V elflestir eiga orðið sína uppáhalds veitingastaði og bari í London enda algengt að landinn ferðist þangað ótt og títt. En öllum er hollt að breyta til, upplifa sem mest og njóta kannski örlítið betra útsýnis í leiðinni.

Upplyfting með útsýni í London

Upplyfting með útsýni í London

Okkur er sagt að í London séu alls um 30 veitingastaðir, barir og klúbbar sem staðsettir eru á efstu hæð og með svölum eða þaki. Slíkt er guðdómlegt þegar veður er gott á sumrin og jákvætt fyrir þá sem reykja á veturna enda þá engin þörf að þvælast út og inn sýknt og heilagt.

Við þekkjum ekki alla 30 en við höfum heimsótt þessa fimm sem við greinum frá hér að neðan og getum mælt með þeim öllum fyrir þá sem vilja nýbreytni á ferð um London. Vænlegast er að bóka fyrirfram því ella þarf mjög líklega að bíða dágóða stund og pottþétt bið um helgar.

♥  Queen of Hoxton  –  Þetta er bar og næturklúbbur og æði vinsæll og hægt að fá bita í gogginn líka beint af grillinu. Hér eru viðburðir næstum daglega og oft sýndar hér eldri kvikmyndir fyrir þá sem það fíla. Stórt útisvæði með gervigrasi og hálfljótum tjöldum sem eru þó fín ef vindar blása. Eðalfínt útsýni.

♥  Radio Rooftop Bar  –  Talandi um útsýni þá verður það ekki mikið betra en á þaki ME hótelsins og hægt að njóta þess úr fínustu sófum. Hér er þjónusta til fyrirmyndar en greiða þarf vel fyrir. Formlegri klæðnaður og panta þarf fyrirfram með góðum fyrirvara.

♥  Coq d´Argent  –  Einn allra flottasti staðurinn í City er þessi með ekta grasi og plöntum á veröndinni. Hér þarf ávallt að bóka borð fyrirfram og maturinn er í dýrari kantinum. Klæði skulu vera góð.

♥  Queen Elizabeth Roof Garden  –  Rekstraraðilar kalla þennan best geymda leyndarmál London og það gæti vel verið því hingað höfum við komið tvívegis og fengið sæti án tafar um mitt sumar. Aðeins örskammt frá parísarhjólinu Eye og mörgum helstu kennileytum borgarinnar. Hér er ekki gerð krafa um Dior klæðnað en aðeins opið yfir sumartímann.

♥  Trafalgar Roof Garden  –  Annar frábærlega staðsettur bar/veitingastaður er á efstu hæð Trafalgar hótelsins. Fjölsóttur staður og vinsæll og úrval kokteila aldeilis frábært. Hér eru smáréttir afgreiddir þegar veður leyfir.