G óðu eða illu heilli eru fjölmargir smærri bæir tiltölulega vel faldir á Costa Brava strandlengjunni í Katalóníu. Sem að hluta til er orsök þess hve langan tíma hefur tekið að koma þessu svæði á kort ferðamanna ólíkt því sem gerðist á suðlægari slóðum á Spáni.

Hér eru sallafínar sandstrendur líka en í bland við kletta og hæðir sem lítið finnast annars staðar. Hvað Fararheill varðar er það plús fremur en mínus að hafa smá landslag í kring þegar verið er að sóla sig á fallegri sandströnd. Og það er líka raunin í smábænum Tossa de Mar sem er óvenju vel í katalónska sveit settur og almennt fjölskylduvænni en stærri staðir í kring.

Bærinn sjálfur fer ekki í neinar bækur sem sérstakur þó hann sé sýnu yndislegri en fjölmargir aðrir en það sem gefur þessum strandstað betra vægi en marga aðra er að hann er mikið til lokaður af. Hér eru fólk pínulítið út úr og sú upplifun setur punkt yfir i-ið þó vissulega sé hér of mikill fjöldi ferðamanna yfir háannatímann.

Þá er ekki leiðinlegt heldur að hér eru margar götur mjög þröngar sem mörgum finnst spennandi. Það reyndar getur skemmt fyrir að sum hótelin eru í svo þröngum götum að rútur komast ekki að og það er miður líka að í þröngum götum magnast hávaði töluvert og hér eru allmargir á leiðinlegum skellinöðrum daginn út og inn. Á móti kemur að hér eru alls engir næturklúbbar til að halda vöku fyrir fólki frameftir nóttum.

Ekki klikka á að ganga aðeins um og útfyrir flóann sjálfan því meðfram ströndinni í báðar áttir eru alveg fyrirtaks smærri víkur og skorur þar sem fólk getur næstum fengið næði í þokkabót. Það er nokkuð sem er alfarið ómögulegt sunnar á ströndum landsins.

Fyrir hina sem vilja aðeins brjótast út úr sólböðum og smábæjarstemmningunni er kannski fróðlegt að Tossa de Mar er nánast akkurat miðja vegu milli Barcelóna og frönsku landamæranna. Fínn staður til ökuferða.

Til og frá

Einfaldasta leiðin til Tossa de Mar er frá Girona flugvelli sem er hér í 30 mínútna fjarlægð eða svo. Það er fyrst og fremst sá völlur og vinsældir hans meðal lággjaldaflugfélaga sem hafa ollið straumhvörfum í ferðamennsku á þessum slóðum því þó Costa Brava hafi lengi vel verið sæmilega vinsæll sumardvalarstaður varð engin sprenging hér fyrr en fyrir fimm til tíu árum síðan þegar Ryanair, easyJet og önnur slík hófu reglulegt áætlunarflug til Girona.

Frá Girona er vænlegast að taka skutlu ef margir eru saman en flugskutlur hér bjóða ferðina frá 1.700 krónum á mann aðra leiðina ef fjórir eða fleiri eru saman. Annar möguleiki er rúta sem fer tvívegis yfir daginn milli flugvallarins og Tossa de Mar. Þar er aðeins óþægilegri ferðamáti en á móti kemur að fólk greiðir aðeins 1.000 krónur. Fyrir utan bílaleigubíl er þá eina leiðin með leigubíl en fargjald aðra leið fer langleiðina í 10.000 krónur.

Öllu flóknara er að komast hingað frá El Prat flugvellinum í Barcelóna en sá rúntur er vel rúmur klukkutími aðra leið. Vænlegast er að koma sér til Estacio du Nord umferðarmiðstöðina í Barcelóna með leigubíl frá vellinum og þaðan kaupa fargjald til bæjarins Blanes. Rútufyrirtækið Segales býður það fyrir 1.200 krónur aðra leið. Eitt annað rútufyrirtæki, Sarfa, auglýsir beinar rútuferðir en tilraunir til að bóka gegnum netið reyndist árangurslausar. Frá Blanes yrði fólk að taka leigubíl til Tossa de Mar. Einnig er mögulegt að taka lest til Blanes en eftir sem áður er þá enn spottakorn eftir og leigubíll yfirleitt eina ráðið. Strætisvagn fer á milli en ferðir eru ekki mjög tíðar og sá vel troðinn á annatímum.

