O ftar en tölu verður á komið kalla ferðaskrifstofurnar íslensku ýmsa misjafna áfangastaði þá best geymdu í hverju landi. Sem er kjánalegt í meira lagi því leyndarmálið er lítið og lélegt ef ferðaskrifstofa á klaka í ballarhafi veit um það.

Það er því pínulítið með blendnum tilfinningum sem ritstjórn Fararheill leyfir sér að kalla borgina Santander best geymda leyndarmál Spánar.

Staðreyndin er að Santander er lítt þekktur áfangastaður vegna þess að þangað bjóða afar fáir skipulagðar ferðir. Norðurhluti Spánar almennt er lítið á radarnum hjá evrópskum ferðaskrifstofum ef frá er talin Bilbao með sitt Guggenheim og San Sebastian með sína frægu kvikmyndahátíð. Þó reyndar sækja hingað töluvert sælkerar á eigin vegum mikið enda hvergi betri matur í landinu en hér á norðurslóðum.

Ritstjórn hefur þvívegis notið þess að dvelja stundarkorn í Santander. Borgin sjálf er ekki á pari við stórborgirnar Barcelóna eða Madríd hvað kostulegar minjar eða sjónarspil snertir en stærð Santander er afar þægileg og umhverfið allt mjög heillandi. Hér búa um 180 þúsund manns eða rösklega sami fjöldi og á Stór-Reykjavíkursvæðinu en þar með lýkur þeim samanburði. Santander pakkar Reykjavík saman eins og blautri og skítugri tusku. Þá eru íbúar vinsamlegri við ferðafólk þar sem tiltölulega lítið er af þeim miðað við aðrar borgir Spánar.

Extra bónus er að hér blæs oft gæfur vindur af hafi sem þýðir að þó hitamælirinn geti vel farið yfir 30 gráðurnar finnur fólk sjaldan fyrir óþægindum vegna hita eins og reyndin er oft annars staðar í landinu.

Hér er einhverjar allra bestu strendurnar í öllu landinu og væri Santander hinu megin á Spáni ætti Costa del Sol ekki sjéns. Strendur sem tilheyra borginni eru hvorki fleiri né færri en níu talsins þó nokkrar þeirra séu í minni kantinum. Hver einasta þeirra hefur fengið Bláfánastimpil fyrir hreinlæti, aðstöðu og hreinan sjó.

Santander er höfuðborg Cantabria héraðsins sem er milli Baskalands til austurs og Asturía til vesturs. Hún er líka ein af fáum borgum Spánar með reglulegar siglingar til og frá Englandi en ferja kemur hingað frá Portsmouth einu sinni vikulega.

Loftslag og ljúflegheit

Sumarið hér er tiltölulega mikið styttra en gerist sunnar í landinu. Hér er strax farið að kólna áberandi í lok september og enginn stríplast mikið á ströndum hér fyrr en líða fer vel á aprílmánuð.

Meðalhitastig í janúar er hér milli 8 og 9 gráður en í júlí og ágúst er 18 til 19 gráður reglan að meðaltali. Segja má að á Santander sé íslenskt hitastig þegar það gerist allra best.

Til og frá

Ekki er alveg hlaupið að því að komast til Santander frá Íslandi fyrirhafnarlaust en þó ekkert megavesen heldur. Hér er jú flugvöllur, Aeropuerto de Santander, en sá er fyrst og fremst innanlandsvöllur þegar þetta er skrifað. Hann er góður til brúksins og nálægt borginni. Strætisvagnar fara til og frá á 15 mínútna fresti milli átta á morgnana til níu á kvöldin og endastöð í miðbænum. Eftir það eru leigubílar eina leiðin en túr aðra leiðina kostar um það bil tvö þúsund krónur.

Tæpa klukkustund tekur að fljúga hingað frá Madríd eða Barcelóna og með fyrirhyggju má finna fargjald á lágu verði. Hingað er einnig flogið frá Alicante og sömuleiðis þaðan oft í boði ágæt tilboð. Kannið vefsíðu Vueling.com með það í huga. Þá flýgur Ryanair hingað líka en óreglulega.

Sem fyrr segir er hér ágæt ferjuhöfn og vilji fólk aðeins breyta til er óvitlaust að fljúga til London, taka rútu til Plymouth eða Portsmouth og þaðan ferjuna til Santander. Sú sigling tekur aðeins 20 stundir og því sleikir fólk sólskinið í Santander um miðjan dag sé flogið frá Íslandi um morgun og ferjan tekin síðdegis. Ferjurnar sem bjóðast eru fínar og eiga ekkert skylt við Akraborgina þó auðvitað geti alltaf verið erfitt í sjóinn og sjóveiki geri vart við sig. Það er þó sjaldgæfara á sumrin. Brittany Ferries bjóða þær ferðir en hafa ber í huga að það er aðeins einu sinni í hverri viku.

