Skip to main content

Vissir þú að flugi Icelandair til Washington D.C. seinkar oft um 30 mínútur eða lengur? En vissirðu þá að flugi Icelandair frá Washington D.C. seinkar líka oft um 30 mínútur eða lengur?

Hver vissi af þessum algengu töfum Icelandair til og frá Washington?

Hver vissi af þessum algengu töfum Icelandair til og frá Washington?

Við vissum það ekki heldur þangað til nýlega.

Við skoðun á flugfargjöldum til og frá Bandaríkjunum könnuðum við ýmsa aðila sem bjóða flugleit í því skyni að finna fyrir ykkur þann aðila sem best býður. Eitt fyrirtækið sem býður flugleit þó reyndar merkilega lítið fari fyrir er tæknirisinn Google en einn af fjölmörgum vefum þess risafyrirtækis er Google Flights.

Eins og við höfum áður fjallað um er sú flugleit mjög góð en finnur ekki alltaf lægsta verð á flugi í Evrópu sökum þess að megináherslan hefur hingað til verið á Ameríku. En við rákum augu í nokkuð sem við höfum ekki séð áður neins staðar á nokkrum vef.

Eins og sjá má neðst á meðfylgjandi skjáskoti finnur og tiltekur Google Flights, að því gefnu að upplýsingarnar séu fáanlegar, hversu algengar seinkanir eru hjá viðkomandi flugfélagi á þeirri leið sem leitað er að. Við leituðum að flugi milli Keflavíkur og Washington í Bandaríkjunum og fáum beint í æð að tafir hjá Icelandair bæði á útleið og heimleið eru skrambi miklar.

Þetta er stundvísitafla sem er nothæf fyrir fólk á ferðinni ólíkt einhverjum meðaltalstöflum sem oft eru birtar. Þetta eru upplýsingar sem skipta töluverðu máli sé fólk á leið í tengiflug áfram svo dæmi sé tekið. Þá þýðir ekkert að hengja sig á meðaltal.

Flott framtak en tekið skal fram að við finnum ekki sambærilegar upplýsingar fyrir Wow Air né heldur um flugferðir í Evrópu. Ennþá.