Þ ó runnið hafi duglega undan kaþólskri trú á Spáni hin síðari ár er engu að síður meirihluti landsmanna sem trú þá hefur enn þann dag í dag. Fyrir alla þá er engin borg á Spáni heilagri en Santiago de Compostela og reyndar er sú borg meðal kaþólikka almennt ein af þremur mikilvægustu borgum heims.

Það stafar af því að hér hvílir, segir sagan, sjálfur verndardýrlingur Spánar og einn af postulum Jesú Krists; sjálfur heilagur Jakob. Hafi menn skilning á spænska tungu segir nafn borgarinnar allt sem segja þarf. San merkir heilagur og tiago þýðir Jakob. Borgin heitir því eftir dýrlingnum sjálfum: Heilagur Jakob af Compostela.

Sú staðreynd að hér er Jakob sagður hvíla skyggir á velflest annað í borginni sem er bæði falleg og spennandi en án alls vafa er dómkirkja borgarinnar ein sú fegursta sem fyrirfinnst í veröldinni. Er hún stórkostleg smíð innan sem utan. Hún er vitaskuld áfangastaður allra þeirra pílagríma sem ganga hinn fræga Jakobsveg, Camino de Santiago, annaðhvort sér til skemmtunar og heilsubótar eða beinlínis til að fá syndaaflausn. Kirkjan sjálf og elsti hluti borgarinnar eru á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem ómissandi arfur mannkyns.

Þessi hundrað þúsund manna borg er höfuðborg Galicíu héraðs og að frátöldum þeim trúuðu sem hingað flykkjast alla daga allt árið er líka rekinn hér einn elsti og mikilvægasti háskóli Spánar og borgin því full af ungu fólki og því lífi sem fylgir háskólanemum. Einn stór kostur við það er líka að hér er fjöldi fólks sem talar ágæta ensku og önnur tungumál og því auðvelt að fá aðstoð eða hjálp.

Hafa skal í huga að margir hér tala ekki hina hefðbundnu spænsku heldur galísku sem er hálfblendingur af spænsku og portúgölsku. Hún skilst þó sæmilega þeim er skilja annaðhvort málið bærilega.

Loftslag og ljúflegheit

Ólíkt því sem gerist sunnar í landinu og ferðamenn þekkja flestir rignir meira í Galicíu en annars staðar í landinu. Af þeim sökum er hér gróðursælla og grænna en sunnar en veturnir geta líka verið töluvert kaldir enda sendir Atlantshafið reglulega feitar og djúpar lægðir inn yfir norðvesturodda Spánar.

Kaldast fer hitastig niður í þrjár til fjórar gráður yfir háveturinn en þess utan er hér ósköp þægilegt að vera. Meðalhiti yfir árið eru 19 gráður sem Íslendingum ætti að finnast harla gott mál.

Til og frá

Sértu ekki á þeim skónum að labba hingað Jakobsveginn fræga eða hjóla eins bókstaflega þúsundir gera árlega er hér glænýr flugvöllur. Santiago flugvöllur, Aeropuerto de Santiago, er einn allra nýjasti flugvöllur landsins og hér er allt fyrsta flokks. Talsvert af verslunum og netaðgangur um alla bygginguna en greiða þarf fyrir.

Flugvöllurinn er tíu kílómetra utan borgarinnar og tekur það röskar 20 mínútur að druslast niður í miðbæ. Leigubílar eru vitaskuld til reiðu öllum stundum og taka fast gjald, 2.700 krónur, fyrir ferð í miðborgina. Í þokkabót er eilítið aukagjald fyrir farangur.

Seinlegra en ódýrara er að taka strætisvagn. Þeir stoppa við flugstöðina og á tveimur stöðum til viðbótar áður en í miðborgina er komið. Rúnturinn tekur því tæpar 30 mínútur en kostnaðurinn aftur á móti aðeins 480 krónur á mann.

Bílaleigubílar eru einnig fáanlegir á flugvellinum og er það ágætur kostur á þessum slóðum ætli fólk víðar en aðeins til Santiago.

Ekki má heldur gleyma lestinni. Hingað koma lestir frá Madríd reglulega og er lestarstöð Santiago nálægt miðbæjarsvæðinu.

Samgöngur og skottúrar

Santiago er þrátt fyrir allt lítil borg og það sem áhugasamur ferðalangur vill skoða og sjá er auðvelt að vitna á tveimur jafnfljótum. Engin þörf er á bifreið inni í borginni.

Sé óvenju mikill áhugi á almennum hverfum borgarinnar er hér tiltölulega gott strætisvagnakerfi. Yfir 20 vagnar fara þvera og endilanga borgina með reglulega millibili. Sjá nánar á heimasíðu fyrirtækisins Tralusa hér. Vefur þeirra aðeins á spænsku en kortin segja sína sögu. Miðaverð á fullorðinn er 180 krónur.