Rútur bjóðast ennfremur frá helstu borgum en ferðalagið er langt. Frá Madríd með rútu tekur túrinn sex klukkustundir og litlu skemur á einkabíl. Lengra er frá Barcelóna.

Að síðustu er hægt að komast hingað með lestum en þó aðeins beint frá Bilbao. Þangað hins vegar fara margar lestir frá mörgum borgum.

Söfn og sjónarspil

>> Menéndes Pelayo safnið (Biblioteca de Menéndes Pelayo) – Einn frægasti rithöfundur og heimsspekingur Spánverja er héðan og bjó hér og hefur heimili hans verið breytt í safn. Aðallega vinsælt meðal þeirra sem til hans þekkja en kannski minna fyrir aðra. Þó er bókasafnið sannarlega glæsilegt og vert innlits enda átti karlinn aðeins rúmar 40 þúsund bækur. Calle de Rubio stræti. Opið 10:30 til 13 og aftur 18:30 til 20 virka daga nema mánudaga. Aðeins 10:30 til 13 á laugardögum. Frír aðgangur. Heimasíðan.

>> Dómkirkjan (Catedral de la Asuncion) – Dómkirkja borgarinnar er lítt merkileg í samanburði við þær glæsilegu kirkjur sem finna má víða á Spáni. Þó verð skoðunar enda í raun tvær kirkjur steyptar í eina. Jarðhæðin var nefninlega byggð á þrettándu öld og svo bara bætt hæð ofan á tveimur öldum síðar. Inni er á litlum kafla glergólf þar sem undir má sjá minjar frá tíma Rómverja í borginni. Plaza del Obispo Jose Eguino y Treco. Opið alla daga 10 til 13 og 17 til 20. Aðgangur ókeypis.

>> Hafsögusafnið (Museo Maritimo del Cantábrico) – Forvitnilegt safn um sjóferðir heimamanna fyrr og nú og lítið sædýrasafn í plús. Ekki er saga sægarpa héðan ómerkilegri en vorra garpa eins og fræðast má um hér. Calle San Martin de Bajamar. Opið alla daga 10 til 18:30. Miðaverð 1.000 krónur. Heimasíðan.

>> Sporthöllin (Palacio Municipal de Deportes) – Ekk alveg ósköp venjulegt íþróttahús heldur mun meira í stíl við Guggenheim safnið þessi bygging sem deila má um hvort sé falleg eður ei. Afbragðs stopp fyrir áhugasama um arkitektúr. Calle del Alcalde Vega Lamera.

>> Fínlistasafnið (Museo de Bellas Artes) – Tilkomumikið safn verka frá síðustu fjórum öldum eða svo. Fjöldi verka hér til sýnis en þó engin til að missa sig yfir. Calle de Rubio. Opnunartími 10:30 til 13 og aftur 14 til 21 alla daga nema sunnu- og mánudaga. Frítt inn. Heimasíðan.

>> Fornleifasafnið (Museo Regional de Prehistoria y Arqueologia de Cantabria) – Þjált nafn á þessu áhugaverða fornleifasafni en rannsóknir vísindamanna hafa leitt í ljós að það var hér um slóðir sem manna er fyrst vart á Íberíuskaganum. Hefur fundist töluvert af gömlum minjum víða í og við norðurströndina og hér má líta flesta þeirra augum. Calle Casimiro Sainz. Opnunartími 10-13 og 16-19 nema mánudaga. Skemur um helgar. Frítt inn. Heimasíðan.

>> Nautahringurinn (Plaza del Toros) – Eins og víðar á Spáni er hér nautahringur og stöku sinnum boðið upp á uppákomur í þeim hringnum sem auglýst er rækilega á veggjum borgarinnar. Hér er þó líka á neðstu hæð safn tileinkað nautaati hér og víðar á Spáni. Calle Motevideo.

Annað áhugavert

Santander er sérstaklega vel hönnuð og hér meira gert fyrir gangandi en venjan er. Rölt um Pereda götu og garðana sem þar eru er bara snilld þegar veður er gott og eigi færri en helmingur borgarbúa virðist finnast það líka miðað við mannfjöldann.

Vert er að kíkja yfir á Magdalena skaga sem er afar vinsælt útivistarsvæði. Þar einnig er fyrirtaks strandlengja en einnig margir göngustígar og fæst sæmilegt útsýni yfir flóann og borgina héðan. Þar má líka finna Magdalena kastala sem byggður var fyrir Alfonso þrettánda Spánarkonung en er nú í eigu háskólans í Santander. Þar er oft líf á sumrin og hér er meðal annars haldnir reglulega píanótónleikar í garði kastalans. Á skaganum er einnig að finna lítið sædýrasafn þar sem selir leika aðalhlutverkin.

