B orgin Funchal er höfuðborg portúgölsku eyjarinnar Madeira og ýmsir telja borgina eina þá fallegustu í landinu. Það helgast af staðsetningu hennar milli fjallgarðs og fjöru á einum af örfáum stöðum á eynni þar sem flatlendi er stærra en frímerki.
Hér gengur lífið enn hægar fyrir sig en á meginlandinu á Íberíu skaganum og nett sveitrómantík í loftinu. Enginn flýtir og borgarbúar gefa sér tíma til að aðstoða ferðamenn ef vel er beðið.
Funchal og eyjan Madeira er ólík hinum spænsku Kanaríeyjum að því leytinu að hér rignir mun meira þó það sé helst vandamál yfir vetrartímann.
Borgin er lítil og fimt fólk skoðar borgina meira eða minna á þremur dögum án þess að blása úr nös. Ekki er svosem ýkja mikið að sjá í borginni sjálfri en útsýni til hafs er indælt og há fjöllin í kring skapa henni umgjörð sem er ekkert minna en stórkostleg.
Gróflega má segja að hvað ferðafólk varðar séu þrír hlutar Funchal sem ástæða sé að skoða og eyða tíma til. Fyrst ber að telja gamla miðbæinn, Socorro, sem er sá staður þar sem fyrstu landnemarnir komu sér fyrir á sínum tíma. Ýmislegt ber þess merki enn þann dag í dag. Lágreist byggðin, fátækleg húsakynni og götur sem eru þrengri en nýjustu Levi´s gallabuxurnar. Socorro var fyrir ekki svo mörgum árum nánast bannsvæði fyrir heimamenn og ferðafólk með sökum mikillar niðurníðslu og ekki síður var hér mekka heimilislausra og eiturlyfjaneytenda. Borgaryfirvöld tóku á því og nú er Socorro, sem þýðir hjálp, afar heillandi með fjölda smærri veitingastaða og bara og mörg hús hér fengið andlitslyftingu.
Gamli bærinn er þó ekki hjarta Funchal. Sá heiður fellur í skaut miðbæjarsvæðisins vestur af gamla bænum í og við dómkirkjuna Albergaria og við götuna Avenida Arriaga. Hér í kring eru margar frægar byggingar á borð við Seðlabanka heimamanna og höfuðstöðvar bæði lögreglu og hersins. Hér líka flottustu og dýrustu barirnir og verslanirnar. Ekki svo að skilja að það séu margar verslanir hér. Þeir eru merkilega fáar en það helgast af því að hér búa ekki svo ýkja margir, launatekjur almennt eru lágar og Portúgalir verða seint taldir verslunaróðir eins og sumir norðar í höfum.
Þriðji hlutinn sem máli skiptir tilheyrir úthverfinu São Martinho til vesturs af miðbænum. Svæðið oft þekkt sem Estrada Monumental en það heitir helsta gatan sem um það liggur. Í hnotskurn má segja að þetta svæði sé túristasvæðið í Funchal. Hér eru hótel eftir hótel eftir endilangri strandlengjunni og flest hver í betri kantinum líka. Sökum þessa hótelfjölda hafa sprottið upp eins og gorkúlur staðir sem gera eingöngu út á ferðafólk. Hér fjöldi veitingastaða, bara, skemmtistaða og verslana. Hér er stærsta verslunarmiðstöð borgarinnar og Madeira allrar: Madeira Forum.
Heilt yfir er Madeira, og Funchal þar meðtalin, svona á pari við Ísland. Enginn er að fljúga hingað til að vesenast í borg og bæ heldur til að njóta þeirrar stórkostlegu náttúru sem hér finnst. Á því er helst undanteking á Gamlárskvöld því það er þessi borg sem er í heimsmetabók Guinness fyrir stórfenglegastu flugeldasýninguna. Sú sýning ótrúleg jafnvel fyrir fólk sem ýmsu er vant frá Íslandi.
Til og frá
Aðeins einn flugvöllur er á eynni, Aeroporto Madeira, en sá var vel þekktur meðal flugmanna á árum áður þar sem afar stutt flugbrautin endaði snögglega við þverhnípi við Atlantshafið. Hann hefur nú verið lengdur.