Þá er hér líka lítil túristalest, tren turistico, sem fer lítinn hring á miðbæjarsvæðinu með reglulega millibili. Það er ágæt leið til að átta sig á borginni í fljótheitum. Hún er auðfundin sem og stoppustöðvar sem eru vel merktar.

Söfn og sjónarspil

>> Dómkirkjan (Catedral de Santiago de Compostela) – Ein allra þekktasta bygging á öllum Spáni og vel út fyrir það land. Byggð ofan á gröf heilags Jakobs að því er sagan segir og þá gröf er hægt að heimsækja. Kirkjan sjálf er mögnuð og það meira að segja fyrir þá sem fengið hafa almennt nóg af kaþólskum kirkjum sem margar eru listasmíð. Aðgangur að kirkjunni og gröf heilags Jakobs er frír en til að skoða aðra hluta kirkjunnar, kirkjusafnið eða grafhýsin undir henni þarf að greiða fyrir. Er það varla þess virði nema fólk sé mjög áhugasamt um kirkjuna og kaþólska trú. Þúsundir ferðamanna hér reyna þó duglega á þolinmæðina og langar raðir venja en ekki undantekning. Skylda er að ganga kringum kirkjuna alla þó stór sé því sumir hlutar hennar er skreyttir og það listilega. Dómkirkjan er opin skoðunar alla daga, 10 til 14 og aftur 16 til 20 nema á sunnudögum aðeins milli 10 og 14. Messur eru öllum opnar en takmarkaður fjöldi fólks kemst inn hverju sinni. Sami opnunartími fyrir kirkjusafnið sem er skoðunar virði. Aðgangseyrir fyrir safnið er 850 krónur. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Tvennt er sérstaklega merkilegt hér fyrir utan sjálfa kirkjuna. Annars vegar sá siður að kyssa líkneski Heilags Jakobs sem finnst í litlu rými undir altari kirkjunnar. Þykir það boða mikla gæfu og eru raðir þar alla daga langar og miklar. Hins vegar er frægt að meðan á messum stendur er gríðarmiklu reykelsi sveiflað eftir endilöngum gangi kirkjunnar. Botafumero heitir sá siður og þarf fjóra til sex fíleflda karlmenn til að sveifla í hvert sinn. Er það sjónarspil en siðurinn er talinn hafa verið tekinn upp þegar lyktin í kirkjunni var orðin miður góð þegar hundruðir pílagríma, sem margir höfðu ekki þvegið sér dögum saman, komu saman í messum.

>> Obradoiro torgið(Praza do Obradoiro) – Þetta er torgið fyrir framan dómkirkjuna og eitt allra stærsta almenningstorg á Spáni. Hér er kílómeter núll og endapunktur fyrir alla göngugarpana sem þrammað hafa Jakobsveginn. Við torgið eru allar byggingarnar tilkomumiklar þó engin jafnist á við gríðarlegt kirkjuhúsið.

>> Gistihús hinna kaþólsku konunga ( Hostal dos Reis Católicos) –   Þessi reisulega bygging við Obradoiro torg var upphaflega byggt sem sjúkrahús af hálfu konungsins til að sinna þeim pílagrímum er hingað komu. Síðar breyttist þetta í gistihús og það er það ennþá en þó rekið af sem svokallað Parador gistihús af spænskum stjórnvöldum. Sjá nánar um Paradores hér. Hótel þetta er talið elsta hótel heims.

>> Höll Raxoi (Palacio de Raxoi) – Önnur reisuleg bygging við Obradoiro torg er höll Raxoi. Byggð sérstaklega til að hýsa bæjarráðið, fangelsi bæjarsins og fundarsali á sínum tíma. Hún er enn í notkun sem stjórnarráð Galisíu héraðs. Sjálfsagt er að kíkja inn þó ekki sé hægt að skoða ýkja mikið.

>> Gelmírez höllin (Palacio de Xelmírez) – Enn ein glæsibyggingin er þessi hér byggð í rómverskum stíl á tólftu og þrettándu öld. Þarna er nú höfuðsetur erkibiskupsins af Santiago.

>> Quintana torgið (Praza da Quintana) – Annað af tveimur torgum við dómkirkjuna glæsilegu. Á þessum stað í fortíðinni var kirkjugarður og bæjarmarkaður að auki.

>> Silfursmiðstorgið (Praza de Praterías) – Silfursmiður voru býsna merkileg stétt á sínum tíma og fengu sitt eigið torg hér í bæ. Hér gefur að líta afar fallegan gosbrunn en meira er um vert að héðan má fá hvað besta útsýn yfir dómkirkjuna frægu.

