F yrir þá sem ekki hafa lagt leið sína til suðvesturhluta Frakklands er auðvelt að ímynda sér hæðótt, grösugt og fallegt, en ekki stórkostlegt, landslag. Þetta er jú mekka vínræktar í landinu og kannski ekki svo ýkja mikið né merkilegt að sjá per se þó mjöðurinn sé yfirleitt góður…

Upp úr þurru á suðvesturströnd Frakklands rís 110 metra há sandalda eins og ekkert sé sjálfsagðara. Mynd Turisme du France

Upp úr þurru á suðvesturströnd Frakklands rís 110 metra há sandalda eins og ekkert sé sjálfsagðara. Mynd Turisme du France

Að frátöldum gallhörðum vínspekingum og öðru oggupons skrýtnu fólki sem kýs frið og ró framyfir lit og læti hefur suðvesturhluti Frakklands hingað til ekki dregið til sín milljónir ferðamanna. Þvert á móti eiginlega því þetta er sá hluti landsins sem fæstir ferðamenn sækja þrátt fyrir frægð vínanna um ár og aldir.

Það vill því koma þeim á óvart sem hingað villast að hér eru aldeilis fyrsta flokks strendur, fyrsta flokks ekta franskir smábæir um allar trissur og þær borgir sem hér eru með þeim allra skemmtilegustu.

Svo er hér líka Dune du Pilat!

Hver þremillinn er það? Það er nokkuð sérkennilegt fyrirbæri sem rís 110 metra upp frá ströndinni á einum stað í Archachon-flóa, ekki langt frá vínborginni Bordeaux. Stærsta sandalda í Evrópu hvorki meira né minna. 110 metra há þegar þetta er skrifað og 2,7 kílómetrar á breiddina.

Fyrirbærið trekkir töluvert af fólki enda sérdeilis fín útsýn til hafs af toppnum og ekki leiðist smáfólkinu neitt að veltast um og renna sér hér fremur en í fínustu skíðabrekkum að vetri.

Ekki er fræðingum alveg ljóst hvers vegna himinhá sandalda rís til himins nákvæmlega hér en hvergi annars staðar við Atlantshafs-strandlengju Frakklands. Eitthvað tengist það þó að tvær litlar eyjur finnst hér rétt úti fyrir og veita skjól frá hafi.

Hvað sem fræðin segja þá er þetta ótrúlega mikilfengleg sjón í nálægð og stærðin einhvern veginn meiri en maður ímyndar sér fyrirfram. Ómissandi stopp ef einhver finnur sig á þessum slóðum einn góðan veðurdag.