Skip to main content

Þjófnaðir hafa í mörg ár verið töluvert vandamál á Októberfest í München í Þýskalandi en stórlega hefur dregið þar úr samkvæmt nýjum tölum. Hins vegar hefur líkamsárásum og það með bjórkönnum fjölgað ört.

Bjórkanna í höfuð er sársaukafullt og það vita fávitar sem nota slíkt sem vopn á Októberfest

Bjórkanna í höfuð er sársaukafullt og það vita fávitar sem nota slíkt sem vopn á Októberfest

Það vita þeir sem lyft hafa ekta þýskri eins lítra bjórkönnu að sú er engin smásmíð. Enginn sem lyftir svoleiðis nokkrum sinnum á dag þarf að eyða miklum tíma í ræktinni.

Könnurnar eru jafnvel níðþungar tómar sem ekki á að koma á óvart því glösin eru hluti af samkeppni brugghúsanna um að bjóða mest og best og flottast.

Á hátíðinni 2015 bárust lögreglu tæplega hundrað tilkynningar um alvarlegar árásir þar sem gerendur höfðu bjórkönnu að vopni. Góðu heilli lést enginn vegna sára sinna en það þykir meira heppni en annað.

Blaðamenn Der Spiegel reyndu nýverið að greina ástæður þess að slíkum árásum fer fjölgandi en árangurslaust. Lögreglan í borginni er heldur engu nær um ástæðurnar. Það kann þó að vera ein skýringin að ár frá ári fjölgar þeim erlendu gestum sem heimsækja borgina meðan á hátíðinni stendur. Ólíklegt er að þeir aðilar séu vanir jafn mikilli bjórdrykkju á jafn skömmum tíma og heimamenn og eins og jafnan er raunin þegar áfengi er haft um hönd í ríkum mæli getur verið stutt í kveikþráð margra. Ágætt að hafa í huga sé stefnan tekin þangað í framtíðinni.