Skip to main content
„VIÐ hefðum aldrei trúað þessu að óreyndu en bókstaflega alls staðar var reynt að svindla og svína á okkur. Óhætt að segja þeim sem ætla þangað að gera ráð fyrir að ferðin kosti töluvert hærri upphæð en gert er ráð fyrir.“

Einn dýrasti áfangastaður heims er eyjan Máritíus. Mynd So Mauritius

Einn dýrasti áfangastaður heims er eyjan Máritíus. Mynd So Mauritius

Svo segir ungt par sem nýkomið er heim frá hinnu exotísku eyju Máritíus í Indlandshafi. Þar dvaldi parið í tíu daga á fjögurra stjörnu hóteli og hugðust aldeilis njóta lífsins lystisemda til fullnustu. En í ljós kom fljótt að ekki er allt gull sem glóir.

Eyríkið Máritíus er einn allra dýrasti áfangastaður í veröldinni en um er að ræða stórkostlega litla eyju um þúsund kílómetra til austurs af Madagaskar við strendur Afríku. Á eynni finnast nánast eingöngu lúxushótel og í 99 prósent tilfella bókar fólk dvöl hér með öllu inniföldu. Algengt verð á vikudvöl hér gegnum ferðaskrifstofu á flottu hóteli er 400 til 700 þúsund krónur.

Halla og Benedikt gistu á fjögurra stjörnu hóteli og með allt innifalið pakkann en komust að því eftir fyrsta bæjartúrinn að verðlag á hótelinu, og þar með það verð sem þau greiddu fyrir herlegheitin, var að lágmarki þrefalt til fjórfalt hærra en í nágrannabæjum. „Lítil vatnsflaska fékkst í bænum að meðaltali fyrir 80 til 100 krónur íslenskar en á hótelinu kostaði stykkið 600 krónur. Þá kostaði sexfalt meira að skipta peningum á hótelinu en annars staðar og þar fuku næstum fimm þúsund krónur í hvert sinn.“

Ekki var heldur auðvelt að þvælast um. „Leigubílstjórar vildu undantekningarlítið fara á allt aðra staði en íslenska parið. „Það voru alls kyns afsakanir fyrir að keyra okkur eitthvað annað en við vildum fara og kostaði meira að segja riflildi við einn bílstjórann að komast þangað sem við vildum. Sá ók með fýlusvip alla leiðina eftir það.“

Bílstjórar á eynni fá greiddar prósentur af hálfu verslana og safna fyrir að koma með viðskiptavini inn fyrir en slíkt er æði algengt víða í Afríku og Asíu. Sumir þeirra taka þá þóknun full alvarlega og jafnvel stoppa þó skýrt hafi verið tekið fram að gera það ekki. Margar þessara „verslana“ selja nánast eingöngu falsvörur af ýmsu tagi á uppsprengdu verði.

„Eyjan sjálf er þó dásemd og það er engin leið að lýsa ströndunum eða kristaltærum sjónum allt í kring með góðu móti. En viðmótið alls staðar er helst til yfirborðskennt og á köflum leiðinlegt og það gildir inn á hótelunum og utan. Allir vilja græða á túristunum og ekkert heilagt í þeim efnum. Það setti leiðinlegan blett á æðislegan stað.“