Skip to main content
golfTíðindi

Úttekt: Golfferðir Úrval Útsýn haustið 2011

  01/09/2011febrúar 3rd, 2021No Comments

Ferðaskrifstofan Úrval Útsýn hóf nýlega að auglýsa haust- og vetrartilboð sín þetta árið en sem fyrr leggja ferðaskrifstofurnar mikla áherslu á haustin því það er ásamt vorunum helsti ferðatími landsmanna.

Ritstjórn Fararheill hefur ekki farið í grafgötur með að ýmis tilboð íslenskra ferðaskrifstofa hafa verið töluvert mikið minna en góð gegnum tíðina og því þjóðráð að gera úttekt á þeim ferðamöguleikum sem Íslendingum bjóðast í haust og vetur.

Úttektin felur í sér að ritstjórn kannar hvort finna megi vænlegri tilboð en ÚÚ býður á sömu stöðum vopnuð engu nema fartölvum og nettengingu. Oft á tíðum er þetta þó aðeins hægt að vissu marki en gefur þó vonandi lesendum hugmynd um hvort viðkomandi tilboð er sannarlega gott eða ekki. Hafa skal þó í huga að bæði verð á flugi og gistingu taka nokkuð örum breytingum.

Við byrjum á að skoða fjórar af fimm golfferðum Úrval Útsýn til Spánar en ferðaskrifstofan býður einnig golfferðir til Tælands og Bandaríkjanna þetta árið.

OASIS PLANTIO

  • Oasis Plantio kallar Úrval Útsýn golfhótelið Be Live Plantio sem er á stórkostlegum stað ef fólk er algjörlega að deyja eftir golfi því völlurinn er því sem næst í göngufæri frá flugvellinum í Alicante en tíu mínútur frá borginni sjálfri. Hótelið sjálft sem er íbúðahótel er í 28. sæti af 47 alls í Alicante á Tripadvisor.
      • Verðin er æði mismunandi eftir tímasetningum en ÚÚ býður tveggja manna herbergi frá 29. september til 6. október á miðað við tvo saman á 199.900 krónur á mann. Er um „allt innifalið“ pakka að ræða. Einnig er ótakmarkað golf með golfkerru alla dagana og vitaskuld er íslensk fararstjórn og akstur til og frá flugvelli. Fyrir þetta greiðir par samanlagt  399.800krónur.
          • Fararheill.is finnur flug þessa daga með Iceland Express á 80.931 krónu á mann. Gisting finnst ódýrust hjá Hotels4U á 68.752 krónur þessa daga en ekkert er þar innifalið. Samtals kostnaður á parið fyrir slíka ferð yrði því 230.618krónur.
              • Spurningin er því þegar upp er staðið hvort ótakmarkað golf, sem oftar en ekki er aðeins einn hringur á dag, auk matar og drykkja í sjö daga sé 168.976 króna virði. Fararheill.is telur það vera frekar á nippinu.

HUSA ALICANTE

  • Annar golfvöllur sem ÚÚ býður í haust er hinn vinsæli Alicante Golf sem er staðsettur í útjaðri Alicante til norðurs og töluvert frá miðbænum. Þar verður gist á Husa Alicante hótelinu sem er í götufjarlægð frá golfvellinum og í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá flugvellinum. Hótelið er í 31. sætinu af 47 hótelum alls í Alicante samkvæmt Tripadvisor.
      • Aftur eru verð mismunandi en í boði eru sjö, níu og tólf daga ferðir. Við grípum niður í sjö daga ferðina 22. til 29. október en þar er í boði morgun- og kvöldverður og golfbíll samkvæmt vef ÚÚ en hvergi er minnst á hversu margir golfhringir eru innifaldir. Við gefum okkur að það sé einn hringur á dag eða sex alls því ekki er spilað komudaginn. Þá er kostnaður samanlagt fyrir hjón eða par 369.800krónur.
          • Fararheill finnur flug með Iceland Express umrædda daga á 85.931 krónu á mann. Tveggja manna herbergi á Husa Alicante hótelinu finnst án alls á hótelvef DHR fyrir 77.819 krónur. Heildarkostnaður við flug og gistingu er þá kominn í 124.840 krónur á mann eða 249.680 krónur alls. Þá finnst á vef Alicante Golf vallargjald fyrir tvo með golfbíl á 80 evrur á dag. Sex hringir fyrir hjónin gera því 80.815 krónur. Heildarprísinn með flugi, gistingu og golfi er þá kominn í 330.495krónur.
              • Miðað við þetta er því tilboð ÚÚ örlítið betra því enn vantar morgun- og kvöldverð, íslenska fararstjórn og akstur til og frá flugvellinum. Munurinn er engu að síður æði lítill miðað við þá afslætti sem ferðaskrifstofan fær á fluginu og hótelinu.

