F erðamenn flestir hafa enga hugmynd um bæinn Gáldar á norðvesturströnd Kanarí. Hann er lítill, tiltölulega týpískur og fátt merkilegt að sjá þegar ekið er hjá. Bærinn atarna er samt einn merkilegasti bærinn á Kanaríeyjum öllum í sögulegu samhengi.

Hann státar ekki af fallegri ströndu. Hann státar ekki af góðu verslunarhverfi. Bærinn er ekki einu sinni mjög fallegur þrátt fyrir að hafa eitt sinn verið höfuðborg frumbyggja Kanarí og vera sá bær á eynni sem framleiðir mest af banönum.

Svo hvað erum við þá að setja Gáldar á stall?

Jú, ástæðan sú að merkilegustu fornminjar sem fundist hafa á Kanarí og Kanaríeyjum öllum finnast í þessum bæjartetri. Hér erum við ekki að tala um brot úr leirkönnum eða lærbein af fornmanni heldur helli einn skreyttan í hólf og gólf. Ok, hólf og gólf kannski aðeins of mikið sagt.

Hellirinn sá, Cueva Pintada, er sá eini af mörgum hellum á eynni þar sem vitað er að frumbyggjar höfðust við sem er skreyttur á einhvern hátt. Einföld tákn á veggjum en tákn engu að síður og það þykir til marks um framfararskref á sínum tíma.
Satt best að segja grípur enginn andann á lofti við að skoða hellinn í Gálder en svona sé fólk á þessum slóðum og þorsti er í eitthvað gamalt mannlegt er þetta toppstopp. Það tók aðeins 25 ár að grafa hellinn fræga upp og koma til þess horfs sem ferðafólk fær notið í dag. Það er alveg ástæða til að láta sig hafa eitt innlit eða svo.

Þess utan eru engin ósköp að upplifa hér í bæ. Bæjarkirkjan, Iglesia de Santiago de Gálda, er með fallegri kirkjum á Kanarí en þeir sem hafa eitthvað ferðast að ráði missa engan svefn yfir engri heimsókn þangað. Þá stendur Gáldar upp við lítið nakið og kulnað eldfjall þaðan sem sjá má afar vel yfir til Tenerife og ekki síður alla leið til Las Palmas.

Þá er það upptalið sem Gáldar býður upp á og þykir móðins. Nema ef vera skyldi að fornar beinagrindur séu í uppáhaldi. Þá er sniðugt að kíkja á La Guancha sem er forn grafreitur í göngufæri frá Gáldar. Þar reyndar engin ósköp að sjá því þær beinagrindur sem hér hafa fundist eru varðveittar á Museo Canarias í Las Palmas.