H öfuðborg Algarve héraðs í Portúgal er borgin Faro. Sú er nokkuð frábrugðin öðrum stöðum á suðurströnd Portúgal. Eðalfín fyrir þá sem sleikja vilja sól og lítið hafa fyrir lífinu í fríi en daprari kostur fyrir ævintýragjarna. Þá er hér ekki sami sumarleyfisfílingur og í nágrannabæjum þó strendurnar séu ekki síðri enda gerir borgin sig ekki út sem sumarleyfisstað.
Þó borgin, sem telur hátt í 60 þúsund manns, sé miðstöð héraðstjórnarinnar er fátt sem gefur henni neitt extra umfram aðrar nágrannaborgir eða bæi. Töluvert minna er um að vera hér og borgin langt í frá jafn gegnsósa af túrisma og til dæmis Albufeira í næsta nágrenni.
Hætt er við að sérstaklega yngra fólki sem komið er til að dansa og djúsa geti beinlínis leiðst hér samanborið við stuðbæi eins og Albufeira. Þó er stemmningin í Faro töluvert meiri og betri á veturnar enda er Faro háskólabær og fjöldi ungmenna þá meiri en þeirra sem eldri eru. Þá er það vart til að auka sjarma Faro að hér hafa komið sér fyrir töluverður fjöldi Breta sem hér búa ársins hring og þeir eru jafnvel fleiri en heimamenn þegar spásserað er um svæðið.
Til umhugsunar: Sökum þess að Faro er í raun ekki að keppa um sumarleyfisgesti við nágrannabæi er oft á tíðum hægt að fá hér gistingu töluvert ódýrar en þar sem vinsælla þykir að vera. Hér er eini alþjóðaflugvöllur Algarve héraðs þannig að velflestir ferðamenn hingað fara hér í gegn.
Til og frá
Aeroporto Faro er tiltölulega þægilegur völlur og ekki of stór. Völlurinn er í um fimmtán mínútna fjarlægð frá borginni með leigubíl en 20 mínútur með rútu. Leigubíll mun kosta kringum 1800 krónur inn í miðbæ Faro meðan farið aðra leið með rútunni kostar litlar 260 krónur. Fara rúturnar fram og til baka á klukkustundar fresti og hægt að spara ágætan skilding ef enginn er flýtirinn. Nánar hér.
Auðvelt er líka að leigja bíl á flugvellinum og getur kostnaður við slíkt stundum borgað sig ef planið er að skoða sig um víðar en bara í Faro. Lágmarks sólarhringsgjald fyrir litla dollu er kringum 4500 krónur með ótakmörkuðum kílómetrafjölda. Hafa skal þó í huga að umferð í Faro er töluverð og afspyrnu leiðinleg; ökumenn sýna ókunnum enga linkind.
Sé um fleiri en fjóra að ræða sem ferðast saman er vænlegast að panta sér skutlu. Það eru stærri bílar sem taka allt frá sex farþegum og fleiri. Um tvenns konar skutlur er að ræða. Annars vegar sameiginlega skutlu sem deilt er með öðrum farþegum er sömu leið fara ellegar sérskutlu sem er aðeins fyrir þig og þína. Prís á haus með sameiginlegu skutlunni er 1200 krónur en 1600 með sérskutlu.
Samgöngur og snatterí
Litlar áhyggjur hér. Bærinn er ekki stór og ekkert sem ekki verður komist fótgangandi. 20 mínútna gangur í allar áttir dekkar allan miðbæinn eins og hann leggur sig. Eva Bus sér um rútuferðir og strætisvagna Faro. Sjá heimasíðuna fyrir leiðakerfi og miðaverð.
Söfn og sjónarspil
>> Carmo klaustrið (Igreja do Carmo) – Að flestu leyti hefðbundin eldri kirkja í bænum en þó með þeim sérmerkjum að veggir kirkjunnar, sem var áður hluti klausturs, eru skreyttir beinum og hauskúpum munka. Sú sýn fyllir varla nokkurn gleði og ánægju en vissulega forvitnilegt og langt í frá að vera einsdæmi í Portúgal. Kirkjan er vinsælasti áfangastaður ferðamanna í bænum. Kirkjan stendur skammt frá pósthúsinu í miðbænum við Largo do Carmo götu. Opin virka daga milli 9 og 16. Aðgangseyrir 180 krónur.