Flugvöllurinn er staðsettur austanmegin á eynni í um 30 mínútna fjarlægð frá borginni og þaðan og inn í borg er langódýrast að komast með flugrútunni, Aerobus. Þeir vagnar ganga á milli flugvallarins og miðborgar Funchal reglulega frá 7 á morgnana til 21 á kvöldin en þó óreglulega. Sjá tímatöflu hér. Ferðin tekur um 40 mínútur og miðaverð aðra leið 750 krónur.
Til umhugsunar: Leið Aerobus liggur um öll helstu hverfi Funchal og vagnstjórinn gerir sitt besta til að komast eins nálægt þínu hóteli og unnt er ef um er beðið. Vagnstjórarnir eru yfirleitt tillitssamir ef komast þarf úr á leiðinni og alls óhrædd að spyrja. Ef þú ert viss um að ætla með flugrútunni til baka á flugvöllinn er lægra verð ef þú kaupir báðar leiðir saman.
Leigubílar bíða við komusalinn eðli málsins samkvæmt og fara hvert á land sem er. Allir leigubílar eru með mæla en þeir taka yfirleitt vel í ef þú vilt prútta eða fá fast verð í túrinn. Gættu þess að þeir kveiki á mælum ef ekki er samkomulag um verð fyrirfram. Leigubílarnir eru aðeins fljótari en flugrútan inn í borgina eða um 20 mínútur. Startgjaldið virka daga er 500 krónur og gera má ráð fyrir að rúntur inn í borg kosti vart undir 4.500 krónum. Þá er og 300 króna aukagjald fyrir farangur. Fargjöld um helgar og kvöldin kosta 20 prósent meira.
Ef ævintýraþráin er sterk og hvorki þreyta né flýtir í mannskapnum er þjóðráð að bíða eftir strætisvagninum. Þrír vagnar koma við á flugvellinum, stoppustöðin lengst til hægri þegar komið er út úr komusalnum. Ekki sama stopp og flugrútan. Plúsin við strætó er að þeir fara ekki beinustu leið inn í Funchal heldur aka gegnum þorpin á leiðinni sem oft gefur fantagóða útsýn. Mínusinn að þeir eru mun lengur á leiðinni. Gerðu ráð fyrir 45 til 60 mínútum inn í miðborg Funchal.
Sex bílaleigustöðvar eru á flugvellinum. Auto Jardim, Hertz, Sixt, Rodavante, Avis og Europcar. Bílaleigubílar eru ekki sérstaklega ódýrir á flugvellinum. Meðalverð fyrir meðalbíl er milli fimm og sex þúsund krónur. Vænlegra að bíða með leigu þangað til komin inn í borgina. Bílaleigur þar bjóða mjög góð tilboð dags daglega og á mun lægra verði en á flugvellinum.
Samgöngur og skottúrar
Borgin sjálf er nokkuð víðfem og að megninu til brött en miðbæjarhlutinn, sá hluti hennar sem ferðamenn sækja, er tiltölulega lítill og engin raunveruleg þörf á fararskjóta sé aðeins dvalist innan borgarmarkanna.
Innanbæjarvagnarnir eru allir gulir eða appelsínugulir eftir því hversu litblindir menn eru og flestir komnir vel til ára sinna. Þeir ganga ört og um borgina alla en leiðakerfi þeirra eða tímatafla liggur ekki fyrir á netinu. Borgin er ekki svo stór að það sé nokkur hætta við að stökkva upp í næsta vagn og sjá til hvert hann fer. Stakur miði kostar 250 krónur en góð hugmynd er að versla svokallaðan duplo miða hjá næsta tóbaks- eða blaðasala. Þeir kosta líka 250 kall en duga í tvær ferðir hvar sem er og hvenær sem er.
Frá Avenida do Mar breiðgötunni við ströndina, frá torgi við hlið kláfferjunnar frægu, fara líka aðrir strætisvagnar sem eru öðruvísi á litinn. Þeir fara út á land og litur þeirra segir til um hvert.