RODA GOLF RESORT

  • Töluvert suður frá Alicante nálægt strandbænum San Javier stendur Roda Golf & Beach Resort sem er þriðji staðurinn sem ÚÚ býður í haust á Spáni. Rúmlega klukkustund tekur að aka frá Alicante flugvelli og allt hér mun rólegra og afslappaðra enda næstu borgir, Cartagena og Murcía, í töluverðri fjarlægð og spottakorn í næsta smábæ líka. Hér er þó fólk strangt til tekið fast á staðnum nema leigja sér bílaleigubíl. Roda er besta hótelið á staðnum samkvæmt Tripadvisoren það er næsta ómarktækt því aðeins eru hér tvö hótel.
      • Aðeins er ein ferð í boði frá 20. til 27. október en innifalið er akstur til og frá Alicante, ótakmarkað golf og 100 æfingaboltar daglega auk morgun- og kvöldverðar að ógleymdri íslenskri fararstjórn. Fyrir herlegheitin er pari gert að greiða 359.800krónur.
          • Fararheill finnur flugið þennan tíma hjá Iceland Express sem fyrr því sömu eigendur eru jú að báðum fyrirtækjum. Kostar það ódýrast 80.931 krónu á mann. Á hótelinu eru í boði bæði íbúðir og hefðbundin herbergi. Á vef Otel finnst íbúð með tveimur herbergjum sem kemur sér vel ef óvænt kastast í kekki við betri helminginn en ekkert er þar innifalið. Kostar það 85.193 krónur. Þá pöntum við sjö hringi á golfvellinum við hótelið og gerum betur en ÚÚ því tilboð er á vallargjöldum með golfbíll á vefnum. Sjö hringir á golfbíl kosta parið 105.996 krónur.  Nú vandast aðeins málið því komast þarf á milli staða. Nokkrar leiðir eru færar. Rúta er ódýr en því nennir enginn eftir flugið. Bílaleigubíll er fín hugmynd en honum þarf jú að skila og þá bætist við vikuleiga þar. Þægilegasti mátinn er líklega að leigja flugvallaskutlu. Ekki er fráleitt að ætla að hægt sé að fá skutl fram og til baka á kringum 20 þúsund krónur með prútti. Verðmiðinn er því samtals kominn í 373.510krónur.
              • Úrval Útsýn býður því betur hér en hægt er að verða sér úti um á eigin spýtur því enn vantar morgun- og kvöldverðinn og íslenska fararstjórann. Þetta tilboð er ásættanlegt að mati Fararheill.

LA ENVIA

  • Öllu sunnar á Spáni en fyrrnefndir þrír staðir má finna fjórða golfáfangastað ÚÚ þetta haustið. La Envia heitir sá og er dálítið illa staðsettur miðja vegu milli borgarinnar Almería og bæjarins Roquetas del Mar í Andalúsíu. Er alveg drjúgan spöl að fara til að finna eitthvað líf eða heimsækja veitingastaði og bari. Er um fimm stjörnu hótel að ræða en það nær þó aðeins 11. sæti af 47 alls í Almería samkvæmt Tripadvisor.
      • Þrjár ferðir eru í boði þetta haustið og allar misjafnlega langar. Við skoðum tíu daga ferðina 14. til 24. september en þar er innifalið flug, gisting, hálft fæði og einn golfhringur daglega með golfbíl. Þá fylgir og íslenskur fararstjóri. Er þetta í boði fyrir 199.900 krónur á mann miðað við tvo saman. Samanlagt kostar slík ferð par því 399.800krónur.
          • Nú vandast aðeins málið því hvergi kemur fram á vef ÚÚ hvort flogið er beint til Almería eða Alicante. Líklega er það Alicante því ekki eru nein bein flug til Almería á þessum tíma hjá Iceland Express. Það þýðir þá tæpar sex klukkustundir í bílferð til og frá La Envia. Miðað við tímasetningar finnast þó engin flug til Alicante á umræddum tíma en við látum það liggja milli hluta og gefum okkur meðalverðið. Þannig kemst hvort um sig til Alicante fyrir 80.931 krónu. Tveggja manna herbergi með hálfu fæði fæst gegnum Hotels.com á 255.814 krónur. Flug, gisting og matur kostar parið með þessum hætti 417.676krónur.
              • Hér hefur Úrval Útsýn klárlega vinninginn því enn vantar golfið, golfbílinn, fararstjórann og ferðir til og frá flugvelli inn í síðari töluna. Þarna er farið að muna talsverðum fjárhæðum og telst tilboðið því gott að mati Fararheill.