Ritstjórn Fararheill hefur löngum undrast þá tilhögun innlendra ferðaskrifstofa að bjóða aðeins golfferðir til Evrópu tímabundið fram á vetur en loka svo fyrir allt slíkt þangað til komið er fram á vor á nýjan leik.
Undarlegt sökum þess að mjög vel er hægt að spila golf syðst í álfunni allan ársins hring í venjulegu árferði og það sem meira er, að hitastig til dæmis við suðurströnd Spánar og Portúgal í janúar eða febrúar er sallafínt fyrir íslenska golfara.
Með sallafínt meinum við að meðalhiti í og við Cádiz svo eitt dæmi sé tekið í febrúar er 16 gráður og 9 gráður yfir nóttina. Fer það ekki nærri því að vera ósköp ágætt sumarveður á Íslandi þegar vellir innalands eru svo pakkaðir af fólki að bóka þarf rástíma með margra daga fyrirvara?
Það mætti segja okkur að það sé stór hópur golfara sem áhuga hafi að spila á grænu grasi lengur en til október á Spáni eða í Portúgal. Við leituðum því uppi golftilboð yfir janúar eða febrúar og kíktum á hvort ekki væri hægt að finna eitthvað safaríkt. Og það fundum við fljótlega. Nema það þyki slæm kjör að dvelja sjö daga í svítu á ágætu hóteli með hálfu fæði og spila sjö hringi á þremum mismunandi golfvöllum fyrir 55 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman?
Það er gjaldið sem greiða verður fyrir gistingu og golf á Vincci Costa Golf í Chiclana skammt frá Cádiz á Spáni í febrúar næstkomandi. Tilboðið er líka hægt að dobla og dvelja tvær vikur ef fólk kýs svo. Svæðið er hið sama og Heimsferðir kynna gjarnan sem Novo Sancti Petri og þangað hægt að komast með þeirri ferðaskrifstofu í október í tólf dægur fyrir tæpa hálfa milljón króna fyrir tvo saman.
Þar er um að ræða tilboð golfferðaskrifstofunnar Golf in Spain en inn í pakkann vantar auðvitað flug frá Íslandi og heim aftur. Góðu heilli fæst það lágt bæði frá Keflavík til London næsta febrúar og sömuleiðis eru nokkur lággjaldaflugfélög að fljúga hingað þann mánuðinn og sömuleíðis fyrir lítinn pening. Gróf úttekt okkar leiddi í ljós að heildarpakkinn gæti kostað manninn rúmlega hundrað þúsund krónur eða svo láti menn sig hafa að fara með lággjaldaflugfélögum og bóki með ágætum fyrirvara.