Skip to main content

F rægasti strandbær Englands er efalítið borgin Brighton og þótt ekki sé hún eins vinsæl í dag og áður fyrr býr borgin yfir vandfundnum sjarma miðað við aðrar borgir landsins. Þar spilar strandlengja borgarinnar stóra rullu og eins nálægð við höfuðborgina London en þangað eru aðeins 76 kílómetrar eða innan við klukkustund í bíl eða lest.

Þarna búa 250 þúsund manns eftir að bæirnir Brighton og Hove voru sameinaðir í einn árið 2000. Heitir Brighton því strangt til tekið Brighton & Hove en flestir láta Brighton nægja.

Með vaxandi fjölda ríkra höfuðborgarbúa sem hér setjast að til að flýja ys og þys London hefur með þeim komið vafasamir einstaklingar og glæpir eru hér nokkuð tíðir. Þá er Brighton og, í óþökk margra, höfuðborg samkynhneigðra í Bretlandi ef svo má að orði komast en þeir hafa tekið undir sig nánast heilt hverfi borgarinnar, Kemp Town, sem er töluvert frábrugðinn öðrum borgarhlutum.

Til og frá

Langflestir koma hingað með lestum frá London en hingað ganga lestir bæði frá Viktoríu stöð og London Bridge stöð mjög reglulega. Tekur það rétt innan við klukkustund að fara á milli.

Rútur eru vinsæll fararmáti líka en sökum reglulegs umferðaröngþveitis er það aðeins möguleiki sé nægur tími fyrir hendi. Getur klukkustundar rúnturinn auðveldlega húrrað upp í þriggja tíma akstur þegar verst lætur. Fyrirtækið National Express býður þjónustu á milli.

Sama gildir um einkabílinn. Þjóðvegur A23 frá London til Brighton er pakkaður velflesta daga og að auki er Brighton ekki skemmtileg borg að aka um. Stæði eru fá og dýr, sérstaklega á sumrin, og umferðin veruleg.

Hér er lítill flugvöllur til staðar, Brighton City Airport, en nær lagi er að brúka Gatwick flugvöll sé ætlunin að skjótast hingað. Sá er, merkilegt nokk, aðeins í 25 mínútna fjarlægð frá borginni.

Samgöngur og snatterí

Strætisvagnar eru líklegt besta leiðin um Brighton enda vagnar margir og ferðir tíðar. Brighton & Hove Coach Company sinnir þeirri þjónustu og miðaverð fyrir staka ferð er 320 krónur.

Borgaryfirvöld hafa gert vel við hjólreiðafólk á undanförnum árum og víða í borginni má finna hjólreiðastíga. Það er efalítið einfaldasta leiðin til að komast um. Hjólaleigur eru nokkrar hér en tryggingagjald fyrir slíkt er fokdýrt í kringum 35 þúsund krónur í viðbót við 3.500 krónur fyrir dagsleigu.

Leigubílar eru út um allt hér en þeir eru dýrari hér en annars staðar í Bretlandi. Sérstakt startgjald er sett á um helgar og kostar þá 740 krónur bara að setjast inn.

Söfn og sjónarspil

>> Brighton bryggjan (Brighton Pier) – Sennilega þekktasta bryggja Bretlands enda kemur sú fyrir í fjölmörgum þáttum og bíómyndum. Hún er þó lítt merkileg í reynd og reyndar öll í eigu einkafyrirtækis. Þar eru barir, veitingastaðir, leiktækjasalur og sölubásar en allt fremur dýrt. Heimasíðan.

>> Brighton ströndin (Brighton Beach) -Ströndin er engu minna þekkt en bryggjan og hér er jafnan vel pakkað öll sumur og reyndar alla daga sem sól skín. Sem vekur nokkra furðu því ströndin er að mestu leyti steinströnd en ekki sandströnd og verður reyndar að bíða flæðis til að geta trítlað um í sandi.

Til umhugsunar: Sérstakur hluti Brighton strandarinnar er frátekin sem nektarströnd. Er sá hluti til austurs frá aðalströndinni.

>> Konunglega höllin (Royal Pavilion) – Fallegasta byggingin í Brighton og þótt víðar væri leitað er þessi esótíska höll sem virðist nokkuð úr takti hér enda smíðuð undir asískum áhrifum á sínum tíma. Smíðuð á árunum 1787 til 1823 fyrir Georg Níunda Englandskonung og byggingastíllinn átti að vera til heiðurs Taj Mahal á Indlandi. Hér er nú stórt safn en byggingin sjálf og garðar hennar eru líka sjón að sjá. Opið 10 – 17 á veturnar og 9 – 17:45 á sumrin. Nauðsynlegt er að bóka fyrirfram í júní og júlí. Miðaverð 2.200 krónur. Heimasíðan.

>> Sjávarlífssafnið (Sea Life Centre) – Sædýrasafn Brighton við Marina Parade er ágætt og sérstaklega góð áning með smáfólk með í för. Opið 10 – 17:30 alla daga. Miðaverð 2.400 krónur. Heimasíðan.

