H venær nákvæmlega ætli sé besti tíminn að heimsækja sólskinsríkið Flórída í Bandaríkjunum? Það góð og gild spurning en svarið veltur töluvert á því hver sé að fara og hvers vegna.
Sé um hefðbunda íslenska fjölskyldu með smáfólk með í för er þó engin einasta spurning hvenær tíminn er réttur. Það er janúar eða ef illa gengur að komast burt þann tíma þá tekur september annað sætið án samkeppni.
En hvers vegna janúar/september?
Ástæðurnar eru margar en tengjast allar því að þann mánuð heimsækja langfæstir ferðamenn Flórída heim.
Það þýðir fyrir íslenska fjölskyldu með tekjur í jójó-gjaldmiðlinum krónu að gisting, matur, bílaleiga og skemmtun er alltaf á lægra verði í janúar/september en aðra mánuði ársins. Verðmismunur til dæmis á hótelgistingu milli janúar og júlí getur numið 50 prósentum samkvæmt tölum sem dagblaðið Orlando Sentinel hefur tekið saman.
Dittó fyrir skemmtanir hvers kyns. Golfunnendur komst átján holur á lægra verði í janúar en aðra mánuði og kannski það allra mikilvægasta af öllu, að allir þeir tugir skemmtigarða sem hér finnast eru ekki aðeins ódýrari að heimsækja heldur og hægt að þvælast um þá alla án þess að þurfa að troðast um í mannþröng á alla kanta.
Við þetta má bæta tveimur auka bónusum. Annars vegar er hægt að gera enn betri kaup í verslunum því margar þeirra henda á útsölur strax eftir jól. Útsölur sem oftar en ekki eru í gangi vel frameftir janúarmánuði. Hins vegar því að að meðalhitastig í Flórídafylki er lægst í janúar. Það er ekki neikvætt í þessu tilviki því meðalhitinn er samt kringum 21 gráðu eða afar þægilegt án þess að kæfa mann og annan. Það er því hægt að hreyfa sig aðeins án þess að þurrka svita á fimm sekúndna fresti.
September tekur annað sætið. Hitinn þá öllu hærri eða kringum 32 gráður og útsölur fáséðar í verslunum. En þá líka lækka hótel verð sín og skemmtigarðar líka því þá lýkur sumartörninni þegar hér er ekki þverfótað fyrir fólki neins staðar. Og hver elskar að standa í eilífum röðum í fríinu?