Skip to main content

Það er hvorki auðvelt né ódýrt að þvælast milli landa með áskært golfsettið fyrir þá áhugamenn sem æða landa á milli til að prófa hina og þessa golfvellina. Nú er hins vegar engin þörf á að druslast með það lengur.

Þó flestir elski golfsettin sín er þjóðráð að prófa reglulega nýjustu kylfurnar og það er auðveldara nú en áður

Þó flestir elski golfsettin sín er þjóðráð að prófa reglulega nýjustu kylfurnar og það er auðveldara nú en áður

Nýtt fyrirtæki, Clubstohire.com, hefur tekið upp á þeirri nýbreytni að bjóða kylfingum að leigja golfsett við komu til nokkurra vinsælla áfangastaða og fá settið afhent strax við lendingu á viðkomandi flugvelli. Leiguverði er stillt mjög í hóf og kylfingar bæði losna við vandræði að þvælast með settið sitt og þann kostnað sem því fylgir hjá langflestum flugfélögum.

Ekki er aðeins í boði að leigja sett heldur er og hægt að leigja golfskó ef svo ber undir og þannig í raun engin ástæða lengur til að ferðast með golfdótið sitt með nema ef vera skyldi eins og einn golfhanska.

Er þessi þjónusta nú í boði í Alicante, Kanarí, Murcía, Malaga og á Tenerife í viðbót við Faro og Lissabon í Portúgal, Belek í Tyrklandi, Dublin á Írlandi og Edinborg í Skotlandi þegar þetta er skrifað.

Er það atvinnukylfingurinn írski, Paul McGinley, sem að fyrirtækinu stendur en leiguverð fyrir hvert sett fer eftir tegund en í boði eru nýjustu sett frá öllum helstu framleiðendum golfbúnaðar.

Vikuleigan er frá 4.500 krónum og upp í tíu þúsund eða svipað verð og það kostar að taka eigið sett með. En þó losna allir við vesen og vandræði og fá að prófa sig með glænýju eða nýlegu setti í staðinn fyrir það gamla góða. Kjörið tækifæri til að prófa nýjar tegundir í golfinu í þokkabót.

Skrá þarf sig á vef Clubstohire.com og leggja fram pöntun með smá fyrirvara og þá bíður settið eftir þér á næsta flugvelli þar sem þjónustan er í boði.