Í slendingar margir hafa lengi vel talið að Kanarí væri merkilegasta eyjan í Kanaríeyjaklasanum sökum þess að um árafjöld voru eingöngu í boði ferðir þangað héðan frá Íslandi.

Þetta hefur aðeins breyst nú allra síðustu árin og sem betur fer því Tenerife er töluvert merkilegri eyja en Kanarí. Höfuðborg hennar, Santa Cruz de Tenerife, er líka skemmtilegri en Las Palmas á Kanarí þar sem hún hefur ekki verið gerilsneytt af túrisma enn sem komið er.

Santa Cruz er auk Las Palmas höfuðborg Kanaríeyja en þar búa um 240 þúsund manns allt árið þó fjöldi erlendra aðila búi sér hér heimili á sumrin. Helsti kostur borgarinnar og aðalástæða þess að hér byggðist land var legan á austurströnd Tenerife en höfnin þykir ein sú allra besta á þessu svæði.

Hitastigið á Tenerife er stórkostlegt allan ársins hring. Meðalhiti yfir sumartímann eru 24 gráður og á veturna 17 gráður. Sem þýðir að kuldahrollur heyrir sögunni til á þessu svæði.

Ekkert stórkostlega mikið er í boði menningarlega hér í borg en yfir henni er einhver slakandi sjarmi þó hér sé jafnframt nokkuð líflegt um að vera.

Til og frá

Tveir alþjóðaflugvellir eru á Tenerife. Tenerife Norte er minni en nær Santa Cruz, aðeins í 18 kílómetra fjarlægð, en Tenerife Sur en í 60 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni.

Tenerife Norte er enn þann dag nokkur illræmdur en hér varð versta flugslys sögunnar árið 1977 þegar tvær farþegaþotur rákust saman með þeim afleiðingum að 600 manns létu lífið. Völlurinn er tiltölulega nýlegur, byggður 2002, og þar er alla helstu þjónustu að finna.

Þrjár mismunandi rútur eru nothæfar til að komast til og frá Tenerife Norte. Leiðir 102, 107, og 108 fara reglulega á milli. Fyrirtækið Titsa sér um velflestar leiðir milli borga og staða á eynni allri en miðaverð er misjafnt eftir lengd.. Vefur þeirra hér.

Með leigubíl eða bílaleigubíl er komist til borgarinnar á 20 mínútum eða skemur. Leigubílarúnturinn á dagtaxta kostar kringum 2.500 krónur.

Öllu dýrara er að nýta sér leigubíla frá Tenerife Sur. Sá rúntur kostar vart undir 11 þúsund krónum á dagtaxta.

Tveir möguleikar eru einnig í stöðunni varðandi rútur en þær eru drjúga stund á milli enda stoppað víða. Það eru leiðir 111 og 343 en einn og hálfan upp í tvo tíma tekur að fara alla leið. Sami aðili, Titsa, sér um þessar rútur.

Bílaleigubílar eru fínir til brúksins á eynni. Hún er ekki ýkja stór og vegir góðir og umferð í Santa Cruz eða á öðrum þéttbýlisstöðum ekki yfirgnæfandi þétt.

Til umhugsunar: Þeir sem á annað borð eru á Kanaríeyjum og vilja sjá og skoða út í eitt skal bent á að tíðar ferjusiglingar eru á milli allra eyjanna. Það þarf því engum að leiðast neins staðar því slíkt eyjahopp er stórskemmtilegt er tíminn er fyrir hendi og ferjurnar eru tiltölulega ódýrar í þokkabót.

Söfn og sjónarspil

>> Listahöllin (Espacio de la Artes) – Hér í nýstárlegri byggingu við San Sebastian breiðgötuna er undir einu þaki listasafn, ljósmyndasafn og bókasafn auk reglulegra annarra listviðburða. Ekki nóg með það heldur er hér líka lítið leikhús, nokkrar verslanir og veitingastaður. Fyrir ferðamenn er sérstaklega áhugavert að sjá ljósmyndasýninguna en þar eru eingöngu myndir frá Tenerife. Opið daglega milli 10 og 20 nema mánu- og laugardaga. Miðaverð er mismunandi eftir sýningum hverju sinni. Heimasíðan.

>> Tenerife höllin (Auditorio de Tenerife) – Önnur merkileg bygging en öllu frægari er Tenerife höllin  sem er fyrst og fremst ráðstefnuhöll en þar fara einnig fram ýmsir viðburðir og stórtónleikar. Sjálf byggingin við Avenida de la Constitucion er víðfræg fyrir arkitektúrinn og geysifallegt hús sem minnir helst á segl gamalla skipa. Fyrir utan að sækja þar viðburði er aðeins hægt að skoða bygguna með leiðsögn. Sú fer jafnan fram kl. 12:30 yfir sumartímann. Heimasíðan.

