Skip to main content

Það vita sennilega velflestir golfáhugamenn að það getur stundum tekið töluvert á að þvælast um heimsins horn með golfsett í ofanálag við annan farangur.

Það þarf ekki að kosta fúlgur að leigja golfsett erlendis. Mynd Aaron Hailey

Það þarf ekki að kosta fúlgur að leigja golfsett erlendis. Mynd Aaron Hailey

Fyrir það fyrsta getur verið æði dýrt að flakka með golfsett milli landa og álfa. Þar hjálpa klúbbar á borð við Icelandair golfers upp á sakir en ætli fólk með öðrum flugfélögum kann golfsett fram og aftur að kosta fimm til fimmtán þúsund krónur aukalega.

Ekki síður eru helv. settin oft fyrirferðamikil og troðið sett kemst til að mynda illa eða ekki fyrir í litlum bílaleigubíl. Jafnvel í meðalbíl taka tvo golfsett nánast allt skottpláss.

Síðast en ekki síst eru þau mörg hver þyngri en tárum taki og að ferja sett kannski ítrekað milli flugvalla, leigubíla, rútubifreiða eða hótela er lítt spennandi tilhugsun. Svo er alltaf spurningin langi fólk aðeins í golf í einn til tvo daga í vikuferð hvort það einfaldlega svari kostnaði og fyrirhöfn að taka settin með.

Á langflestum golfvöllum er hægt að leigja golfsett ef svo ber undir en þar aftur er verðlag nánast undantekningarlaust í hæstu hæðum auk þess sem ástand þeirra er upp og niður. Algengt leiguverð á setti einn hring er fjögur til sex þúsund krónur í Evrópu og þá eru kylfurnar jafnan ekki af nýjustu gerð.

Fararheill hefur áður bent golfáhugafólki sem er á þvælingi í Evrópu upp á frábæra þjónustu fyrirtækis í eigu fyrirliða evrópska Ryder-bikarliðsins eins og lesa má um hér. Þar fást glæný eða nýleg sett afhent á áfangastað og leigan mjög viðráðanleg.

En slíkt er ekki einskorðað við Evrópu. Vestanhafs er líka hægt að leigja ónotuð sett fyrir tiltölulega lítinn pening og jafnvel fá þau send beint á gististað. Fararheill lét nýlega á ferð í Orlando í Flórída reyna á slíka þjónustu fyrirtækisins ClubHub sem reyndar starfar víðar en í Bandaríkjunum. Vikuleiga á glænýju Taylor Made setti kostaði innan við fimmtán þúsund krónur í heildina. Það er svipaður peningur og fólk þarf að greiða fyrir flutning á golfsetti fram og aftur ef greiða þarf sérstaklega fyrir. Og allir losna við að bera draslið og koma því fyrir og svo framvegis og svo framvegis.