Hvítir vagnar með rauðri rönd fara til: Cámara do Lobos – Cabo Girão – Campanário – Ribeira Brava – Ponta do Sol – Canhas – Madalena do Mar – Arco de Calheta – Calheta – Estreito de Caleita – Jardim do Mar – Paúl do Mar – Prazares – Ponta do Pargo – Achadas do Cruz – Porto Moniz – Seixal – São Vincente – Ponta Delgada – Boaventura – Arco de São Jorge – Encumeada – Serra de Água
Silfurlitaðir vagnar með gulri rönd fara til: Camacha – Santo da Serra – Poiso – Ribeiro Frio – Faial – Santana – São Jorge – Cabanas – Arco de São Jorge – Curral das Feiras
Grænir vagnar með hvítri rönd fara til: Machico – Gaula – Caniçal – Portela – Santo da Serra – Porto da Cruz – Faial
Hvítir vagnar með grárri rönd fara til: Caniço – Caniço de Baixo – Garajau – Reis Magos – Assomada – Ponta de Oliveira
Leigubílar eru víða og ekki hika við að gera þeim tilboð og prútta. Allir hafa mæla sem þeim ber að nota en þar pottur brotinn og um að gera að reyna að nýta sér það.
Söfn og sjónarspil
>> Grasagarður Madeira (Jardins Botânicos da Madeira) – Afskaplega fallegur grasagarður hátt í hlíðum borginnar og útsýnið vægast sagt fyrsta flokks. Þess utan garðurinn sjálfur virkilega fallegur og það allra mest að sumarlagi þegar plönturnar blómstra sem aldrei fyrr. Alls eru vel yfir tvö þúsund tegundir af plöntum hér að sjá og lykta og njóta. Fararheill mæli með strætisvögnum hingað uppeftir vegna þess einfaldlega að þeir fara leið sem einnig gefur fantagóða sýn yfir borg og langt út í hafsauga. Vagnar 29 og 30 ganga beint að garðinum. Annar möguleiki er að taka kláfferju frá Monte og hingað yfir djúpt og áhrifamikið gil. Sá kláfur staðsettur steinsnar frá endastop hinnar frægu bláu kláfferju sem ferjar fólk upp hlíðarnar frá ströndu. Garðurinn opinn daglega 9- 18. Heimasíðan.
>> Santa Clara nunnuklaustrið (Convento de Santa Clara) – Fallegt klaustur frá fjórtándu öld við Calçada de Santa Clara götu. Sérstaklega er innviðirnir fallegir en margir veggjanna eru skreyttir hinum frægu handgerðu azulejo flísum sem Portúgalir eru frægir fyrir. Klaustrið er nógu merkilegt til að komast á þjóðminjaskrá Portúgal. Opið skoðunar virka daga 9 – 16.
>> Monte Palace garðurinn (Monte Palace) – Annar grasagarður í borginni sem er þess virði að eyða dagsstund og reyndar gott betur. Fararheill vill meina að þetta sé einn magnaðasti lystigarður sem við höfum augum litið. Hér hundruðir framandi tegunda auk yndislegra lækja og tjarna og risastórum garðinum skipt niður eftir löndum og álfum. Hér líka tvö frábær söfn og glæsilegur lítill kastali sem um tíma var eitt frægasta hótel Madeira. Ágætt kaffihús hér líka og drykkur innifalinn í aðgönguverðinu. Garðurinn opinn daglega 9:30 til 18 en frá 10 – 16 á safnið. Miðaverð 1600 krónur. Heimasíðan.
>> Höll São Lourenço (Palácio de São Lourenço) – Merkileg bygging sem er að hálfu virki en að hálfu höll og byggð í mannerisma stíl ef fólk hefur kynnt sér arkitekúr í þaula. Hér er hægt að skoða herlegheitin og er það þess virði enda hér að finna hersafn og muni frá tíð hallarinnar sem virkis. Húsið er áberandi og stendur við Avenida Zarco. Opið virka daga milli 10 og 17. Heimasíðan.
>> Dómkirkjan (Igreja da Sé) – Einn vinsælasti ferðamannastaður Funchal er þessi dómkirkja sem er bærileg skoðunar en engan veginn samanburðarhæf við fallegustu dómkirkjur landsins. Vinsældirnar byggjast fyrst og fremst á því að hún er mjög miðsvæðis og nánast alltaf opin gestum. Byggð milli 1493 og 1517. Opin virka daga milli 10 og 16.
>> Sögusafnið (Madeira Story Centre) – Nafnið segir allt. Saga borgarinnar og eyjunnar líka rakin á skemmtilegan hátt og nýjustu tækni beitt til þess arna. Merkilegt hvað þessi litla borg geymir mikla sögu. Sögusafnið opið daglega alla daga milli 10 og 19 og auðfundið við Rua do Carlos götu í gamla borgarhlutanum. Hafið í huga að einn af fáum veitinga- eða kaffistöðum í gamla bænum með fínustu svölum er hér á annarri hæð. Heimasíðan.
