Eins og Fararheill hefur áður fjallað um er næsta vonlaust að finna ferð til Mallorca í sumar með öllu inniföldu í tvær vikur undir sex hundruð þúsund krónum á hjón eða par. Það er að segja með innlendri ferðaskrifstofu.

Ferð easyJet í tvær vikur á fjögurra stjörnu hóteli með öllu á Mallorca. Skjáskot

Ferð easyJet í tvær vikur á fjögurra stjörnu hóteli með öllu á Mallorca. Skjáskot

Úrval Útsýn býður til dæmis ágætt fjögurra stjörnu hótel í Santa Ponsa í tvær vikur í júlí með öllu inniföldu niður í 300 þúsund á manninn miðað við tvo eða fleiri saman. Það er í beinu flugi og taska fylgir með.

Fyrir hina sem kjósa fremur lægra verð en þægindin af beinu flugi er hægt að gera nokkuð betur á eigin spýtur. Við fundum til dæmis tvær vikur á fjögurra stjörnu hóteli í Sa Coma með öllu inniföldu, flug til Bretlands og heim og flug frá Bretlandi til Mallorca og aftur til baka niður í 170 þúsund á mann með tösku meðferðis. Samtals kostnaður við vikurnar tvær kringum 330 þúsund á parið.

Það, eins og glöggir stærðfræðingar þarna úti sjá strax í hendi sér, er næstum því helmingi lægra verð en það lægsta sem Úrval Útsýn býður okkur á sambærilegum pakka. Og hvern munar ekki um tæpan 300 þúsund kall?

Það er raunar einfalt að vera sér úti um ódýra pakkann. Við leituðum einfaldlega á vef easyJet að topphótelinu með öllu á Mallorca í tvær vikur um miðjan júlí en þangað flýgur easyJet daglega frá London. Í ljós kom að það er í boði fyrir rúmar 125 þúsund krónur fyrir flugið og gistinguna en án farangurs.

Bættum svo við flugi frá Íslandi og heim aftur þegar ferð er lokið. Þar býður nú Wow Air fram og aftur pakkann niður í 33 þúsund krónur á mann og easyJet er á svipuðum slóðum en reyndar degi seinna. Sem kallar á eina hótelnótt í London. Hendum inn einni tösku á mann og Wow Air kemur pari fram og aftur fyrir um 80 þúsund alls.

Voilà! Tveggja vikna Mallorca pakkinn er okkar fyrir 330 þúsund eða svo plús þá millilending og einhver biðtími. Auðvitað pínu vesen en sparnaðurinn er drjúgur og sé litið á björtu hliðina er heimferð í byrjun ágúst þegar útsölurnar í Bretlandi eru í fullum gangi. Óvitlaust að eyða því sem sparast beint í að fata upp familíuna, taka inn leikhús og eða njóta hömlulaust ásta eina til tvær nætur í bresku höfuðborginni.

Það köllum við skrambi góða ferð.

Kíktu á sumarleyfisferðir easyjet hér.