Þ að var 36 stiga hiti og miðstöðin í bílnum engan veginn að halda dampi gegn linnulausum hitabylgjunum. Yfirgnæfandi hitinn eina ástæða þess að við stoppuðum við Negratin vatn í afdölum Granada. Það sem gerðist næst er eins eftirminnilegt og hugsast getur.
Negratin vatnið er þokkalega stórt miðlunarlón í Granada héraði en hér skammt frá má finna einu náttúrulegu heitavatnshveri sem finnast á Spáni og reyndar á Íberíuskaganum öllum. Þeir trekkja hörðustu ferðamennina en þeir tiltölulega fáir þó og hvergi verður vart við mikinn túrisma á svæðinu.
Víða er hægt að komast að vatninu en aðeins á einum stað er að finna kofaskrifli þar sem framtakssamir heimamenn selja þeim fáu er hingað koma kalda drykki og jafnvel eitthvað matarkyns með ef nógu margir láta sjá sig.
Þrátt fyrir að engin sundföt væru með í för vorum við fljót að rífa af okkur öll klæðin nema nærbuxur og nánast hlaupa út í vatnið eftir að við komum á staðinn. Tvenn bresk hjón og hópur spænskra skólakrakka var eina fólkið hér.
Vatnið ískalt og við brennheit en við stóðumst freistinguna að stinga okkur á kaf í hvelli. Aðallega vegna þess að hér er grunnt og þó sandur sé að mestu meðfram vatninu er þetta ekki sandströnd og hvassir steinar um allt. Það var auðvelt að sjá til botns og strax varð vart við fiska eftir örfá skref. Mikið af þeim. Og þeir ekki feimnir. Við vorum ekki komin að hálfu í kaf þegar okkur brá báðum. Það var verið að narta í okkur.
Þarna stóðum við grafkyrr í tíu mínútur eða svo meðan fiskar Negratin vatns nörtuðu í fætur okkur upp að hné. Ekki sárt eða vont heldur þvert á móti þægilegt þó reyndar stærð fiskanna hafi í fyrstu verið nokkuð ógnvekjandi. Þeir eru í fullorðinsstærð ef svo má að orði komast eða kringum 60 til 80 sentimetrar á lengdina. Stöku fiskar lengri en það. Sem er fjarri þeim sílum sem sinna mikið til sömu þjónustu á svokölluðum fisknuddstöðum sem finnast víða um heim.
Í ljós kom að fiskarnir í Negratin eru jafn sólgnir í dauðar húðflögur og þau síli. Sem sagt náttúruleg fótanuddstofa. Síðar kom í ljós þegar forvitnast var um hvort þetta væri algjörlega einstakt fyrirbæri að svo var alls ekki. Bæjarbúar hér um slóðir hafa lengi vitað af fiskanuddinu í Negratin en sökum þess að þetta gerist ekki alltaf eða alls staðar hefur ekki þótt ástæða til að auglýsa þetta og vekja athygli ferðafólks. Enginn veit hvers vegna fiskarnir í vatninu gera þetta bara stundum og stundum ekki.
Í öllu falli, ef þú finnur þig á þessum slóðum er þjóðráð að prófa. Jafnvel þó engir komi fiskarnir er fátt yndislegra þegar hitastig fer hátt yfir 30 gráðurnar en demba sér í ískalt bað í Negratin.