>> Rafmagnssafnið (Museu de Elictricidade) – Rafmagn og ljós en ekki endilega í þessari röð. Sérstakt en ekki ýkja skemmtilegt safn um rafmagn og áhrif þess og ekki síður hvenær og hvernig eyjan og borgin voru rafmagnsvædd. Fínt stopp í skamman tíma. Opið 10 til 18 alla daga nema mánudaga. Heimasíðan.
>> Borgarvirkið (Fortaleza de São Tiago) – Í Funchal er ekki að finna ýkja mikið af miðaldarmannvirkjum sem kemur sumum á óvart. Ein undantekning er borgarvirkið sem stendur heiðgult við ströndina í Socorro. Bygging þess hófst árið 1614 en það hefur verið endurbyggt nokkrum sinnum síðan. Það er í sjálfu sér ekki ýkja stórt né rammgert en dugði nokkuð til á sínum tíma gegn sjóræningjum og misyndismönnum. Virkið er opið virka daga og þar gjarnan listsýningar í gangi sem vert getur verið að kynna sér. Lítil verönd er strandmegin virkisins þar sem fiskimenn geyma báta sína en sá staður er einnig vinsæll meðal heimamanna að sóla sig og synda lítið eitt ef heitt er í veðri.
>> Frederico de Freitas safnið (Casa Museu Frederico de Freitas) – Ekkert megaspennandi en Frederico þessi var virt og dáð tónskáld og hljómlistarmaður í landinu. Hér bjó karl og samdi perlur sínar og byggingin mjög falleg. Calcada de Santa Clara 7. Opið um helgar 10 til 17. Heimasíðan.
>> Safn helgra muna (Museu de Arte Sacra) – Portúgalir eru, eða voru, kaþólskari en andskotinn og hér í Funchal þótti við hæfi að planta fallegustu munum kirkjunnar manna á stall á sérstöku safni. Hálfdapurt nema kirkjumunir séu sérstakt áhugamál en byggingin sjálf glæsileg og hún stendur við eitt fallegasta torg borgarinnar við Rua do Bispo. Heimasíðan.
>> Cristiano Ronaldo safnið (Museu CR7) – Eitt nýjasta og vinsælasta safn Funchal er tileinkað knattspyrnugoðinu Cristiano Ronaldo sem er fæddur hér og uppalinn og eðlilega mikið uppáhald borgarbúa. Það segir þó dálítið um sjálfselsku kappans að hann á meirihlutann í þessu safni sjálfur. Hér dregin upp mynd af ferli kappans frá tuðrusparki á götum Funchal og alla leið upp á stjörnuhiminn og hægt að berja augum marga af þeim titlum sem kappinn hefur unnið. Ómissandi fyrir aðdáendur og forvitnilegt fyrir flesta aðra. Safnið staðsett við Princesa Dona Emelia og opið alla daga nema sunnudaga. Miðaverð 800 krónur. Heimasíðan.
>> Spilavítið (Casino da Madeira) – Um tíma hér áður naut Madeira sérstakra skattfríðinda umfram aðra staði Portúgal. Þar með taldir vinningar í fjárhættuspilum. Það gerði það að verkum að spilavítið hér í borg náði miklum vinsældum og hingað komu stórvesírar fljúgandi helgi eftir helgi bara til að freista gæfunnar. Sá tími liðinn en spilavítið hér, á besta stað við Avenida do Infante, nýtur enn vinsælda. Byggingin sjálf er sérstök en hún og spilavítið sjálft tilheyra Pestana hótelinu sem einnig er hér en það var hannað af hinum fræga arkitekt Oscar Niemayer. Opið alla daga en 18 ára aldurstakmark inn.
>> Kapella hinna fátæku (Capela das Almas Pobres) – Allnokkrar kapellur finnast í Funchal eins og gengur hjá rammkaþólskri þjóð. Þessi þó sýnu merkilegust því hún er minnsta kapella heims. Allt um hana má lesa hér.
