Vart hefur fram hjá lesendum farið að ritstjórn gefur íslenskum ferðaskrifstofum almennt ekki góða einkunn. Ferðaúrval þeirra er meira og minna hið sama ár eftir ár, þjónusta oft skorin við nögl á ungabarni og verðlag á ferðum hátt yfir því sem eðlilegt getur talist oft á tíðum.

Leiðirnar til Prag í Tékklandi eru misdýrar

Leiðirnar til Prag í Tékklandi eru misdýrar

Vissulega er ekki einfalt mál að bjóða Íslendingum ferðir erlendis. Við erum yfirleitt mun kröfuharðari en þegnar annarra evrópskra þjóða. Þá er, merkilegt nokk, ótrúleg samkeppni á þessum markaði og mun meiri samkeppni en nokkurn tíma í matvörugeiranum svo dæmi sé tekið.

Fararheill reiknaði út sumarið 2012 að hér væri ein ferðaskrifstofa á hverja sjö þúsund íbúa sem er mun hærra hlutfall en gengur og gerist til að mynda í Noregi, Svíþjóð, Írlandi eða Frakklandi. Ekki síður er flókið mál að fá erlenda ferðaþjónustuaðila til að gefa duglega afslætti til Íslendinga hvers króna nýtur lítils eða einskis trausts svo ekki sé minnst á að fámennið kallar ekki fram slef á vörum hóteleigenda úti í löndum.

Þess vegna má ekki skilja sem svo að ritstjórn Fararheill sé í heilögu stríði við ferðaskrifstofurnar innlendu. Þvert á móti teljum við að þær geti margar hverjar staðið sig betur og að standa sig vel er alltaf, alltaf besta auglýsing hvers fyrirtækis. Sérstaklega hér á Íslandi þar sem landinn er oft lítið að kvarta við fyrirtækin sjálf ef eitthvað er en er því duglegri að tala um slælega þjónustu við vini og vinkonur síðar meir.

En stundum getum við ekki orða bundist. Heimsferðir Andra Ingólfssonar, þess sama og lét hafa eftir sér við Viðskiptablaðið fyrir skömmu, að verðstríð borgaði sig ekki, auglýsa nú ýmsar „borgarferðir, í haust og er af ýmsu að taka þó áfangastaðirnir séu reyndar allir þeir sömu og undanfarin ár.

Við látum nægja að kíkja á eitt einasta dæmi en það er fjögurra daga ferð til hinnar fallegu Prag í Tékklandi. Við skoðuðum ferð út þann 10. október og völdum ódýrasta hótel sem völ var á á vef Heimsferða. Enda er raunin með meðlimi ritstjórnar að við lítum svo á að tími á hóteli á ferðum erlendis er ónýtur tími og því skiptir alls engu höfuðmáli hversu frábært hótelið er. Það nægir eiginlega að það sé þak á því okkar vegna.

Niðurstaðan var þessi:

Hvað er athugavert við þessa mynd?

Hvað er athugavert við þessa mynd?

Ef við skoðum þetta niður í kjölinn slær verðið mann töluvert strax og takið eftir að þessi ákveðna ferð er „Sértilboð.“. Flugið út er ekki fyrr en um hádegið og ekki lent í Prag fyrr en klukkan 18. Fólk er sem sagt varla komið á hótelið sitt fyrr en um 20 um kvöldið og þá kannski misþreytt eftir daginn. Hins vegar er flugið heim klukkan 17 og rútan á völlinn fer því vart seinna en 14 út á völl. Dagarnir fjórir til að dúlla sér í þessari fínu borg, anda með nefinu og komast frá raunum heimavið, eru því í raun aðeins þrír.

En fleira er athugavert hér ef vel er gáð. Verðið á ferðinni er samtals 167.800 krónur fyrir tvo saman. En samkvæmt haustferðabæklingi Heimsferða sem kom út fyrir skömmu er lágmarksverð til Prag á mann 85.500 krónur eða 171.000 samtals þessa sömu dagsetningu. Ferðaskrifstofan er sem sagt annaðhvort að auglýsa rangt verð í bæklingi sínum eða á netinu. Stór mínus og ekki klappa höndum þó í þessu tilfelli sé ferðin ódýrari en ella því hitt gæti eins átt við.

Í öllu falli um ágæta stutta haustferð að ræða sem margir gætu eflaust hugsað sér að njóta nú þegar kuldaboli hefur innreið sína. En kíkjum að gamni á hversu fjögurra nátta ferðir ferðaskrifstofu easyJet til Prag um svipað leyti í október kosta. Þá finnum við þetta:

Betra hótel og margfalt lægra verð hjá easyJet

Betra hótel og margfalt lægra verð hjá easyJet

Þarna er um ferð ferðaskrifstofu easyJet að ræða frá Gatwick í Bretlandi. Fjórir dagar á mun betra hóteli fyrir tvo og kostnaðurinn er samtals fyrir tvo samkvæmt miðgengi dagsins 62.365 krónur. Bætum við sitt hvorri töskunni á mann báðar leiðir og þá hækkar fargjaldið í 377 pund eða sem nemur 72.528 krónum samtals fyrir tvo.

Verðmunurinn reynist vera 95.272 krónur á keimlíkri ferð frá Íslandi eða Bretlandi. Hvað í ósköpunum er eðlilegt við þann verðmun þó flugið sé vissulega nokkuð lengra? Ekkert að okkar mati.