Skip to main content

Merkilegt með þessa íslensku milljarðamæringa. Þegar kemur að því að koma til móts við viðskiptavini samkvæmt lögum og reglum þá tekur áratugi að fá þá til að greiða klink til baka.

Margra mánaða bið eftir svörum frá Wow Air vegna vandamála er normið. En að það taki líka marga mánuði að greiða út bætur sem samkomulag hefur náðst um er verulega skítlegt. Skjáskot

Skúli Mogensen engu betri þar en forstjóri Primera Air ef marka má umsagnir á samfélagsvefnum Twitter.

Eins og Fararheill hefur komið inn á áður lokaði Wow Air fyrir kommentakerfi á fésbókarvef sínum um áramótin. Með tilliti til að fésbókin er einhver besti og ódýrasti kosturinn fyrir viðskiptavini að hafa samband við fyrirtæki, og öfugt, er það ekkert minna en fáránlegt af fyrirtæki að loka þeim aðgangi. Því hvers konar fyrirtæki tekur glatt móti seðlum fyrir veitta þjónustu en beitir svo öllum brögðum til að viðskiptavinir nái ekki sambandi síðar meir?

En við skiljum líka hvers vegna það var gert. Þar var annar hver einstaklingur að kvarta og kveina yfir þjónustu Wow Air og auðvitað ekki sniðugt að leyfa viðskiptavinum að skíta út flugfélagið…

Það er eins og það er. Verra þó að ná samkomulagi við viðskiptavin um bætur vegna tafa, seinkana eða annarra vandræða og taka svo marga mánuði að greiða út tilskyldar bætur. Eins og sjá má á meðfylgjandi skjáskoti eru átta vikur liðnar síðan Wow Air féllst á að greiða 400 evrur í bætur til þessa tiltekna einstaklings. Enn bólar ekkert á seðlum.

Er það einhver misskilningur að eigandi flugfélagsins sé milljarðamæringur? Er það einhver misskilningur að vöxtur Wow Air sé átta þúsund prósent eða svo í hverjum mánuði? Eða hvers vegna tekur að minnsta kosti tvo mánuði að endurgreiða viðskiptavini litlar 46 þúsund krónur?

Spyr fólk sem ekki veit