B orgina Wroclaw þekkja efalaust margir sagnfræðingar betur undir nafninu Breslau en þessi ágæta borg var þýsk fram til ársins 1945. Hún er ein af þeim borgum sem áður tilheyrðu Þýskalandi en færðist yfir til Póllands fyrir tilstilli Sovétmanna eftir Seinni heimsstyrjöldina.

Eins og raunin er með flestar borgir og bæi austanmegin Berlínar sem sprengdar voru til grunna í styrjöldinni var það sama upp á teningnum hér í Wroclaw. Hér var nákvæmlega ekkert nema rústir eftir að Þjóðverjar luku sér af á undanhaldi sínu til Berlínar.

En hver sá sem ekki þekkir söguna gæti efast eitt augnablik um að Wroclaw sé jafn gömul miðaldaborg og Vín eða Prag. Hún var strax endurreist með stæl og er í dag ein af mest heillandi borgarperlum Póllands og Evrópu allrar.

Til og frá

Alþjóðaflugvöllur borgarinnar er Port Lotniczny Wroclaw en sá er í tæplega 30 kílómetra fjarlægð frá borginni. Fljótlegast er að taka leigubíl í bæinn en 20 mínútna aksturinn kostar gróflega 3.400 krónur á dagtaxta. Öllu ódýrara er að stíga upp í strætisvagn 406 sem fer til og frá á 20 mínútna fresti í miðborgina. Sá er lengur á ferðinni en farið aðra leiðina fæst á tæpar 900 krónur.

Lestarsamgöngur hingað eru einnig fínar og beinar ferðir frá flestum stærri pólskum borgum og til Berlínar, Prag og Hamborgar svo dæmi séu tekin.

Samgöngur og skottúrar

Enginn þarf að brúka almenningssamgöngur frekar en hann kýs því allt áhugavert hér í bæ er í göngufæri á miðbæjarsvæðinu. Er þó enginn skortur á strætisvögnum eða sporvögnum standi vilji til að skoða úthverfi Wroclaw. Leiðarkerfi hér og hægt að kaupa miða í átómötum á velflestum stoppustöðvum. Almennt miðaverð er 75 krónur en dýrara er í Fljótvagna, express, og næturvagna.

Söfn og sjónarspil

Til umhugsunar: Wroclaw hefur í áranna rás ekki verið ýkja vinsæll ferðamannastaður. Sem afleiðing af því er enska minna töluð hér en í frægari borgum Póllands. Það hjálpar töluvert ætli fólk að þvælast um og prófa að kunna nokkra frasa á pólsku.

> Miðborgartorgið (Rynek) – Sem annars staðar í hinum gömlu borgum Evrópu er miðborgartorgið nafli alheimsins. Svo er einnig hér og torgið klárlega mesta aðdráttarafl borgarinnar. Fyrir utan hið hefðbundna bjórþamb sem hér viðgengst úti og inni á börum og veitingastöðum er arkitektúr húsanna við torgið augnayndi mikið. Ekki skemmir fyrir að torgið er eitt hið stærsta sinnar tegundar í Evrópu og því minna um að fólk rekist hvort í annað á röltinu.

> Ráðhúsið (Ratuzs) – Eitt þeirra húsa sem standa við Rynek og bera af er ráðhús heimamanna sem ekki er í minni kantinum heldur risastórt og er ein örfárra bygginga sem ekki voru eyðilagðar í stríðinu. Ráðhúsið er nú safn og algjörlega ómissandi stopp fyrir ferðafólk í borginni. Gotneskur arkitektúrinn þykir stórkostlegur og ófáir sem missa andann yfir herlegheitunum. Opið virka daga nema mánudaga milli 11 og 17.

> Dómkirkjueyja (Ostrów Tumski) –  Áin Óder rennur gegnum borgina og myndar litla sandeyjuklasa á stöku stöðum. Á einum slíkum reistu borgarbúar mikinn kastala sem síðar var breytt í kirkju. Á átjándu öld breyttist farvegur árinnar þannig að eyjan sameinaðist meginlandinu og er nú hluti af gamla miðbænum. Afar fallegt um að lítast hér.

> Centennial höllin (Hala Stulecia) – Þetta hús komst á Heimsminjaskrá SÞ árið 2006 en fyrir utan stórfenglegan arkitektúrinn eftir hinn fræga þýska Max Berg er þetta eitt fyrsta og besta dæmið um velheppnaða byggingu úr sérstyrktri steypu. Var hún byggð árið til að minnast sigurs heimamanna á herjum Napóleón í styrjöldinni um Leipzig. Glæsileg bygging nálægt dýragarði borgarinnar og fyrst og  fremst notuð sem ráðstefnusalur í dag. Fjölmargir viðburðir fara hér fram og miðasala í anddyri hússins. Opið skoðunar virka daga 10 til 17. Miðaverð misjafnt eftir viðburðum. Heimasíðan.

> Wroclaw gosbrunnurinn (Wrocławska Fontanna) – Í Pergola vatni fyrir framan Centennial höllina er hinn frægi Wroclaw gosbrunnur en sá er tilþrifamikill mjög og mikið sjónarspil þegar ýtt er á alla takkana. Hér er bráðfínt skautasvell á veturna. Heimasíðan.

