Skip to main content
Tíðindi

Svona sparast 250 þúsund krónur í lúxusferð

  29/05/2011apríl 28th, 2014No Comments

Einhverra hluta vegna eru margar ferðaskrifstofanna farnar að leggja ofuráherslu á ferðir sínar næsta haust og vetur þó vorið sé nýskriðið í garð. Ein þeirra er ferðaskrifstofan Vita sem auglýsir sautján daga heillandi lúxussiglingu næsta september.

Ferðin kostar 961.342 fyrir tvo saman í káetu með glugga og er löngu orðin uppseld. Nema hvað ferðin er alls ekki uppseld og þeir sem áhuga hafa geta með lítilli fyrirhöfn bókað sömu ferð og sparað sér 250 þúsund krónur umfram þá sem pantað hafa hjá Vitaferðum. Það er að segja ef þeir treysta sér til að vera án leiðsögumanns.

Ferð Vita hefst með flugi 24. september til Seattle þar sem dvalist er tvær nætur áður en sautján daga sigling niður til Panama og upp Mexíkóflóa til Fort Lauderdale tekur við. Ferðin flott, skipið gott og rúsínan í pylsuendanum er að tveir dagar gefast í Orlando áður en flogið er heim. Sjá hér.

Ritstjórn Fararheill.is finnur sömu ferð 250 þúsund krónum ódýrari miðað við tvo saman með þessum hætti:

  1. Flug með Icelandair til Boston og áfram til Seattle með JetBlue 25. september fæst á 115.720 samkvæmt vef Icelandair. Vilji menn skoða þá borg fæst svipað verð aðeins fyrr en þetta.
  2. Gisting á góðu hóteli í Seattle eina nótt 17.000 krónur.
  3. Káeta með glugga fæst á vef Celebrity Cruises fyrir tvo á 355.893 krónur og er ekki uppselt.
  4. Eftir komu til Fort Lauderdale kostar skutla til Orlando 7.000 krónur fyrir tvo.
  5. Ritstjórn Fararheill vill sóla sig aðeins lengur en tvo daga í Orlando og tekur sama hótel og Vita býður upp á í einar fjórar nætur umfram Vita farþega til 19. október. Heildarkostnaður samkvæmt vef hótelsins 105.702 krónur.
  6. Flogið heim þann 19. október með Icelandair. Kostnaður fyrir tvo aðra leiðina 114.023 krónur.
  7. Samtals kostar ferðalag Fararheill 715.326 krónur eða 246 þúsund krónum ódýrara en ferðaskrifstofan Vita býður sínum farþegum. Eini munurinn er að ferðalag Fararheill er aðeins lengra og engin er fararstjórnin.

* Öll verð fengust um miðjan dag 28. maí og miðast við gengi dollars gagnvart krónu þann dag.