>> Verkamannamarkaðurinn (Mercado do Lavradores) – Stærsti og vinsælasti markaður borgarinnar en hér selja fjölmargir aðilar vörur sínar dags daglega. Innan hans er ávaxtamarkaður, fiskimarkaður, blómamarkaður auk annars glingurs inn á milli. Hér mikið líf flesta daga og allra mest eldsnemma á morgnana þegar fisksala er í fullu blússi. Largo dos Lavradores.
>> Kláfferjan (Teleférico do Funchal) – Fyrir þá sem heimsækja Funchal fyrsta sinni er þjóðráð að smella sér á rúnt með hinni frægu kláfferju borgarbúa. Það ljúfur tólf mínútna túr upp eða niður en flestir hverjir hefja förina við ströndina og fara úr í Monte sem er efstu hluti Funchal og er tæknilega ekki formlega hluti Funchal. Kláfurinn er mikil meistarasmíð og útsýnið frá hæsta punkti stórkostlegt. Hæsti punktur, nota bene, nær 40 metra hæð og þegar við bætist sá bratti sem er í hlíðum borgarinnar þarf engan að undra að margir missa sig yfir því sem fyrir augu ber. Miðaverð er 1.400 krónur. Heimasíðan.
Til umhugsunar: Ýmislegt forvitnilegt er í næsta nágrenni við endastöð kláfferjunnar í Monte sem lesa má um nánar hér í vegvísi okkar. Hér líka skammt frá er að finna hina frægu bastsleða, Carro de Cesto, sem áhugasamir geta fengið far niður hluta Monte hæðar en sleðunum er stýrt af tveimur hlaupurum niður tveggja kílómetra kafla niður brattar göturnar. Þó sleðaferðir þessar eigi sér langa sögu hér þá er þetta í dag eingöngu túristapakki en ritstjórn Fararheill getur vottað að túr er ekki leiðinlegur að neinu leyti. Þetta er þó dýrt. Einstaklingur greiðir um 3.500 krónur fyrir túrinn og sá endar við lítið kaffihús tveimur kílómetrum neðan. Gallinn er að þaðan er dálítið langur spotti niður á við áður en komið er inn í miðborgina og flestir verða að láta sig hafa leigubíl restina niður.
>> Nýlistasafnið (Museu de Arte Contemporânea do Funchal) – Tvær flugur í einu höggi hér því safn þetta er staðsett í gömlu virki, São Tiago, við sjávarsíðuna á Rua do Portâo. Gamli tíminn á bara fjandi vel við nýja list heimamanna. Skemmtilegt. Aðeins opið um helgar milli 10 og 17:30. Aðgangur 600 krónur. Heimasíðan.
>> Víngerð Blandy´s (Blandy´s Wine Lodge) – Vín hafa verið framleidd á Madeira um þrjú hundruð ára skeið eða svo og frægð vínanna hægt og bítandi borist um heim allan. Blandy´s er án efa þekktasta og stærsta víngerð eyjunnar og hér gefst færi á að kynnast sögu fyrirtækisins, framleiðslu og framleiðsluaðferðum á fróðlegan hátt á besta stað í bænum við Avenida Arriaga. Hér opið alla daga frá 8 til 17 og leiðsögn í boði. Sá túr tekur rúma klukkustund og kostnaður um 900 krónur á mann. Gestum býðst að smakka framleiðsluna að túrnum loknum. Heimasíðan.
>> Kirkja heilags verndardýrlings Monte (Igreja de Nossa Senhora do Monte) – Kirkjurnar í Funchal eru nokkrar en sitt sýnist hverjum um fegurð þeirra. Ein sú fallegasta og án efa sú sem gefur hvað besta útsýn yfir Funchal er þessi kirkja sem situr nánast efst í Monte sem aftur situr efst yfir Funchal. Kirkjan finnst rétt fyrir ofan endastöð kláfferjunnar og útsýnið bara til að deyja fyrir. Hún opin almenningi nánast alla daga og aðgangur ókeypis. Talandi um dauða; hér liggur mikilmennið Karl I, keisari Austurríkis og konungur Ungverjarlands og síðasti einvaldur beggja ríkja. Charles þessi þótti fífl af Guðs náð og sagan ekki farið vel með karlinn. Hann lést í Monte 1922 og er grafinn hér.