>> Tvíburaturnarnir (Torres de Santa Cruz) – Svo merkilegt sem það nú er voru tvær hæstu byggingar á Spáni staðsettar hér fram til ársins 2010. Ekki svo að skilja að þær hafi verið færðar heldur var það ár byggt hærra í Madríd. Ekki svosem annað merkilegt við turnana en 120 metra hæðin enda hefðbundnar íbúðablokkir að öðru leyti og ekki í boði að skoða innanfrá. Þeir sjást alls staðar frá en standa við Calle de Celia de Cruz.

>> Safn manns og náttúru (Museo de la Naturaleza y el Hombre) – Gott náttúru- og líffræðisafn við Calle Fuente Morales. Það er þó öllu frægara fyrir safn af svokölluðum Guanche múmíum en Guanche voru frumbyggjar Kanaríeyjanna áður en Spánverjar komu til skjalanna. Það fólk smurði lík látinna með ekki ósvipuðum hætti og Egyptar og allnokkrar slíkar grafir hafa fundist á öllum eyjunum. Best þó að kíkja við fyrir mat. Opið 9 – 19 alla daga nema mánu- og laugardaga. Miðaverð 550 krónur. Heimasíðan.

>> García Sanabria garður (Parque García Sanabria) – Stór og mikill garður mitt í borginni og kærkominn staður til að hvíla lúin eftir göngutúr undir heitri sólinni. Hér er grasagarður líka. Garðurinn auðfundinn við Römblu Francos hershöfðingja.

>> Spánartorg (Plaze de España) – Miðpunktur Santa Cruz er Spánartorgið sem er stærsta torg á öllum Kanaríeyjum. Þar er iðandi líf daga og nætur og yfirleitt skemmtilegt að sitja þar og taka inn mannlífið. Á torginu eru manngert vatn sem ekki er amalegt að dýfa haus í þegar hitastigið fer hvað hæst í júlí og ágúst.

Til umhugsunar: Tvær strendur sérstaklega er þess virði að minnast á dvelji fólk í höfuðborginni. Annars vegar Playa de las Teresitas til norðurs frá borginni. Sú strönd er geysifalleg og á henni er innfluttur skeljasandur. Þar er minna líf en víða annars staðar en hingað koma borgarbúir sjálfir til sólbaða og leikja. Næsta strönd við hana, Las Gaviotas, er ekki eins góð eða falleg en þar er þykir nekt sjálfsögð. Ekki gleyma að margar strendur Tenerife eru svartar vegna öskusands en ekki gullnar eins og margir búast við.

Verslun og viðskipti

Spánn má eiga það að vera ennþá einn allra hagkvæmasti staðurinn til innkaupa í Evrópu jafnvel þó úrval sé á stundum undir meðallagi.

Sé fólk á annað borð í innkaupahugleiðingum á Tenerife er Santa Cruz langbesti staðurinn til þess arna. Hér er vitaskuld stórverslunin El Corte Ingles sem margir þekkja og býður mikið úrval en hærri verð. Sú verslun stendur við Avenida Tres de Mayo. Önnur stórverslun er Meridiano við La Salle breiðgötuna. Undir því þaki eru um hundrað mismunandi verslanir auk veitingstaða og kvikmyndahúss.

Annar vænlegur verslunarstaður er Calle Castillo gata en þar finnast helstu og bestu tískuvöruverslanirnar og þekkt nöfn þar á meðal.

Tveir markaðir eru sérstaklega fínir heimsóknar á dólinu í sólinni. Afríski markaðurinn við Calle San Sebastián er opinn flesta daga vikunnar frá 6 til 14 og síðdegis á föstudögum. Þar fæst ýmislegt matarkyns, krydd og gripir frá Afríku. Á sunnudögum bætist svo flóamarkaður borgarinnar, Rastro, við þann afríska en eins og á öllum flóamörkuðum er allt til þar milli himins og jarðar ef svo ber undir. Um að gera að prútta við þær aðstæður og ekki síður gæta að veskinu.

Matur og mjöður

Þetta er Spánn og því ódýrt og gott að njóta bjórs og víns þegar það á við. Tonn er af hefðbundnum börum bæði spænskum og erlendum víða um borgina.

Matarkyns er heldur ekki erfitt að komast í álnir. Hér eru ágætir veitingastaðir ef vel er að gáð. Þrír sem fá góðar einkunnir bæði ritstjórnar Fararheill og annars staðar eru:

  • Restaurante Sinfonía / Calle El Humo 2  > Fusion matargerð hér í hávegum og kokkurinn þykir einn af þeim bestu á Spáni.
  • Los Reunidos / Calle Antinio Dominguez Alfonso 38  >  Sver sig meira í ætt við tapasbar þessi en góður mjög og sívinsæll meðal heimamanna.
  • Victor Cruz Bistro / Plaza Hermanos Dorta  > Victor Cruz er velþekktur kokkur á Spáni og hann rekur þennan stað sem er dýr en óaðfinnanlegur.

Líf og limir

Ekkert til að hafa miklar áhyggjur af. Vasaþjófar eru helsta vandamálið en við þeim er auðvelt að sjá hafi fólk skynsemina með sér.