>> Kemphverfið (Kemptown) – Eitt samkynhneigðasta hverfi Bretlands er Kemphverfið í austurátt frá miðbæ Brighton. Margir fínir barir og veitingastaðir á þessum slóðum.

>> Listasafn Brighton (Brighton Museum & Art Gallery) – Ágætt safn á lóð konunglegu hallarinnar fimm mínútur frá miðbænum. Opið þriðju- til sunnudaga milli 10 og 17. Aðgangur frír. Heimasíðan.

>> Rafmagnslest Volks (Volk´s Electric Railway) – Fyrsta rafmagnslest heimsins var smíðuð hér í Brighton en sú gengur enn á sumrin á milli Brighton bryggju og bátahafnarinnar. Tilkomulítil í dag en hóf lestin ferðir sínar 1883 en engu að síður ágætur rúntur. Aldrei þessu vant er líka miðaverði stillt í hóf og kostar rúnturinn 190 krónur. Heimasíðan.

>> Fabrica listasafnið (Fabrica Art Gallery) – Vinsælt gallerí meðal heimamanna og staðsett í gamalli kirkju en áherslan hér á hið sjónræna og skipt er ört um sýningar. Opnunartími misjafn eftir sýningum og árstíð. Aðgangur frír. Heimasíðan.

>> Fagnaðartorg (Jubilee Square) – Í North Laine hverfi er þetta torg við samnefnt bókasafn. Fallegt torg og bókasafið er myndarleg bygging.

Verslun og viðskipti

Töluvert úrval verslana er í Brighton og ekki skortir fjölbreytnina. Hins vegar er breska pundið lítill vinur íslensku krónunnar og því vörur hér almennt frekar dýrar. Brighton borg er þekkt á Bretlandseyjum fyrir að þar eru almennt miklu fleiri sérverslanir en annars staðar í landinu.

Besta og skemmtilegasta verslunarhverfið er Laines án alls efa. Ekki aðeins er hverfið lifandi og almennt skemmtilegt heldur finnast hér gallerí og smærri verslanir einyrkja sem hvergi finnast annars staðar. Inn á milli eru eðlilega þekktari verslanir og því hægt að gera magninnkaup hér og láta það nægja.

Laines skiptist í norðurhluta og suðurhluta. Báðir eru fínir hvað verslun varðar og auðvelt að eyða peningum hér og slaka á í kjölfarið á hlýlegum breskum börum eða veitingastöðum sem einnig finnast hér.

Hvað hefðbundar verslanir varðar er vænlegast að halda sig við Brighton bryggju en þar eru fjölmargar þekktar verslanir. Sama er uppi á teningnum í London stræti og þar eru tískuverslanirnar sem finnast alls staðar í veröldinni.

Helsta og besta verslunarmiðstöð Brighton er Churchill Square í miðbænum skammt frá bryggjunni.

Matur og mjöður

Hér er matur ekki af skornum skammti, allra síst á sumrin, þegar íbúafjöldi Brighton margfaldast. Skyndibitastaðir eru á hverju strái og velflestir pöbbar bjóða óheilsusamlegan mat með bjórnum.

Betri veitingastaðir eru færri en þeir helstu eru:

Hvað bari varðar nægir í raun að labba út úr húsi til að rekast á slíkt fyrirbæri. Finnast þeir af öllum toga hér.

Djamm og djúserí

Sem fyrr segir er Brighton „höfuðborg“ samkynhneigðra í landinu og það fólk skýtur ekki skökku við þegar kemur að skemmtunum. Ekki skal koma á óvart að sjá samkynhneigða á klúbbum borgarinnar. Þeir helstu eru:

Hátíðir og húllumhæ

Sökum nálægðar við sjóinn og einna hæst hitastigs á öllum Bretlandseyjum á ekki að koma á óvart að Brighton er vinsæl til hátíðahalda hvers konar. Þetta er sem dæmi áfangastaður númer eitt fyrir steggja- og gæsapartí í öllu landinu.

En stærstu hátíðahöldin sem hér fara fram eru hátíðir sem eru nógu stórar til að vera landsþekktar. Þar er Brighton Festival langstærst en það er önnur þekktasta listahátíð Bretlandseyja. Á sama tíma og sú hátíð fer fram er önnur einnig í gangi þar sem list er einnig í forgrunni en öðruvísi list en þessi hefðbundna. Brighton Festival Fringe heitir sú.

Brighton Pride er gay pride ganga þeirra í Brighton og óvíða er sú ganga fjölmennari en hér. Þá er vert að minnast á London to Brighton Bike Ride þar sem þúsundir hjólreiðamanna hjóla milli borganna tveggja og enda á veisluhöldum í Brighton.

Líf og limir

Það er ljóður á annars ágætri borg að hér er töluvert um glæpi og meira af smáglæpum en í velflestum öðrum borgum Bretlands. Það skýrist af stóru leyti vegna þess að sumarleyfisgestir eru ekki passasamir.