Skip to main content

H eimamenn sumir í borginni Vejle á Jótlandi halda því fram að bærinn sé það sem næst verður komist að tala um nafla Danmerkur. Með því eiga þeir við að skoði fólk Danmörku á korti og setji engin smáatriði fyrir sig sé Vejle miðja landsins.

Að því gefnu að menn beiti ekki ályktunarhæfni sinni er hægt að taka undir þetta en þó aðeins til að gleðja þá sem þetta vilja meina. Því líti menn á kort gagnrýnum augum eru Árósar miklu líklegri sem miðja landsins en Vejle. Og fyrir utan staðsetningu er ekki margt sem borgin hefur fram að færa ferðamönnum.

Vejle er á engan hátt leiðinlegur eða ljót. Þvert á móti er bæjarstæðið tiltölulega fallegt þar sem hann stendur innst í mynni Vejle fjarðar sem er einn fárra í landinu sem talist getur raunverulegu fjörður. En hér er heldur ekki gnótt skemmtilegra hluta að gera fyrir ferðafólk.

Þarna búa um 52 þúsund manns og þar reyna dönsk yfirvöld að skapa hátæknimiðstöð landsins til að koma í staðinn fyrir mikla textílframleiðslu sem Vejle var þekkt fyrir um áraraðir áður fyrr. Sá iðnaður er þó að mestu dauður í dag og hafa íbúar þurft að glíma við meira almennt atvinnuleysi þar en víða annars staðar.

Til umhugsunar: Það er hér í Vejle sem áhugasamir finna eina allra bestu veiðiá Danmerkur. Ekkert á pari við íslenskar ár en Vejle áin er góð til brúksins.

Til og frá

Íslenskur ferðalangur þarf að lenda í Billund eða Kaupmannahöfn og taka lest eða rútu til að komast til Vejle. Borgin er innan við klukkutíma í akstri frá Billund sem er betri og fljótlegri kosturinn og frá Billund flugvelli fara rútur reglulega á milli. Sömuleiðis komast menn vítt og breitt með lestum til og frá Vejle.

Söfn og sjónarspil

>> Kúnstlistasafnið (Vejle Kunstmuseum) – Annað af tveimur listasöfnum borgarinnar er þetta hér við Flegborg götu númer 16 rétt við Byparken. Ágætt safn yfir 15 þúsund muna bæði frá héraðinu, Jótlandi og reyndar töluvert muna annars staðar að. Hér má til að mynda sjá nokkur verk eftir meistara Rembrandt. Opið 11 – 19 alla daga nema mánudaga. Miðaverð fyrir fullorðinn er 1.400 krónur. Heimasíðan.

>> Náttúrumiðstöðin (Økolariet) – Hér er reynt að bregða ljósi á náttúru heimsins og það með tækjum og tólum svo gestir geti betur áttað sig á hvernig hlutirnir og heimurinn virkar. Ágætt stopp ef dvalist er einhvern tíma í borginni en enginn missir svefn þó hann gleymi því. Opið 11 – 16 alla daga nema föstudaga. Miðstöðin stendur við Dæmningen 11. Aðgangur er frír. Heimasíðan.

>> Stjörnuskoðunarmiðstöðin (Sirius Observatoriet) – Kannski eitt það forvitnilegasta í bænum er þessi litla stjörnuskoðunarmiðstöð við Torvegade. Þar er tveggja metra langur stjörnukíkir sem nota má að vild til að skoða stjörnur himingeimsins og sömuleiðis fræðast um stjörnufræðin. Auðvitað er miðstöðin aðeins opin frá 20 til 22 þegar dimmt er orðið en aðgangur er frír.

>> Borgarskjalasafnið (Vejle Stadsarkiv) – Líklega er fokið í flest skjól þegar borgarskjalasöfn fara í bækur fyrir áhugaverða staði enda ólíklegir áfangastaðir annarra en grúskara og fræðimanna. Engu að síður vilja ferðamálayfirvöld borgarinnar meina að safnið sé heillandi. Það stendur við Enghavevej og er opið 10 til 17 virka daga. Heimasíðan.

>> Vindmylla Vejle (Vejle Vindmølle) – Í suðurenda borgarinnar við Søndermarksvej stendur afar falleg og vel við haldin vindmylla sem reist var 1890 í núverandi mynd. Héðan fæst líka fínt útsýni yfir borgina og til sjávar.

>> Borgarsafnið (Vejle Museum) – Þetta safn við Spinderigade segir allt sem segja þarf um Vejle,  tilurð hennar, fræga íbúa og þetta hefðbundna. Auk þess eru hér sýningar á ýmsum munum frá fornaldarbænum Jelling sem frægt er í Danmörku og víðar. Heimasíðan.

>> Munkebjerg spilavítið (Munkebjerg Casino) – Skammt utan borgarinnar við Munkebjerg skóg stendur Munkebjerg hótelið sem í dag er þekktara sem eitt vinsælasta spilavíti Danmerkur. Þegar hótelið opnaði fyrst árið 1933 státaði það af lengstu trélyftu sem þá fannst í veröldinni en hún flutti fólk frá ströndinni upp Munkebjerg að spilavítinu. Heimasíðan.

>> Nikulásarkirkja (Sct. Nicolai Kirke) -Falleg kirkja frá þrettándu öld sem er sérstaklega þekkt fyrir tvennt; annars vegar þrettán undarlega spírala á norðurendanum sem taldir eru vera eftirgerð hauskúpa ræningja sem líflátnir voru hér á fimmtándu öld. Inni í kirkjunni gefur svo að líta Haraldskær konuna sem er lík konu sem drukknaði í mýri einhvern tíma á járnöld og hvers lík hefur varðveist ótrúlega vel.

>> Bylgjan (Bølgen) – Við Tirsbæk strandvej standa þrjár nýjar byggingar sem hafa vakið töluverða athygli og þykja afar skemmtileg smíð. Eru það íbúðarhús í laginu eins og hafbylgja en hönnunin hefur vakið heimsathygli en hún á að taka mið af Óperuhúsinu í Sidney. Ekkert ómissandi en forvitnileg stopp og byggingarnar vissulega  flottar.

Verslun og viðskipti

Þó kannski undarlegt megi virðast er úrval verslana hér í borg fremur gott á danskan mælikvarða. Miðbærinn hefur yfir sér alvöru verslunarsjarma og bæði finnast hér vinsælar keðjuverslanir sem og litlar einstakar búðir sem aðeins finnast hér. Danir sjálfir hafa oftar en einu sinni valið Vejle sem huggulegustu verslunarborg landsins.

Hér er ein einasta göngugata í miðborginni og hún er mekka verslana í Vejle. Nær hún yfir Søndergade, Torvegade, Nørregade og Vestergade og þar og í velflestum nálægum hliðargötum eru verslanir á verslanir ofan. Fjölbreytt úrvalið skemmir ekki fyrir og vitaskuld eru hér barir, kaffihús og veitingastaðir í bland.

Til að komast í stærri verslanir þarf að gera sér leið í norðurhluta Vejle og það helst á bíl. Í Vejle Nord finnast kynstrin öll af risabúðum á borð við Ikea, Bilka og slíkar stórverslanir.

View Áhugaverðir staðir í Vejle í Danmörku in a larger map