Skip to main content

Svo virðist sem forráðamenn Icelandair séu loks að opna augun fyrir því sem við hér höfum ítrekað bent á sem góða hugmynd fyrir flugfélag: að koma fram við fólk af sanngirni og virðingu.

Rákum augun í tístfærslu Skota eins sem flaug með Icelandair um helgina. Flugið langt á eftir áætlun og svo löng var töfin að lent var þremur og hálfri klukkustund síðar en áætlað var upphaflega. Og það er akkurat við þriggja stunda línuna sem skaðabætur fara að tikka inn samkvæmt Evrópureglum. Með öðrum orðum ef þú lendir einhvers staðar þremur stundum of seint miðað við upphaflega áætlun þá áttu rétt á peningasummu frá flugfélaginu.

Lengi vel hefur Icelandair lítt haft þetta í heiðri og mörg dæmi má finna á vef Samgöngustofu þar sem flugfélagið hafnar alfarið slíkum kröfum með hinum og þessum afsökunum. Sem aftur leiðir gjarnan til þess að þeir farþegar sem í lenda fljúga aldrei aftur með félaginu.

En nú hafa menn tekið sér tak virðist vera. Umræddur aðili lagði inn beiðni um bætur og þær samþykktar og greiddar út SAMA DAG möglunarlaust!!!

Þetta er ekki aðeins til mikillar eftirbreytni heldur er betri þjónusta en hjá líklega öllum öðrum flugfélögum heims. Jafnvel í þau fáu skipti sem flugfélög fallast á kröfur sísona þá er það regla frekar en undantekning að bótagreiðsla taki fleiri vikur (Wow Air) og jafnvel upp í tólf mánuði (Primera Air.)

Algjörlega brilljant hjá Icelandair og vonandi er ekki um einsdæmi að ræða.