Til umhugsunar: Brattar tröppur liggja upp að kirkjunni atarna. Áður fyrr þótti það sjálfsagt mál að heita á Guð almáttugan þegar veikindi eða slys bar að höndum og heimamenn hér hétu því oft að sýna auðmýkt og lofa bót og betrun ef Guð heyrði bænir þeirra. Þegar það gerðist var reglan sú að þeir sem bænheyrðir voru gengu upp tröppurnar á hnjánum til að sanna auðmýkt og lotningu. Það aldeilis meira en segja.
>> Jesúítaskólinn (Colegio dos Jesuitas) – Þessi gamli fallegi skóli í miðborginni sem nú tilheyrir háskóla borgarinnar er heimsóknar virði. Ekki til að setjast á skólabekk heldur til að skoða markverða hluti. Eins og ókeypis sögusýningu í kjallaranum eða njóta tónlistar í litlum garðinum. Hér líka sérverslun með handverksmuni frá Madeira. Rua dos Ferreiros. Opið daglega 9 – 18. Heimasíðan.
>> Santa Catarina garðurinn (Parque Santa Catarina) – Hann lætur lítið yfir sér þessi þar sem hann stendur á lítill hæð skammt frá höfninni. Engin ósköp við að vera en hér afar ljúft að staldra við. Heimamenn sækja hingað mikið og útsýnið aldeilis fínt yfir stóran hluta borgarinnar. Opinn daglega 8 til 18 og frír aðgangur.
>> Minningar Joao Carlos Abreu (Universo de Joao Carlos Abreu) – Eitt af skemmtilegri söfnum Funchal er safn þetta sem kennt er við Joao Carlos Abreu. Hann var enginn sérstakur svo sem að öðru leyti en því að hann átti nokkuð af seðlum, ferðaðist víða og sankaði að sér merkilegum munum hvaðanæva að. Þeir munir eru til sýnis hér í því sem er í raun hefðbundið íbúðarhús við Calcada do Pico. Það fer ekki mikið fyrir því en skottúr hingað inn verður aldrei leiðinlegur. Opið alla daga nema sunnudaga milli 10 og 17. Miðaverð 600 krónur. Heimasíðan.
>> Fimm krossa húsið (Museu Quinta des Cruzez ) – Áhugasamir um sögu Madeira og Funchal geta unað sér bærilega á þessu safni við Calcada do Pico. Húsið sjálft og garðurinn með þeim elstu í borginni og innandyra er safn muna frá hinum ýmsu stöðum í veröldinni. Helst til mikið af munum frá Bretlandi en inn á milli gömul djásn frá Portúgal líka. Hafa skal í huga að hér er lokað í hádeginu annars opið virka daga 10 til 17. Aðgangseyrir 500 krónur. Heimasíðan.
>> Háskólakirkjan (Igreja do Colegio Sao Joao Evangelista) – Utanfrá virðast flestar kirkjur í Funchal og Madeira allri vera óttalega keimlíkar og óspennandi. Allt annað uppi á teningnum þegar inn er komið í þær flestar. Þessi er með þeim fallegri. Skreytt í hólf og gólf með trúarmyndum og freskum og sumpart úr gulli. Opin daglega. Rua dos Ferreiros.
>> Orkídeugarðurinn (Jardim Orquídea) – Falin lítil perla hér á ferð. Garðurinn lítill en troðinn af orkídeum í öllum mögulegum litum. Ómissandi stopp fyrir blómaáhugafólk og plúsinn sá að garðurinn er örstutt fyrir neðan Grasagarðinn sjálfan. Þjóðráð að slá tvær flugur í einu höggi. Lítið kaffihús með stórfínu útsýni skemmir ekki heldur. Aðgangseyrir 800 krónur og opið daglega frá 9 til 17. Heimasíðan.
>> Ráðhúsið (Câmara Municipal do Funchal) – Ráðhús borgarinnar situr auðvitað við Ráðhústorgið, Praca do Municipio, í miðbænum. Tignarleg bygging en seint talin ýkja falleg. Hægt er gegn gjaldi að fá leiðsögn um húsið en lítið að sjá í raun og ekkert ómissandi. Opið virka daga.
>> Hersafnið (Museu Militar de Madeira) – Annað lítið safn sem er næsta leiðinlegt nema gestir hafi brennandi áhuga á gömlum vopnum er þetta safn á besta stað í bænum. Hér rakin saga portúgalska hersins á eynni gegnum tíðina en fyrst og fremst með ljósmyndum þó hér megi skoða líka gamlar fallbyssur og rifla sem komnir eru vel til ára sinna. Palacio de Sao Lourenco. Opið virka daga 10 til 17. Miðaverð 400 krónur.
