt á Dómkirkjuna í Palma á Mallorca. Kom nálægt hönnun í hinu stórkostlega Montserrat musteri og arkitektúr hans má einnig líta augum í León og í bæjunum Comillas og Astorgas vestar í landinu.

La Sagrada Familia

La Sagrada Familia