Flugfélagið British Airways í samstarfi við Secret Escapes er nú að bjóða duglega afslætti á ýmsum ferðum til Karíbahafs frá Bretlandi í vetur.
Fátt amalegt við að spássera fáklædd á silkiströndum meðan djúpar lægðir og vetur konungur skiptast á að gera heimalandið kalt og hvasst.
Hægt er að velja um allnokkra áfangastaði og frá vikutíma og upp í sautján nætur eftir óskum. Skoðun leiðir í ljós að hægt er að fá ágæta gistingu með morgunverði á Tóbagó í tvær vikur með flugi niður í 232 þúsund krónur á mann miðað við tvo saman í apríl á næsta ári. Það þýðir rúmlega 500 þúsund fyrir parið með flugi héðan til Englands og heim aftur.
Nú eða tíu daga pakki á St.Kitts eyju á fínu hóteli niður í 180 þúsund krónur á mann í sama mánuði. Það gróflega kringum 410 til 420 þúsund samtals á par með fluginu til Englands og heim. Sem er svona á pari við allra bestu tilboðin héðan til Spánar yfir sumartímann.