Skip to main content

Að minnsta kosti ein ung íslensk hjón urðu skúffuð á Indlandi í mars síðastliðnum. Þau skipulögðu funheitan túr um þetta mikla land á síðasta ári og ætlunin að sjá flest sem markvert er á tveimur mánuðum. Hið mikla mannvirki Taj Mahal var þó lokað.

Taj Mahal á skilið alla þá athygli sem þetta mikla hof fær. En hofið er mun minna Kodak-móment þetta árið en venjulega.

Það er þetta sígilda með Murphy og lögmálið hans: Það sem getur farið úrskeiðis, fer úrskeiðis.

Indversk ferðamálayfirvöld eru ekkert mikið fyrir að skemma stemmarann fyrir erlendum gestum. Þar vita menn sem er að trixið er að fá gestina til landsins og glenna svo slæmu fréttirnar beint upp í opið geðið á fólkinu.

Raunin er sú að Taj Mahal, allra vinsælasti ferðamannastaður Indlands, og sannarlega heimsóknar virði þrátt fyrir yfirgnæfandi mannþröng öllum stundum með tilheyrandi hávaða og veseni, verður varla sjón að sjá allt yfirstandandi ár og jafnvel vel fram á árið 2019. Ekki nema stillansar, netadruslur og þrautpínt verkafólk sé þín hugmynd að góðu myndefni.

Taj Mahal gengur nú í endurnýjun lífdaga en töluvert hefur hofið látið á sjá þau tæplega 400 ár sem það hefur staðið. Loftmengun sérstaklega haft slæm áhrif á þetta mikla mannvirki.

Í lok síðasta árs hófst loks vinna við að koma hofinu atarna til betri vegar en sú vinna mun standa að minnsta kosti út árið 2018 og mögulega eitthvað lengur en það. Sem þýðir bæði að miklar takmarkanir verða á fjölda þeirra sem geta skoðað hofið innanfrá en ekki síður sú sorglega staðreynd að myndir af hofinu glæsilega eru öllu lakari þegar vinnupallar og verkafólk eru í forgrunni.

Það er sem sagt varla til VERRI tími til heimsóknar en yfirstandandi ár ef ætlunin er að vitna Taj Mahal.