>> Virki Sao Jose (Forte Sao Jose) – Við skemmtiferðabryggju Funchal er að finna lítinn 30 metra háan klettadranga sem er myndarlegur úr fjarska en stórmerkilegur þegar að er komið. Kletturinn er nefninlega minnsta ríki í heimi hvorki meira né minna og staðfest líka hjá heimsmetabók Guinness. Sagan löng en forvitnileg og snýst um einstakling sem ekki var sáttur við yfirvöld hér á sínum tíma, settist hér að og lýsti yfir sjálfstæði. Í dag er enn barist fyrir formlegu sjálfstæði og sem liður í því geta gestir greitt þann aðgangseyri sem þeir kjósa. Gangar eru hoggnir í klettinn og frá toppnum er útsýni fínt bæði yfir borgina og eins niður á klettótta ströndina. Kattavinir njóta sín enn betur en aðrir því hér búa einir tíu kettir og láta fara vel um sig. Forvitnilegt stopp. Þar sem þetta er sérstakt ríki er ekkert heimilisfang en kletturinn auðfundinn við skemmtiferðaskipabryggjuna.
>> Strandsvæðið (Avenida do Mar) – Mörgum kemur á óvart hversu strandsvæðið er vel úr garði gert og stórt. Það nær töluvert út í sjó og hér kjöraðstæður fyrir almenning að leika sér og skemmta. Matarvagnar víða á svæðinu, ferðamenn alltaf á vappinu, hjólabrettakappar og sölumenn um allt líka og auðvitað bekkir um allt ef fólk vill hvíla lúin bein.
Til umhugsunar: Það er ekki tilviljun að strandsvæðið er jafn stórt og raun ber vitni. Ástæðuna má rekja til mikillar aurskriðu sem hér varð fyrir nokkrum árum þegar tonn eftir tonn af sandi, möl og drasli ýmsu kom rúllandi niður úr fjalllendinu. Svo mikið var flóðið að sérstakir skurðir til að taka á slíku dugðu engan veginn og þegar allt var yfirstaðið var strandgatan Avenido do Mar sem þá lá meðfram ströndinni á bólakafi í hnullungum og drullu. Tugir borgarbúa létu lífið. Til að gera langa sögu stutta gerðu borgaryfirvöld það eina sem þau gátu. Efnið sem niður kom var notað til að búa til nýtt landsvæði allt að 70 metrum út í sjó. Þess vegna lítur þetta svæði sérstaklega vel út því það er tiltölulega nýlegt.
Hótel og húsaskjól
Önnur ágæt ástæða til að staldra við á Madeira er sú staðreynd, sem Íslendingar ættu að geta lært af þó kannski sé of seint í rass gripið, að hér var fyrir mörgum árum of mikið byggt af hótelum og gististöðum. Á korti af borginni má auðveldlega sjá að nánast einn þriðji borgarinnar er undirlagður af hótelum og það oftar en ekki fjögurra og fimm stjörnu hótelum.
Þetta kom nokkuð í bakið á eyjaskeggjum þegar ferðamannafjöldi náði ekki þeim hæðum sem búist var við en plúsinn sá núna að hér er hægt að finna toppgistingu nánast öllum stundum ársins fyrir brandaraverð. Þá erum við að meina fimm stjörnu gistingu vel niður fyrir tíu þúsund krónur per nótt.
Ritstjórn hefur gist hér í borg á allnokkrum stöðum í öllum hverfum og skemmst frá því að segja að þó borgin sé hæðótt mjög þá er heilt yfir nokk sama hvar fólk setur sig niður ef líkamlegt atgervi er þokkalegt eða betra. Miðbæjarsvæðið er tiltölulega lítið og auðgengið og til að komast til og frá annars staðar eru strætisvagnar um allt og fljótlegt að flakka um.
Verslun og viðskipti
Hætt er við væli og vonbrigðum hyggist fólk endurnýja fataskápinn eða finna gæðavörur á góðu verði í Funchal. Borgin er á portúgalskan mælikvarða fremur dýr og sökum smæðar borgarinnar er úrval verslana langt í frá stórkostlegt. Meira að segja hefðbundnar keðjuverslanir er ekki margar að finna hér.
