Skip to main content

Hörmulegar fregnir frá Kúbu þennan daginn. Að minnsta kosti hundrað manns taldir af eftir að Boeing 737 vél brotlenti og sprakk í loft upp stundarkorni eftir flugtak frá Jose Martí flugvellinum í Havana.

Við hér höfum aldrei nokkurn tímann mælt með innanlandsflugi á Kúbu ef áhugi er að skoða land og þjóð og fyrir því sú einfalda ástæða að landið er bláfátækt og ríkisflugfélagið Cubana fær ekki, nema gegnum dýrar krókaleiðir, varahluti í gamlar flugvélar sínar sökum viðskiptabanns Bandaríkjanna. Því það er eitt að hamra saman varahlut í 50 ára gamlan Buick sem ekur um götu Havana. Allt annað og verra að reyna slíkt þegar um varahluti í flugvélar er um að ræða.

Það virðist hafa verið raunin þennan daginn þó reyndar vélin sem um ræðir hafi ekki verið vél Cubana nema að nafninu til. Þetta var leiguvél frá mexíkósku flugfélagi. Breytir ekki því að hún var gömul, 30 ára eða svo, og verulega lúin. Hið sama gildir um eigin vélar ríkisflugfélagsins Cubana. Þær mjög komnar til ára sinna og fáir sýna því lit að aðstoða með alvöru varahluti í rellurnar.

Taktu því rútu eða bílaleigubíl ef draumurinn er að skoða Kúbu frá öllum hliðum. Kúbu á nefninlega að upplifa hægt og bítandi eins og góðan mat 😉