Skip to main content

Þeir sem keyptu eða fengu jólagjafabréf Icelandair nýliðin jól verða að bíta í pínu súrt. Nýjasta tilboð fyrirtækisins er nefninlega hagstæðara en það besta sem fékkst með jólagjafabréfunum.

Aðeins tveimur dögum eftir að sölu á jólagjafafargjöldum lauk detta inn sértilboð sem eru hagstæðari en jólafargjöldin. Mynd

Aðeins tveimur dögum eftir að sölu á jólagjafafargjöldum lauk detta inn sértilboð sem eru hagstæðari en jólafargjöldin. Mynd Eric Salard

Icelandair sendir nokkur tilboð á loft þennan daginn og lofar tíu þúsund króna afslætti á flugi til borga innan Evrópu og 20 þúsund króna afslætti á flugi vestur um haf gegn því að fólk skrifi sérstakan afsláttarkóða við bókun. Tilboðin gilda reyndar aðeins um flugferðir á tilteknum dagsetningum í febrúar en vissulega verður að klappa Icelandair aðeins á koll því afslátturinn er góður.

Þannig er til að mynda hægt að þvælast til London í næsta mánuði niður í 30.605 krónur fram og aftur en það er lægsta verð sem við finnum þangað á vef flugfélagsins svo eitt dæmi sé tekið. Það er mjög frambærilegt verð þegar haft er í huga að ein taska má koma með án þess að til komi aukagreiðsla. Rétt rúmlega fimmtán þúsund krónur aðra leiðina sem er barasta huggulegt.

Minna spennandi fyrir handhafa jólagjafabréfa flugfélagsins. Allra ódýrasta slíka bréfið um nýliðin jól kostaði 31.900 krónur og dugði meðal annars fyrir flug til og frá London í janúar og febrúar. Aðeins eru tveir dagar síðan sölu á því jólafargjaldi var formlega hætt. Það hefði borgað sig að gefa bara beinharða peninga eins og við bentum á. Lægra verð og fleiri möguleikar.