
Við hér engir sérfræðingar í samfélagsmiðlum en vitum þó sem er að það er oftast langbesta leiðin til að hafa samband við fyrirtæki ef eitthvað bjátar á eða þörf er á þjónustu með litlum fyrirvara. Hið ríkisstyrkta Icelandair, með milljarða króna af ríkisfé í handraðanum, virðist að mestu hundsa allar kvartanir á þessum sömu samfélagsmiðlum.
Skoðum nokkur dæmi hér til hliðar. Flugfélagið hefur tjáð sig á fésbókinni sirka einu sinni á dag síðustu vikurnar en það er algengara að jólasveinninn heimsæki byggðir en að flugfélagið tjái sig á Tístinu.
Þegar einhver tjáning á sér stað er um montstatus að ræða. Sem er alveg á pari við það sem Jesú Kristur kenndi okkur; alltaf að monta sig af öllu og helst ýkja líka.
En þurfi viðskiptavinir að fá aðstoð eða lausn sinna mála á sömu miðlum mætir þeim þögnin ein. Icelandair virðist ekki tíma að punga út fyrir einum starfsmanni sem aðstoðar á samfélagsmiðlum. Svona sæmilega á pari við bónda sem nennir ekki að gefa litlu lömbunum í fjárhúsinu.
En auðvitað þarf einhvern veginn að greiða stjóranum og stjórnarformanninum fjórar til fimm milljónir á mánuði. Sorrí Stína en þá er enginn hellingur eftir til að koma til móts við fólkið sem borgar þeim launin. Hvað þá að ráða einhvern hjálpsaman einstakling fyrir 300 þúsund á mánuði.
Icelandair hættir seint að rokka 😉