Skip to main content
Tíðindi

Freistandi sigling Heimsferða ekki svo freistandi

  15/12/2012No Comments

Ferðaskrifstofan Heimsferðir auglýsir nú glæsilega skemmtiferðasiglingu sem hefst í hinni eiturskemmtilegu Brasilíu og endar í aðeins minna spennandi Savona á Ítalíu nítján dögum síðar.

Hin merkilega borg Fortaleza í Brasilíu. Margt að sjá og upplifa hér en fimm tímar duga ekki til neins.

Við fyrstu sýn er um frábæra ferð að ræða. Ekki aðeins gefst færi að kynnast Rio de Janeiro í nokkra daga heldur og dúlluleg kósí sigling með góðum dalli og stoppað á ýmsum æði skemmtilegum stöðum.

En hvers vegna segjum við aðeins við fyrstu sýn?

Verðið reyndar þvælist sennilega fyrir mörgum sem áhuga hafa enda kostar pakkinn með flugi 478 þúsund krónur á mann í innri klefa skipsins með engu útsýni og eru þá ekki innifaldar neinar ferðir í land þar sem skipið hefur viðkomu. Fari hjónakorn saman og súpi á nokkrum drykkjum um borð auk þess að kaupa ferðir með leiðsögn er hér um að ræða vel rúma milljón króna samtals og það er ekki peningur sem liggur á glámbekk hjá mörgum íslenskum hjónum. Nema náttúrulega um sé að ræða 2007 módelið af útrásarhjónum sem geyma peningana á Tortóla eða Lúxemborg.

En það er ekki verðið per se sem ritstjórn Fararheill setur fyrir sig. Þetta er ekki ódýrt en heldur er ekki þúsund prósent álagning eins og stundum er raunin.

Tökum þetta eftir bók Heimsferða:

DAGUR 1: Flogið í beinu flugi Icelandair til London. Brottför er kl. 9:00 og lending kl. 12:00 að staðartíma. Ekið frá flugvelli til smábæjarins Windsor. Um það bil 30-40 mínútna akstur. Dvalið þar í eina nótt.

Hvaða rugl er það? Flugið er leiðinlegasti kaflinn í pakkanum og hvers vegna að lengja í leiðindunum. Fljúga til London og svo strax áfram. Og Windsor? Hvers vegna ekki hótel við flugvöllinn í stað klukkustundar rútuferðar?

DAGUR 2: Flug með Brithis Airways til RIO de Janeiro í Barsilíu. Flugtak kl 12:00, lending kl 20:50. Flugtími um 12 tímar. Tímamismunur er: -3 tímar (3 tímar á eftir klukkunni á Íslandi). Ekið frá flugvelli til hótels.

Tólf tíma flug er ömurleg lífsreynsla en hjá því verður náttúrulega ekki komist. Skemmtilegar stafsetningarvillur.

DAGAR 3-6: Kynnisferð að Kriststyttunni á Corcovado fjalli.   Hádegisverður á Ipanema ströndinni innifalinn. Kynnisferð á Sykurtoppinn. Hádegisverður innifalinn. Kvöldferð / RIO by night. Kvöldverður innifalinn ( ekki drykkir ). Um hádegisbil er ekið til hafnar þar sem innritun inn í skipið hefst um 14:00. Skipið siglir svo kl 19:00 og þar með hefst 19 daga sigling frá Suðu-Ameríku til Evrópu.

Ok. Þetta sleppur en er ótrúlega túristalegt og hvað er málið með að bjóða drykkina ekki með? Þeir eru hræbillegir og hrista hópinn saman.

DAGAR 6 til 8: Sigling hefst 19:00 og komið til borgarinnar Ilhéus kl. 9 þann 8. mars. Dagssigling áður en komið er til  borgarinar Ilheus sem er afar vinsæll staður meðal ferðamanna.

Sleppur. Fólk að koma sér fyrir og kynnast skipinu, þjónustunni og samferðalöngum. Ilhéus notaleg en ekkert til að skrifa heim um.

DAGUR 9: SALVADOR de BAHIA 7:00 14:00 Þaðan er siglt til Salvador de Bahia sem eitt sinn var höfuðborg Brasilíu með yfir 1.5 milljón íbúa. Borgin stendur á hæð með útsýni yfir flóann og litlu eyjarnar sem eru þar allt í kring. Spennandi litrík byggingarlist er allsráðandi, kirkjur á hverju horni og stór strámarkaður í miðbænum með forvitnilegan varning.

Fínt mál. Þessi borg skemmtileg og laugardagur hér þýðir fjör og stuð. Verst að stoppið nægir rétt svo til að fara út og inn og enginn tími til að skoða kirkjurnar á hverju horni né stóra strámarkaðinn í miðbænum.

DAGUR 10: MACEIO 13:00 23:00 Næsti viðkomu staður er Maceio, fallegur – litríkur og líflegur bær. Samba og bossanova takturinn er heillandi og ómar víða um borgina.

Aftur jákvætt mál. Hér er stoppað hálfan dag og tími gefst til að kynnast öðru en bara höfninni. En ekki er tekið fram hvar fólk kemst í „samba- og bossanóvafílinginnn“ sem er nú líklegast hvergi á sunnudegi enda allir að slaka.

DAGUR 11: RECIFE 8:00 13:00 Þá er borgin Recife næst á dagskránni – borgin sem oft er nefnd “Feneyjar Brasilíu” vegna ótrúlegs fjölda síkja og sem liggja vítt og breitt um borgina. Í miðborginni eru yfir 39 brýr sem liggja yfir um 50 síki. Nýtískulegar byggingar eru víða ásamt fallegum litríkum húsum í nýlendustíl frá 18. og 19. öld.