> Myrkraturninn (Panorama Racławicka) – Einn sérstakasti en jafnframt vinsælasti ferðamannastaðurinn í Wroclaw er þetta hringlaga myrkaherbergi þar sem með sérstakri tækni er brugðið upp risastóru málverki af styrjöldinni um Raclawice árið 1794 milli rússneskra hermanna og pólskra sjálfststæðismanna. Stendur við Purkyniego götu. Opið alla daga nema mánudaga milli 9:30 og 17. Aðgangseyrir 950 krónur. Heimasíðan.

> Dómkirkjan (Archikatedra św. Jana Chrzciciela) – Á Kadedralnagötu er dómkirkja borgarinnar sem byggð var á þrettándu öld og er geysilega falleg. Hér er til húsa stærsta kirkjuorgel í Póllandi og áhrifamikið að taka inn eins og eina messu hér á sunnudögum. Turn kirkjunnar er opinn ferðafólki alla daga nema sunnudaga milli 10 og 16 og þaðan er dágott útsýni yfir hluta borgarinnar.

> Elísabetarkirkjan (Kościół św. Elżbiety) – Önnur mögnuð kirkja í borginni er miðaldakirkja Elísabetar sem reyndar hefur verið endurbyggð að mestu frá því að hún var reist á sínum tíma. Héðan er besta útsýnið yfir borgina án vafa en turn hennar gnæfir 90 metra upp í loftið og er sjáanlegur víðast hvar innan borgarmarkanna. Gallinn sá, að ólíkt dómkirkjunni, er hér engin lyfta og því aðeins í boði að labba upp turninn. Opin alla daga nema sunnudaga frá 9 til 16. Miðaverð í turninn 1.900 krónur.

> Þjóðminjasafnið (Muzeum Narodowe we Wroclawiu) – Þetta þriggja hæða safn er ómissandi fyrir listaáhugafólk enda óvíða meira af pólskri list af ýmsu tagi en hér. Powstancow torgið. Opið daglega nema mánudaga 10 – 16. Punga þarf út heilum 700 krónum fyrir herlegheitin. Heimasíðan.

> Szczytnicki garðurinn (Park Szczytnicki) – Besti garður borgarinnar er þessi hér og vinsæll sem slíkur til gönguferða. Hann þekur nokkra kílómetra en hluti hans er japanskur lystigarður sem hannaður var fyrir Heimssýninguna sem hér fór fram árið 1913.

> Austurgarður (Park Wschodni) – Annar fallegur borgargarður er þessi hér við bakka Olawa árinnar. Afar fallegur en var í niðurníðslu áratugum saman og aðeins nýlega sem endurreisnarstarf hófst.

Verslun og viðskipti

Pólland er ágætt til verslunar almennt og Wroclaw engin undantekning. Verðlag lægra en gengur og gerist í frægari borgum og lægra en til að mynda í Varsjá.

Að því sögðu er úrvalið takmarkaðra þó hér megi að sjálfsögðu finna flestar hefðbundnar keðjuverslanir sem finnast alls staðar.

Ólíkt því sem gerist annars staðar má eiginlega segja að fjöldi ágætra verslana sé að finna í gömlu borginni og þannig hægt að dúlla sér í verslunum milli þess sem dáðst er að arkitektúr og götulífi. Stærri verslanir og verslunarmiðstöðvar eru þó utan þess svæðis.

Þrjár helstu stórverslanirnar eru Galeria Dominikanskavið samnefnda götu í 5 mínútna fjarlægð frá Rynek torgi. Við Swidnicka götu eru tvær til viðbótar; Dom Towarowy Wertheim og Arkady Wroclawskie. Enn stærri verslanakjarna er að finna í úthverfum borgarinnar.

Matur og mjöður

Pólverjar fara seint í sérstakar bækur fyrir matargerðarlist en Wroclaw er nokkur heimsborg og fjöldi veitingastaða hér sem bjóða annað og meira en pólskar kræsingar. Nokkra sérlega áhugaverða að mati ritstjóra vefrits um borgina má finna hér.

Töluvert er um klúbba og bari víðs vegar en marga má finna í eða við gömlu borgina þar sem jafnframt er stutt á velflest hótel. Eðli málsins samkvæmt er dýrara að kaupa mat og vín á miðborgartorginu en annars staðar og því ráð að tölta aðeins út fyrir til að finna knæpur sem heimamenn brúka.

Sérstaklega er einn staður þess virði að kíkja inn. Það er Swidnicka Cellar við samnefnda götu en þar á bæ vilja menn meina að sá staður sé elsti veitingastaður Evrópu allrar. Það er umdeilt en mikill sjarmi yfir staðnum.

Líf og limir

Borgin er 99 prósent örugg en nokkuð er um vasaþjófa á aðaltorginu Rynek. Þá skal hafa skilningarvitin í lagi eftir að skyggja tekur og sérstaklega í og við lestarstöðina.

View Áhugaverðir staðir í borginni Wroclaw í Póllandi in a larger map