C inn er sá staður sem Frónbúar vita lítt af en nýtur vaxandi vinsælda og það er strandbærinn Calella á Maresme strönd sem er hluti af Costa Brava strandlengjunni. Bær þessi missti alfarið af ferðamannabylgjunni til Spánar á áttunda áratugnum og þótt vart þess virði að vera á landakorti um tíma.

Nú er svo komið að þess vegna nýtur hann mikilla vinsælda enda ekki gegnsýrður, ennþá, af því er gerir marga ferðamenn afhuga ferðamannastöðum. Hér voru til ársins 2001 engar hótelkeðjur heldur aðeins lítil gistihús en það hefur breyst mikið.

Það sem hefur ekki breyst er að stór og glæsileg ströndin er enn tær og fín og sökum stærðar er hending ef þar er jafn mikil örtröð og sjá má daglega á vinsælli ferðamannastöðum bæði norðar og sunnar við Costa Brava strandlengjuna.

Reyndar hafa þýskar ferðaskrifstofur einhverra hluta vegna náð að gera Calella dálítið að sínum stað og senda þangað töluverðan fjölda ungs fólks sem auðvitað gera kröfur um bari og diskótek. Það er mínus eða plús eftir því hvernig fólk lítur á það en Þjóðverjar eru þó ívið skemmtilegri en til að mynda Bretar.

Calella er 50 kílómetra norður af Barcelona og er ekki sami bær og Calella de Palafrugalls sem ekki er langt frá.

Þó bærinn geri nú grimmt út á ferðamenn er reynt að halda í hefðirnar hér og yfir sumarmánuðina má undantekningarlítið sjá hópa heimamanna dansa Sardana dansinn sem er þjóðardans Katalóna. Undir dansinum spila innfæddir músikantar, coblas, á tilheyrandi flautur og hljóðfæri önnur. Svo stoltir eru íbúar hér af arfleifð sinni að sérstök Sardana hátíð fer hér fram í byrjun júní og ekki er síðri tónlistarhátíðin La Minerva í byrjun september ár hvert.

View Larger Map