Skip to main content
Tíðindi

Nei, hættu nú alveg

  26/03/2012janúar 9th, 2015No Comments

Ritstjórn Fararheill hefur áður og ítrekað gagnrýnt þá einörðu stefnu stóru íslensku ferðaskrifstofanna að auglýsa gjarnan verð á pakkaferðum miðað við fjögurra manna fjölskyldur. Nú bætir ferðaskrifstofan Úrval Útsýn um betur og auglýsir verð til Almeríu miðað við þrjá fullorðna og þrjú börn í Fréttablaðinu í dag.

Auglýsir Úrval Útsýn frábært verð fyrir stórfjölskylduna í því tilfelli en þá kostar pakkaferð á mann til Roquetas de Mar á Spáni 90.269 krónur miðað við sex saman sé gist á íbúðahótelinu Pierre Vacances.

Ástæða þessa er að hluta skiljanleg frá viðskiptasjónarmiði. Því fleiri sem geta troðið sér á tveggja eða þriggja herbergja íbúðahótel því ódýrara gerist það og því getur ferðaskrifstofan auglýst það verð stórum stöfum.

Til að sanngirni sé gætt kemur líka fram í auglýsingu Úrval Útsýn verð á sömu ferð fyrir fjóra og svo aftur tvo saman en kostnaðurinn fyrir aðeins tvo fullorðna er þá 114.307 krónur á mann eða 24.038 krónum dýrara en fari sex manna fjölskyldan út saman.

En spyrja má á móti hversu margar stórfjölskyldur íslenskar samanstandi af þremur fullorðnum og þremur börnum? Eða tveimur fullorðnum og tveimur börnum? Slíkum kjarnafjölskyldum fer mjög fækkandi og þarf aðeins að kíkja í bækur Hagstofu Íslands til að fá það staðfest.

En er ekki bara heiðarlegast að auglýsa verð á einn einstakling? Það allavega tíðkast erlendis.