Söfn og sjónarspil

>> Gamli bærinn (Vila Vella)  –  Enginn sem hér eyðir tíma kemst hjá því að finna elsta borgarhlutann sem er fallegur og tiltölulega heillegur en sá hluti bæjarins er frá tólftu öld. Hér er heillegasta miðalda borgarvirki í allri Katalóníu og virkisveggirnir og fjórir turnarnir tilþrifamiklir þar sem þeir sitja á tanganum við Tossa de Mar. Hægt er að labba um en ekki fara inn.

>> Bæjarsafnið (Museo Municipal de Tossa)  –  Alla jafna eru smábæjarsöfn lítt að heilla enda sól og sandur í fyrsta og öðru sætinu hjá flestum. En ef tími er aflögu og fólk áhuga á sögunni er þetta safn barasta ágætt. Hér í kring voru Rómverjar töluvert að þvælast áður fyrr á öldum og ekki langt frá hafa fundist mannvistarleifar lengst aftur í fornöld. Öllu þessu eru gerð ágæt skil hér í þessari mjög svo gotnesku byggingu. Placa Roig y Soler.

>> Máraturninn (Can Magí)  –  Enn ofar í hlíðum bæjarins en virkisveggirnir má finna turn einn sem Spánarkonungur lét byggja til varnar gegn Márum sem hér reyndu strandhögg á miðöldum. Flott útsýni héðan en aðeins hægt að skoða turninn að utan.

>> Bóndabærinn (Can Ganga)  –  Ekki bóndabær eins og flestir þekkja enda inni í miðjum bæ í dag. Þessi bygging var þó bændabýli áður fyrr og afar rammgirt sökum árása sjóræningja. Húsið var jafnframt eitt hið fyrsta sem var byggt utan borgarvirkisins. Calle Codolar.

>> Spítali heilags Mikjáls (Hospital de Sant Miguel)  –  Þessi gamli spítali við Avenida de Peligrí er í dag menningarhús. Kannski lítt merkilegt nema fyrir þær sakir að einn allra fyrsti Spánverjinn sem gerði víðreist um Ameríku og kom heim með fulla vasa fjár byggði þennan spítala fyrir fátæklinga.

>> Safnaðarkirkjan (Esglesia de Sant Vicenç)  –  Helsta kirkja Tosse de Mar er þessi sem stendur við samnefnt torg, Plaça d´Església. Ekki ýkja merkileg en óhætt að reka inn nefið á röltinu.

>> Sans húsið (Casa Sans)  –  Líklega fallegasta byggingin í bænum er þessi sem vekur athygli flestra fyrir skemmtilegan arkitektúr. Það er hægt að skoða að innan sem utan. Plaça d´Espanya.

>> Vitinn (Faro de Tossa)  –  Örskammt frá Vila Vella stendur þessi tignarlegi viti og lýsir sjófarendum enn þann dag í dag þó byggður hafi verið árið  1917. Hér er safn eitt lítið tileinkað vitum og hvaða hlutverki þeir gengdu þá og nú. Vart þarf að taka fram að héðan er fín útsýn. Passeig de Vila Vella.

Sól og sandur

Spánverjum finnst fátt meira gaman en gefa ströndum nöfn og gildir þá einu hvort um er að ræða alvöru strandlengju eða örfá sandkorn í þröngri vík. Allar fá þær nöfn og meðfram Tossa til beggja átta má finna hvorki fleiri né færri en fjórtán sandstrendur.

Aðalströndin í bænum sjálfum er stærst, Gran Platja, en vinsælar eru líka Mar Menuda og Cala Bona til norðurs. Þetta eru ekki lungnamjúkar strendur en allgóðar til brúksins. Frá Gran Platja má á sumrin stökkva um borð í tvo túristabáta. Annar með glerbotni til að skoða nærliggjandi botn Miðjarðarhafsins og prófa veiðar og annar býður upp á stuttar köfunarferðir. Þá er hér einn áætlunarbátur sem fer milli strandbæjanna á Costa Brava og á sumrin líka alla leið til Barcelóna.

Frá ströndinni eru líka á ferð tveir hægfara túristavagnar á ferðinni yfir sumartímann. Annar ekur rólega um helstu staði meðan hinn býður ferðir upp bæinn og niður. Fínt ef fólk á erfitt með gang eða er með farangur en annars kjánalegt í svo smáum bæ.

Verslun og viðskipti

Töluvert er hér af smærri verslunum og flestar miða verðlag við túristana og því dýrari en eðlilegt er. Mest eru þetta minjagripaverslanir með drasl og glingur og fara þarf annað til að komast í alvöru úrval.

Líf og limir

Tossa de Mar er einn af öruggustu strandstöðum í Katalóníu og ef frá eru taldir vasaþjófar sem kannski gætu gert hér usla er ekkert að óttast.