Útivist er móðins hjá mörgum og þá ekki hvað síst góðar göngu- eða fjallaferðir. Þá er óvíða betra að vera en á Íslandi nema einhverjir setji köflótt veðurfarið fyrir sig. Þá ráð að drífa sig til Tenerife.

Alltaf skemmtilegra að vera í félagsskap en ekki. Skjáskot

Alltaf skemmtilegra að vera í félagsskap en ekki. Skjáskot

Gönguferðir í fjallóttu og síbreytilegu landslagi Tenerife hafa aldrei verið jafn vinsælar og nú. Svo mjög reyndar að ferðamálayfirvöld á eynni gera nú sérstaklega út á þann hóp ferðafólks sem vill fá blóðið til að renna svona í bland við bjór og slak á ströndinni.

Óhætt er að segja að það hafi tekist vonum framar. Samkvæmt upplýsingum frá þarlendu ferðamálaráði heimsóttu 800 þúsund manns eyjuna árið 2018 í þeim tilgangi helstum að labba um fjöll og firnindi. Það er skratti stórt hlutfall þeirra rúmlega fimm milljóna sem heimsækja eyjuna árlega. Sérstaklega þegar haft er í huga að það er ekki auðvelt að reyna mikið á sig í þeim hita sem þar ríkir.

Nú hefur verið ákveðið að halda áfram með hátíð eina sem tileinkuð er göngufólki og þótti takast framar vonum þegar hún var fyrst haldin árið 2016. Tenerife Walking Festival er fjögurra daga gönguhátíð þar sem áhugasömum gefst tækifæri til að ganga með heimafólki einar fimmtán mismunandi leiðir um eynna næsta vor. Þátttakendur njóta sérkjara á ákveðinni gistingu og öðru nauðsynlegu og njóta félagsskapar göngugarpa hvaðanæva að úr heiminum seinni hluta maímánaðar.

Flott prógramm sem hentar öllum þeim er elska áreynslu undir heitri sólinni. Meðfylgjandi myndband frá hátíðinni sem gæti komið neista í kroppinn.