Skip to main content
Tíðindi

Hætta að fljúga til Frankfurt

  26/03/2012janúar 9th, 2015No Comments

Nýverið tilkynnti flugfélagið Iceland Express að frá og með næsta sumri yrði þýska borgin Köln nýr áfangastaður félagsins í sumar og að þangað yrði flogið tvisvar í viku yfir sumarmánuðina. Þá kom ekki fram að í staðinn hættir flugfélagið að fljúga til Frankfurt.

Við skoðun á leiðakerfi Iceland Express rakst ritstjórn Fararheill.is á að í allnokkrum tilfellum í sumar bauð flugfélagið upp á sjö brottfarir frá Keflavíkurflugvelli á dag.

Vakti það athygli enda Iceland Express aðeins með þrjár þotur á leigu til farþegaflutninga.

Þrátt fyrir margítrekaðar fyrirspurnir vegna málsins fengust á þessu engar skýringar fyrr en í dag. Þá staðfesti blaðafulltrúi félagsins að brottfarir séu í raun aðeins sex þar sem hætt verður við allt flug til Frankfurt og flogið til Kölnar í staðinn.

Ástæða þess að svar dróst var að ekki var búið að láta alla farþega flugfélagsins vita um leiðabreytinguna en töluvert hafði verið selt af sætum til Frankfurt.

Heimir Már Pétursson, blaðafulltrúi Iceland Express, segir að ástæða þessa sé sú að þjónusta við farþega sé er mun betri á Kölnarflugvelli en á Frankfurt-Hahn.

Þjónusta flugvallarins við flugfélög í Köln er mun hraðari en á Frankfurt-Hahn, sem þýðir að farþegar komast einnig hraðar í gegnum flugvöllinn. Þá er Köln á margan hátt meira spennandi áfangastaður og þaðan er styttra en frá Franfurt til annarra áhugaverðra staða.

Fyrir farþega sem ætla til Frankfurt er um tveggja tíma akstur frá Köln og klukkutími með háhraðalest beint frá flugvellinum. En í dag tekur það farþega einn og hálfan tíma að aka frá Frankfurt-Hahn flugvelli inn í Frankfurt borg.