>> San Martín Pinario klaustrið (Monasterio de San Martín Pinario) – Barokkstíll þessa klausturs Benediktareglunnar frá elleftu öld er áberandi og er þetta ein af fegurri byggingum borgarinnar að dómkirkjunni frábrugðinni. Klaustrið stendur við Inmaculada torgið.

>> Markaðstorgið (Praza de Abastos) – Eitt stærsta og líflegasta markaðstorg Spánar. Hér fæst allt milli himins og jarðar svo lengi sem það flokkast undir grænmeti og ávexti, fisk eða kjöt og stöku hluti aðra. Sé dvalið í borginni lengur en stundarkorn er stopp hér málið til að fylla skápana af gómsætum og glænýjum mat. Sérstaklega er eftirminnlegt gríðarlegt úrval fisks af ýmsum toga enda stutt frá Santiago til hafnarborgarinnar Vigo þar sem stór hluti afla spænskra fiskimanna kemur á land. Klukkustund hér nægir vart til að skoða allt þó vissulega séu margir aðilar að bjóða svipaða vöru.

>> Nútímalistasafn Galisíu (Museo Galego De Arte Contemporaneo) – Við Rua Ramón María del Valle Inclán götu er að finna þetta nýlistasafn sem er hið besta sinnar tegundar í Galisíu að mati fræðinga. Ekki skemmir fyrir að aðgangur er frír. Opið 11 til 20 daglega. Heimasíðan.

>> Pílagrímasafnið (Museo de las Peregrinaciones y de Santiago) – Pílagrímar hafa komið hingað með öllu mögulegu móti í aldanna raðir og hér er safn tileinkað því fólki sem lagt hefur það ferðalag á sig. Sérstaklega fróðlegt þeim er koma hingað fótgangandi Jakobsveginn. Opið daglega nema mánudaga 10 til 20 en milli 10:30 og 14 um helgar. Aðgangur ókeypis undir 18 ára en annars 450 krónur. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Hér eru allnokkrar fleiri reisulegar kirkjur en eingöngu dómkirkjan. Þær er þess virði að skoða en blikna vitaskuld allar við hlið dómkirkjunnar.

Verslun og viðskipti

Úrval verslana í Santiago er furðugott miðað við að borgin er ekki stærri en hún er. Því miður er stór hluti smærri verslana eingöngu að selja minjagripi og annað ferðamannaglingur. Trúarlegir munir fást afar víða og hér eru víða seldar postulínsflísar eins og þær sem vinsælar eru í Portúgal.

Fyrir hefðbundnari vörur eins og fatnað er ágætt úrval hér af verslunum og flestar helstu merkjaverslanir finnast. Gróft talað eru helstu verslunargöturnar kringum lestarstöðina í báðar áttir. Verslunarmiðstöðvar eru tvær. El Corte Ingles við Rua do Restallal og Área Central við garð Karlamagnúsar.

Matur og mjöður

Fiskur á disk er kjörorðið í Galisíu enda hvergi fleiri fiskimenn sem út gera en héðan. Heimamenn eru sérstaklega hrifnir af steiktum kolkrabba, pulpo, sem víðast hvar fæst. Annars er enginn staður hér sem ekki býður glænýtt hráefni úr sjó.

Héraðið er einnig framarlega í gerð osta og kökum eru menn hrifnir af hér. Enginn getur státað af heimsókn án þess að bragða Tarta de Santiago.

Hvað áfengi snertir er Galisía ekki langt frá fínum vínræktarhéruðum Douro í Portúgal. Ágæt hvítvín er framleidd í suðurhluta héraðsins og Albariño þar fremst meðal jafningja. Þá er óvitlaust að prófa Orujo sem margir súpa hér. Sá drykkur er gerður úr vínberjum eftir að búið er að þrykkja berin. Ekki drykkur allra en sjálfsagt að prófa.

Ekki einn einasti skortur er á ágætum börum eða veitingastöðum í Santiago de Compostela. Í gamla bænum eru fjölmargir slíkir staðir með ágætri aðstöðu utandyra ef veður er milt og gott. Sé dúndurstuð í mannskapnum eru fjörugri barirnir í og við háskólann til norðurs.

Einir 23 veitingastaðir komast á lista Michelin yfir allbærilega eða betri. Þá má sjá hér.

Líf og limir

Töluvert er um þjófa hér enda raunin sú að pílagrímar margir eru lítt með hugann við vasa og veski þegar þeir loks komast á leiðarenda.

Að öðru leyti er ósköp hættulaust að þvælast um Santiago og heimamenn almennt nokkuð vinsamlegir þó það sé álit Spánverja að Galisíumenn séu manna erfiðastir í umgengni.

View Santiago de Compostela á Spáni in a larger map