Sandur og sól

Strendurnar eru hér fyrsta flokks og þó Santander sé við Biskayaflóann er hitastigið í sjónum barasta dágott yfir sumartímann þó vissulega fari aðeins gallharðir einstaklingar mikið í sjóinn hér utan þess tíma. Hér eru líka næstum alltaf fínustu öldur til að sprella á svifbretti eða þess konar tækjum.

Vinsælasta ströndin er hin 250 metra Playa de la Concha, Skeljaströnd, sem er í norðurenda borgarinnar. Hér er gaman að spássera kvölds og morgna en ströndin sjálf er oft pökkuð af fólki enda lítil. Hér er gæsla og hægt að leigja bolta, sólstóla og ýmislegt annað til dundurs. Önnur vinsæl en öllu stærri er Playa de la Sardinero, Sardínuströnd, en hún er lengsta ströndin hér eða alls 1,3 kílómetri af gullnum sandi. Hér eru líka mörg hótel borgarinnar í næsta nágrenni og lítið mál að tölta á ströndina. Hér er meira að segja allur aðbúnaður hinn besti fyrir fatlaða líka.

Þrjár aðrar strendur við borgina sem allar hafa líka fulla þjónustu eru Playa el Camello, Playa Mataleñas og Playa de la Magdalena. Allar fyrirtak. Fleiri fínar strendur er hér að finna en þar er engin lífvarðavakt eða önnur þjónusta yfir sumartímann.

Golf og gleðistund

Á spænskan mælikvarða er Santander velmegandi borg og íbúar þar flestir eiga vel bót fyrir rass og afgang í vasa. Þess vegna eru hér sennilega fleiri golfvellir í grenndinni en gerist og gengur á stað sem lítið heillar ferðafólk. Kannski hefur það líka eitthvað með að gera að hér er fæddur, uppalinn og hér lést hinn heimsþekkti kylfingur Seve Ballesteros.

Einir sex golfvellir finnast í næsta nágrenni og þar af fjórir nánast í göngufæri. Þeir eru La Junquera, Golf Club Parayas, Real Golf de Padreña, Club de Golf Madaleñas og tveir vellir lengra frá.

Matur og mjöður

Hér finnst ekki síðri matur en austar í Baskalandi. Hér fást vitaskuld smáréttir víða en ekki sama áhersla á þá hér og austar gerist.

Fyrir það allra fyrsta verður fólk að finna fiskihverfið, barrio pesquero, sem svo er nefnt. Það er gróflega svæðið kringum Avenida de Sotoleza og þar tala heimamenn um að setja sjóinn á diskinn. Sjávarréttir hér eru fyrsta flokks og enginn kokkur með kokkum nema bjóða upp á rétti sem veiddir voru þann sama dag. Allra best er að veitingastaðir hér eru almennt í ódýrari kantinum enda gert meira úr matseldinni en útliti staðanna.

Sem fyrr er ritstjórn meinilla við að mæla með ákveðnum veitingastöðum sökum þess að smekkur fólks er svo misjafn að það er nánast kjánalegt. Að því sögðu eru hér fjórir staðir sem heimamenn sjálfir sækja stíft þegar þeir vilja súper-dúper mat í malla.

  • Bar del Puerto – Einn af þremur bestu stöðum borgarinnar en í dýrari kantinum. Hernan Cortez gata.
  • La Posada del Mar – Sá besti að mati heimamanna en fokdýr. Borðapantanir nauðsyn. Castelar gata.
  • Meson Segoviano – Sérhæfa sig í réttum frá héraðinu. Menandes Pelayo gata.
  • Bodego el Riojano – Meira bar en smáréttirnir fyrsta flokks og skrautlegar víntunnurnar skemmtilegar. Calle Rio de la Pila.

Áfengi og vín sötra menn hér af áfergju enda nóg af góðum vínum þó Cantabrico fari ekkert sérstaklega í bækur fyrir vínin sín. Ritstjórn Fararheill getur vottað að enginn er þó svikinn af þeim mörgum.

Líf og limir

Sökum þess að ferðamenn eru hér tiltölulega fáséðir með tilliti til annarra staða á Spáni eru misyndismenn einnig fáséðir hér. En auðvitað hverfur veskið ef þú leggur það frá þér á ströndinni eða gleymir á borðinu á veitingastaðnum. Almenn skynsemi virkar hér sem víðar.

View Allt sem þú vildir vita um Santander á Spáni en þorðir ekki að spyrja in a larger map