Reyndar finnst mörgum það kostur en ekki galli að hér sé ekki allt eins og annars staðar. Á móti kemur að í miðborginni má finna sæmilegt úrval sérverslana með hitt og þetta sem forvitnilegt gæti verið að skoða.
Elsta verslunarhús Funchal er Bazar de Povo en byggingin sem sú verslun stendur í er 120 ára gömul og sama verslun verið þar allan tímann. Inni er sæmilegt vöruúrval en nokkur Kaupfélagskeimur af hlutum hér. Til að komast í nútímalega verslunarmiðstöð er um að velja að kíkja í La Vie við Rua de Brito Camara. Sú á tveimur hæðum og slefar í að vera allsæmileg. Vænlegast er að halda til São Martinho í hótelhverfið þar sem stærsta verslunarmiðstöð Madeira, Forum Madeira, stendur. verður að halda aðeins út úr borginni. Þangað komist með strætisvögnum 4, 16 og 50 sem stoppa fyrir utan. Sú miðstöð í göngufæri ef þú dvelur í hótelhverfinu.
Aðeins einn alvöru markaður er í Funchal. Sá er Verkamannamarkaðurinn, Mercado dos Lavradores, og stendur við Rua dr. Fernano Ornelas. Ávexta- og grænmetissalar skipa hér stærstan sess auk fisksala en inn á milli má finna handverksmuni til sölu líka.
Matur og mjöður
Hér er mikill fjöldi veitingastaða og eins og annars staðar í Portúgal mælir Fararheill með að tékka ávallt á Menú do Día eða matseðli dagsins. Það er oftar en ekki þríréttuð máltíð oft með víni eða drykk og prísinn er sjaldan meiri en tvö þúsund kallinn. Velflestir alvöru veitingastaðirnir bjóða slíkt og má í raun þekkja túristastaðinu úr því þeir auglýsa slíkt ekkert á áberandi hátt.
Ágætir staðir finnast víða. Í gamla bænum eru þeir eðlilega í dýrari kantinum enda flestir ferðamenn þar. Þar líka mesta úrval veitingastaða þó flestir þeirra séu litlir. Undantekningarlítið er hægt að sitja útivið ef sá gállinn er á fólki. Í miðborginni eru einni stöku staðir sem óhætt er að staldra við á og fá sér í svanginn og víða þar í kring má finna bása og matarbíla þar sem hægt er að fá sér í gogg fyrir lítið.
Hægt er að mæla með rölti um götunar við Estreito de Câmara de Lobos til að finna ekta portúgalska staði. Sömuleiðis er ágætt úrval slíkra staða við Rua da Carreira, Rua Queimada do Cima og Rua do Bispo.
Gróflega má borða hér vel fyrir 1.500 krónur eða svo á mann og jafnvel kvöldverður á dýrustu veitingahúsum fer ekki mikið yfir 4.000 krónur með víni svona almennt talað. Þó skal gera ráð fyrir að greiða hærra verð í hótelhverfinu við Estrada Monumental.
Hafðu í huga að velflestir veitingastaðir Funchal gefa 10 prósenta afslátt af matnum ef greitt er með peningum en ekki korti.
Fararheill kýs að mæla ekki sérstaklega með einum eða öðrum veitingastað því sitt sýnist hverjum. Hér má finna lista Michelin yfir veitingastaði sem þykja betri en aðrir.
Djamm og djúserí
Hér er fjöldi bara og allnokkrir klúbbar í miðborginni en viðurkenna verður að úrvalið er öllu lakara en gerist á sambærilegum stöðum í Portúgal eða á Spáni. Sérstaklega er rólegt yfir á virkum dögum en finna má einhvern hasar og skemmtilegheit um helgar og þá gjarnan í gamla bænum.
Spilavítið Casino da Madeira er vinsælt meðal þeirra sem fjárhættuspil stunda en það er staðsett á fínum útsýnisstað í vesturhluta borgarinnar. Þar er líka diskótekið Copacabana sem er vinsælt.
Líf og limir
Ekkert stórkostlegt til að hafa áhyggjur af hér. Vasaþjófar finnast en alvarlegri glæpir eru sjaldgæfir nema ef vera skyldi að til handalögmála komi seint um nætur eftir drykkju.