Recife er bara snilld og svo margt að skoða hér og ekki síst njóta enda sækja hingað Brasilíumenn sjálfir langar leiðir. En viti menn. Skipið stoppar aðeins í fimm tíma sem er nægilegur tími til að bora í nefið á bryggjunni en ekki mikið meira. Og Recife er ekki þekkt sem „Feneyjar Brasilíu“ heldur er það ferðamálaráð borgarinnar sem auglýsir borgina þannig. Fráleitt alveg og svipað og segja að Stokkseyri séu Feneyjar Íslands út af skurðum þar í kring.

DAGUR 12: FORTALEZA 13:00 18:00 Þá er siglt til Fortaleza. Það sem einkennir þennan stað einna helst er hinar fögru pálmaprýddar sandstrendur og einstök aðstaða til sjóbaða

Aftur er stoppað á skemmtilegum stað iðandi af lífi sem þú sérð hvergi annars staðar en hér. En aftur er stoppið bara djók og sá asni  sem ætlar að dúllast og prófa þessa „einstöku aðstöðu til sjóbaða“ missir af dallinum.

DAGAR 13 – 17: Sigling

Það fer eftir geðslagi hvers og eins hvernig fólk ræður við fimm daga siglingu í litlum klefa með engu útsýni. Auðvitað er nóg að gera og hafa um borð og maturinn er innifalinn en Fararheill ábyrgist að eftir dag eða svo er fólk komið með viðbjóð á inniklefanum.

DAGUR 18: SANTA CRUZ 9:00 17:00 Þann 18 mars er komið til Santa Cruz á Tenerife

Santa Cruz býður ekki upp á nein ósköp en hér fær fólk tilfinningu fyrir Evrópu á nýjan leik og mörgum sem óvanir eru líður yfirleitt betur við það.

DAGUR 19: FUNCHAL 9:00 18:00 Þaðan er siglt til blómaeyjunnarMadeira þar sem dvalið verður daglangt. Afar falleg og gróðursæl eyja með plöntum frá öllum heimshornum.

Hér gefið í skyn að tími gefist til að skoða þessa eyju með öllum hennar dásemdum. Ritstjórn hefur eytt góðum tíma hér og níu stundir nægja ekki til að skoða allt það helst í borginni Funchal og hvað þá nokkuð annað.

DAGUR 20: Sigling

Ok. Smá sólbað, bjór á barnum og svo aftur í litlu ömurlegu káetuna.

DAGUR 21: CASABLANCA 7:00 21:00 Eftir dagssiglingu er komið til Casablanca í Morocco. Casablanca er iðnaðar- og efnahagsmiðstöð Morocco. Fjölbreyttar kynnisferð um þessa merku borg svo og um næsta nágrenni.

Casablanca er frábrugðin því sem fólk hefur séð hingað til í ferðinni og kannski er kynnisferðin, sem kostar aukalega, skemmtileg en það er borgin sjálf ekki. Hún er ein allra leiðinlegasta borg í Marokkó.

DAGUR 22: Sigling 

Úps! Aftur í káetuna góðu.

DAGUR 23: BARCELONA 14:00 19:00 Þá tekur við dagssiglin áður en komið er til hinnar fögru borgar Barcelona

Fögru borgar já en annaðhvort hefurðu komið hingað áður og þarft ekkert að skoða eða ef það er í fyrsta sinn sem þú stígur hingað fæti þá duga fimm tímar ekki til neins nema rúnt á Römblunni.

DAGUR 24: MARSEILLES 12:00 18:00 Síðasti viðkomustaður okkar í þessari siglingu er Marseille á frönsku rivíerunni. Borgin er elsta borgFrakklands og ein af Menningarborgum Evrópu 2013

Aftur stoppað í stórborg og aftur færðu engan tíma til að gera neitt af viti

DAGUR 25: Savona þar sem siglingunni lýkur

Úps! Allt búið og þið milljón krónum fátækari. Beint í rútu, út á flugvöll, til London og þaðan beint heim. Hvers vegna liggur svona mikið á heim fyrst dúllast var í Windsor á útleiðinni?

Staðan er því svona þegar leik er lokið:

  • Þið eruð milljón krónum fátækari
  • Þið eydduð rúmri viku í Brasilíu en sáuð afar lítið af Brasilíu
  • Þið komust að því að það er erfitt að viðhalda rómans eða faktískt eðlilegum samskiptum í gluggalausum innanklefa í marga daga
  • Þið fóruð í land á Spáni, Marokkó, Frakklandi og á Ítalíu en eruð litlu nær um dásemdir þeirra borga sem þið heimsóttuð

Niðurstaða ritstjórnar Fararheill er því að ferðin gagnast lítið til að upplifa Brasilíu nema á yfirborðskenndasta máta sem til er. Margir dagar fara í siglingu á hafi úti og ef sambandið er ekki rúllandi gott þá koma upp vandamál í litlu rými. Né heldur er fólk margs vísari af stuttum stoppum í Marokkó og nokkrum löndum Evrópu sem þið hafið líklega séð áður.

Nær lagi er að fyrst fólk lætur sig hafa tólf tíma flug til Brasilíu að dvelja þar í góðu yfirlæti um tíma. Læra, taka inn, njóta og elska. Þetta eru í raun tvær ferðir. Annars vegar til Brasilíu og hins vegar Miðjarðarhafssigling. Tvær slíkar ferðir eru ekki dýrari en milljón krónur.

PS: svo er nú alveg lágmarksþjónusta í ferð sem kostar heila milljón króna með ódýrasta hætti að leiðalýsingin sé eitthvað annað en stolið efni af wikipedia eða túristavefum á netinu. Hefur virkilega enginn hjá Heimsferðum farið á þá staði sem þið sendið farþega ykkar?

Heimasíða Heimsferða hér.