Skip to main content

E flaust eru þeir ekki margir sem heyrt hafa um borgina Telde á Kanaríeyjunni Gran Canaria. Sú er alla jafna ekki að heilla ferðalanga en mögulega kemur mörgum á óvart að Telde er næststærsta borgin á eynni og telur yfir hundrað þúsund íbúa.

Borgin sú er næsta stóra þéttbýlið á eynni í nálægð við alþjóðaflugvöllinn og í raun aðeins í 10 kílómetra fjarlægð frá úthverfum höfuðborgarinnar Las Palmas de Gran Canaria. Telde sjálf býr yfir töluverðum sjarma enda að finna hér ágætan gamlan miðbæ og tilþrifamiklar byggingar á borð við Basilíku San Juans, Basilica de San Juan, en altari þeirrar kirkju þykir með þeim merkilegri. Önnur kirkja, ekki verri, er Iglesia de San Francisco við Calle Inés Chandia en sú gata liggur meðfram rómverskri vatnslögn.

Þá er hér í Telde eitt besta safn eyjunnar, Casa Museo León y Castillo, þar sem saga eyju og heimamanna er skýrð í máli og myndum. Stendur safnið við samnefnda götu í Telde. Ennfremur er hér fallegur og frægur skúlptúr, Plazoleta Hiroshima y Nagasagy, við Doara hringtorgið til minningar um fórnarlömb kjarnorkusprenginganna í Hiroshima og Nagasaki.

Hingað er þess virði að koma stundarkorn fyrir þá sem nóg fá af troðningnum og ferðamannastraumnum á hinum hefðbundnari stöðum eyjunnar. Hér sjást ferðamenn ekki á hverju strái.