Skip to main content

Hmmm. Flugfélag í eigu lífeyrissjóða landsmanna sem er með feita brúna rák í buxum hér heima en leggur engu að síður mikið kapp á að koma fótum undir sig á fjarlægum eyjum erlendis.

Milljarðamæringurinn Úlfar Steindórsson kann að selja bíla Toyota en alls óhætt að setja stórt spurningarmerki við útrás Icelandair til fjarlægra landa. Skjáskot

Ekkert frámunalega vitlaust fólk hér á ritstjórn Fararheill en ekkert okkar er nokkru nær um hvers vegna flugfélag sem bókstaflega er með allt niður um sig hér heimavið eftir besta ferðamannatímabil í sögu Íslands er að gera sig breitt á fjarlægum eyjum.

Einhver hefði haldið að slælegt gengi Icelandair á heimaslóð yrði til þess að naflaskoðun færi í gang. Því fyrirtæki sem ekki rokkar á heimaslóð er varla að fara að rokka mikið í fjarlægum löndum.

Svarið við því er stórt neibbs í tilfelli Icelandair. Íslenska flugfélagið var fyrr í dag valið af hálfu stjórnvalda á Grænhöfðaeyjum til að yfirtaka flaggflugfélag eyjanna; Cabo Verde Airlines. Icelandair mun eignast meirihluta í flugfélagi eyjanna ef viðræður ganga vel. Í kjölfarið mun Icelandair reka flugfélag Grænhöfðaeyja í von um að það flugfélag geti breytt feitum taprekstri í plús.

Þessar fregnir í ofanálag við að Icelandair sé að reyna sitt besta til að taka yfir Azores Airlines, áður Sata Airlines, sem er eina flugfélag Asóreyja, bendir til þess að Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair, sé ekki með kollinn alveg í lagi. Karlinn kann að selja bíla enda það sáraeinfalt þegar annar hver maður kaupir Toyota en að eyða formúgum til að taka yfir flugfélög í fjarlægum löndum sem ekki hafa sýnt eina krónu í hagnað í áratugi á sama tíma og gengi flugfélagsins heimavið er hið sama og það var í kjölfar Hrunsins 2008 segir ýmislegt um hæfileika Steindórssonar.

Þúsund kall á að þessi útrás Icelandair endar með ósköpum fyrr en síðar með tilheyrandi frekara tapi fyrir lífeyrissjóðsþega landsins…