E kki allir vita að í skemmtigarðinum Djurs Sommerland nálægt Nimtofte á Jótlandi er nú að finna stærsta vatnsrússíbana Evrópu og fær sá toppeinkunnir þeirra sem þykja slíkar ferðir toppurinn.
Rússíbaninn sem kallast Skattaeyjan, Skatteøen, var settur upp 2013 og fór aðsókn töluvert fram úr væntingum en þetta er annar rússíbaninn í þessum garði sem er þriðji stærsti skemmtigarður Danmerkur.
Ritstjórn hefur sótt garðinn tvívegis heim og getur mælt með fjölskylduferð hingað jafnvel þó nettur keimur af fjöldatúrisma og sölumennsku ríði hér vötnum. Djurs má þó eiga að hér er ekki jafn troðið af fólki og til að mynda í Lególandi sem hefur oft í för með sér töluverða bið eftir að komast í tæki og tól sem í boði eru. Og allir vita að þolinmæði smáfólksins er oft takmörkuð. Þá er líka allmikið meira af hótelum, gistihúsum og íbúðum og villum til leigu í Djursland en í Billund og nágrenni við Lególandið.
Djurs Sommerland er reyndar ekki ýkja miðsvæðis í neinu tilliti. Næstu stóru þéttbýlisstaðir eru Grenå, Ebeltoft, Randers og Árósar en frá þeim síðastnefnda er hingað um 40 mínútna akstur.
Garðurinn er aðeins opinn yfir sumartímann milli maí og fram í október ár hvert. Dagspassinn kostar manninn um 4.800 krónur og með slíkum passa er frítt í öll tæki í garðinum. Heimasíðan hér.