>> Gamli bærinn (Cuidade Velha) – Engin ástæða til að lista gamla bæinn sem sérstakan áfangastað enda næsta vonlaust að labba ekki þar um á ferð um Faro. Fallegur márískur bæjarhluti og eini hluti hinnar upprunalegu borgar sem eftir stendur en jarðskjálfti lagði hér allt í rúst 1755.
>> Biskupsstaður (Paco Ebiscopal) – Vel skreytt íbúðarhús biskups Faro er sjón að sjá en húsið er þráðbeint á móti dómkirkjunni. Dæmi um afskaplega vel heppnaðar skreytingar með hinum frægu portúgölsku flísum; azulejos.
>> Fornleifasafnið (Museu de Arqueologica de Faro) – Hefðbundið lítið fornleifasafn. Flestir munir hér frá tímum Rómverja og hinna íslömsku Mára. Opið 9.30 til 18 virka daga og 12 – 18 um helgar. Aðgangur 280 krónur. Heimasíðan.
>> Héraðssafnið (Museu Regional do Algarve) – Annað lítið safn í miðbænum og hér er áherslan á sögu héraðsins og þróun. Ekkert til að skrifa heim yfir en sleppur ef leiði sækir að. Safnið stendur við Praça do Liberdade. Opið virka daga 10 – 17 og 12 – 17 um helgar. Aðgangseyrir 400 krónur.
>> Faro strönd (Praia do Faro) – Ströndin við Faro er skörótt og með töluverðu landslagi en er ekki síðri en aðrar strendur á suðurströnd landsins. Það sem meira er að hér er afar sjaldan krökkt af fólki eins og á nágrannaströndum. Það er oft á tíðum aldeilis ágætt.
>> Formósa lónið (Ria Formosa) – Svo merkilegt sem það nú er þá er Formósa lónið áberandi besti og merkilegasti staðurinn í Faro. En fáir vita af því og enn færri fara þangað. Um er að ræða stórt lón sem varið er af löngum og miklum sandbökkum úti fyrir ströndinni. Hér er ótrúlegt fuglalíf og sjómenn veiða hér í litlum mæli. Ómissandi staður og lítið mál að fá sjómenn eða bátseigendur til að selflytja fólk þangað til skoðunar. Þá er til margt verra en grípa með sér nesti og njóta lífsins þar í hálfan dag eða svo enda óvíða jafn tær sjórinn og í lóninu.
Verslun og viðskipti
Reyfarakaup gera Íslendingar seint í Faro. Úrval verslana er mjög takmarkað og vörurnar vart af því taginu sem nýtist mönnum annars staðar en á heitri sólarströnd. Helsta verslunargatan er Rua do San Antonio nálægt bryggju bæjarins og Rua Francisco Gomes. Ein smærri verslunarmiðstöð er hér að finna. Í Forum Algarve ættu flestir að geta létt pyngjur sínar eitthvað. Þá er ágætur markaður, á portúgalskan mælikvarða, í norðurhluta borgarinnar við Largo do Sa Carneiro götu. Sá er opinn daglega en aðeins á morgnana frá 6:30 til hádegis. Annar slíkur er við Largo do Mercado.
Matur og mjöður
Á skalanum 0 til 10 er úrval veitingastaða hér að slefa 4. Þeir eru ekki síðri en annars staðar en bjóða takmarkað úrval og oftar en ekki mat sem vestrænir íbúar eða ferðamenn háma í sig. Fjöldi bara er hér eins og annars staðar og það litla næturlíf sem Faro býður upp á er langmest við göturnar Rua do Prior og Conselheiro Bivar.
Líf og limir
Tiltölulega örugg borg ef frá er talið þetta hefðbundna; veskisþjófar og sölumenn sem selja falsvörur. Að öðru leyti er Faro örugg. View Larger Map