Skip to main content
golfTíðindi

Svo þig langar á Ryder bikarmótið í golfi…

  01/10/2012febrúar 3rd, 2021No Comments

Ætli raunin sé ekki sú að velflestir áhugakylfingar heims hafi áhuga að vera eins og einu sinni á lífsleiðinni á staðnum þegar helsta keppni heims í golfinu, Ryder bikarkeppnin, fer fram. Ekki síst nú síðustu árin þegar keppnin gerist harðari og jafnari og dramatíkin í þessum annars rólega leik jafnast á við bestu úrslitaleiki í öðrum íþróttum.

Tækifærið hefur sennilega ekki verið betra fyrir Íslendinga en árið 2014 þegar keppnin fer fram á Gleneagles golfvellinum í Skotlandi en mikið styttra verður það einfaldlega ekki fyrir áhugafólk hérlendis.

En skemmst er frá því að segja að ekki er alveg hlaupið að því að fá miða eða gistingu og jafnvel þó það gangi eftir munu herlegheitin kosta þig duglega.

Miðaverð á Gleneagles í Skotlandi liggur ekki fyrir þegar þetta er skrifað enda lauk síðasta móti aðeins í gær. Miðaverð á viðburðinn á Medinah í Chicago gefur þó einhverjar vísbendingar. Þar gátu áhugasamir keypt aðgang að svæðinu fyrir mótið og meðal annars fylgst með stórstjörnunum æfa sig fyrir um 4.500 krónur hvern dag. Keppnisdagana sjálfa voru ódýrustu miðar í boði á 25.000 krónur á dag og verð enn hærra en það lokadaginn.

Þarna var um opinbert miðaverð að ræða en eins og gefur að skilja er eftirspurn mun meiri en framboð og miðar ganga kaupum og sölum þegar nær dregur á mun hærra verði en þetta.

Ferðaskrifstofur nokkrar buðu pakkaferðir til Medinah um liðna helgi þar sem innifaldir voru miðar alla keppnisdagana, sæmilegt hótel í Chicago þá daga auk ferða til og frá hótelinu og golfvellinum. Algengt verð fyrir þennan pakka reyndist vera milli 300 og 370 þúsund krónur á mann. Inni í þeirri tölu voru flugferðir ekki meðtaldar en frá Íslandi hefði verið nærtækast að fljúga til Minneapolis eða Toronto og keyra þaðan til Chicago. Mjög gróflega má því ætla að Íslendingur með miða keppnisdagana, hótel og flug hefði þurft að greiða um hálfa milljón króna fyrir allt saman.

Mun ódýrara er að komast til Skotlands árið 2014 en þar eru hótel og gististaðir mun færri en í Chicago og verð því væntanlega hærra.

Til að komast í miða þarf fólk að skrá sig formlega á vef European Tour. Í kjölfarið verður dregið um hverjir hljóta miða og viðkomandi látinn vita. Þarf að greiða miðana strax og það er ljóst. Þá fyrst er í lagi að huga að gistingu en hafa skal í huga að litlar sem engar líkur eru til að leigja heilu húsin undir fjölskyldurnar eða vinahópinn þennan tíma. Þeir sem slíkt leigja leitast helst eftir að leigja fyrirtækjum og verð hátt yfir því sem gengur og gerist.

Þeir sem ekki fá umbeðna miða verða að gera sér að góðu að kaupa þá af ferðaskrifstofum og / eða á svæðinu þegar þar að kemur. En sennilega verður fólk heppið ef miðar og gisting plús flug fæst mikið ódýrara en 400 þúsund á mann að lágmarki.